Klapparstígur 9, Keflavík, Reykjanesbæ
Klapparstígur 9, Keflavík, í desember 2014. Heimild: Fagurkeri við Klapparstíg. Víkurfréttir 28. desember 2014. Sótt 20. mars 2025 af https://www.vf.is/mannlif/fagurkeri-vid-klapparstig.
Klapparstígur 9, Keflavík, í júlí 2024. Ljósm.: www.google.com/maps.
Saga:
Árið 1918 gengu þau Kristinn Jónsson (1896-1964) og Ragnhildur Stefánsdóttir (1896-1975) í hjónaband. Þau fluttu til Keflavíkur með börnin sín fimm árið 1929. Þau settust að í húsi sem Kristinn hafði byggt við Kirkjuveg 1 í Keflavík og bjuggu þar æ síðan. Kristinn var ætíð kenndur við bæinn Loftsstaði í Miðneshreppi, þar sem hann óx úr grasi og færðist það heiti einnig yfir á hús hans í Keflavík.1Minning. Kristinn Jónsson vigtarmaður, Keflavík (1964, 6. júní). Tíminn, 48. árg., 125. tbl., bls. 13.
Eins og flestir Miðnesingar stundaði Kristinn sjómennsku frá blautu barnsbeini, fyrst á opnum bátum og síðar á vélskipum. Hann var einn þeirra manna, er á sínum tíma réðust í það stórræði, að stofna til útgerðarfélags og láta byggja mótorskipið Keflvíking, stærsta bátinn, sem þá var skráður í Keflavík. Höfðu þeir félagar samvinnasnið á útgerð sinni, sem var hrein nýlunda í þá daga. Eftir að Kristinn hætti sjómennsku, gerðist hann vigtarmaður hjá Keflavíkurhöfn, og því starfi gegndi hann af frábærri skyldurækni og trúmennsku, þar til nú í vetur, að heilsan bilaði og hann varð að hverfa af vettvangi starfsins.2Minning. Kristinn Jónsson vigtarmaður, Keflavík (1964, 6. júní).
Árið 1990 var ljóst að húsið þurfti að víkja fyrir nýbyggingu sem átti að reisa á horni Tjarnargötu og Kirkjuvegar. Þá var Hermann Ragnarsson eigandi hússins. Hann fékk lóð númer 9 við Klapparstíg í Keflavík undir húsið. Þar er mikil prýði að húsinu og auðséð að Páll V. Bjarnason hefur lagt alúð við endurhönnun hússins, eigandinn við endurbyggingu þess og núverandi eigandi við viðhald þess.3Gögn úr skjalasafni Reykjanesbæjar.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 20. mars, 2025
Heimildaskrá
- 1Minning. Kristinn Jónsson vigtarmaður, Keflavík (1964, 6. júní). Tíminn, 48. árg., 125. tbl., bls. 13.
- 2Minning. Kristinn Jónsson vigtarmaður, Keflavík (1964, 6. júní).
- 3Gögn úr skjalasafni Reykjanesbæjar.
Deila færslu
Síðast uppfært 20. mars, 2025