Gamla timburkirkjan á Húsavík.

Sæmundur Rögnvaldsson (1981). Húsavík fyrri tíma. Verslun, brennisteinsnám og kirkja, bls. 73. Í Saga Húsavíkur, I. bindi, bls. 8-76. Karl Kristjánsson aðalhöfundur og safnari. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður.
Gamla timburkirkjan á Húsavík. Sæmundur Rögnvaldsson (1981). Húsavík fyrri tíma. Verslun, brennisteinsnám og kirkja, bls. 73. Í Saga Húsavíkur, I. bindi, bls. 8-76. Karl Kristjánsson aðalhöfundur og safnari. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður.

Kirkjubær, Húsavík

Heiti: Surtla
Byggingarár: 1840
Rifið: ≈1980
Upphafleg notkun: Kirkja
Fyrsti eigandi: Húsavíkursókn
Aðrir eigendur:
1907: Eiríkur Þorbergsson smiður
1909: Þórarinn Stefánsson
Upphafleg staðsetning: Í gamla kirkjugarðinum, Húsavík
Flutt: 1907 að Garðarsbraut, Húsavík
Kirkjubær 2

Kirkjubær við Garðarsbraut.

Sigurjón Jóhannesson (1985). Bókaverslun Þórarins Stefánssonar 75 ára. Ávarp flutt í Húsavíkurkirkju 16. september 1984, bls. 58. Árbók Þingeyinga, 28, bls. 56-65.

Kirkjubær 3

Saga:

Sumarið 1840 var reist timburkirkja á Húsavík úr norskum við. Hún stóð þar sem nú er gamli kirkjugarðurinn á Húsavík. Aðalsmiðir kirkjunnar voru þeir Niels Biering og Þorleifur Stefáns­son, en líklegt er að hinn landskunni smiður Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni hafi haft yfirum­sjón með verkinu, þó hann hafi einungis unnið fjóra daga við kirkjusmíðina. Ljóst er að mjög hefur verið vandað til kirkjunnar, sem sést bæði af því að hún stóð óskemmd eftir mikinn jarðskjálfta sem reið yfir 18. apríl 1872 og þegar hætt var að nota hana sem guðshús var hún flutt og gerð að íbúðarhúsi. Árið 1878 var kirkjan þó orðin illa farin af fúa, en gert var við hana haustið 1879 og kirkjan bikuð.1Sæmundur Rögnvaldsson (1981). Húsavík fyrri tíma. Verslun, brennisteinsnám og kirkja, bls. 73. Í Saga Húsavíkur, I. bindi, bls. 8-76. Karl Kristjánsson aðalhöfundur og safnari. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður. Um þetta leyti er kirkjunni lýst þannig:

Kirkjan er 16 ¼ alin á lengd, 8 álnir á breidd, 9 álnir á hæð, með tvöföldu timburþaki, alþiljuð innan til hliða og stafna. Hún er í sjö stafgólfum með átta sperrum og sex bitum og tveim skammbitum. Fyrir kirkjunni er einföld rúðuhurð með sterkum lömum og tvílæstri skrá. Á hvorri hlið kirkjunnar eru tvennir sex rúðu gluggar og einir sex rúðu gluggar á hverjum stafni fyrir ofan bita. Undir bitum eru tveir á hvorum stafni með sömu umgjörð. Á þaki yfir predikunarstól er fjögurra rúðu gluggi. Gluggar niðri á vesturstafni eru með hjörum og krókum.2Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 72.

Um aldamótin 1900 fara að heyrast raddir um að reisa þurfi nýja kirkju á Húsavík því söfnuð­urinn hafði stækkað og kirkjan þótti lítil, óvegleg og hrörleg. Nýju kirkjunni var valinn staður inni í þorpinu og lauk byggingu hennar árið 1907.3Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 74-76.

Gamla kirkjan var seld á uppboði sama ár. Árið áður hafði Eiríkur Þorbergsson smiður og ljósmyndari orðið fyrir miklu tjóni þegar hann missti nýbyggða ljósmyndastofu sína í bruna ásamt efni og ljósmyndaáhöldum. Hann gafst þó ekki upp, heldur fékk bankalán, keypti gömlu kirkjuna, flutti hana úr gamla kirkjugarðinum inn í hjarta bæjarins og breytti í íbúðarhús, sem hann nefndi Kirkjubæ eðli málsins samkvæmt. „Varð úr þessu tveggja hæða hús þar sem Eiríkur hækkaði vesturhliðina og setti þar á kvist.“4Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 76. Hann byggði skúr við húsið þar sem hann hafði ljósmyndastofu og sýndi skuggamyndir. Eiríkur átti í erfiðleikum með að standa skil af láninu og ekki bætti úr skák að talsvert af myndum hans eyðilagðist þegar húsið skemmdist í jarðskjálfta. Ekki er ólíklegt að þessi áföll hafi haft sitt að segja þegar Eiríkur tók þá ákvörðun að flytja af landi brott árið 1910. Það kom í hlut Þórarins Stefánssonar, starfsmanns hjá Kaupfélagi Þingeyinga, að greiða hluta af skuld Eiríks er hann hafði gengist í ábyrgð fyrir og leiddi það m.a. til þess að hann varð að segja starfi sínu lausu. Hann ákvað að halda rekstri ljós­mynda­stofunnar áfram. Árið 1915 réð Þórarinn til sín unga stúlku frá Ísafirði, Sigríði Ingvars­dóttur, sem þá var nýútskrifuð í ljósmyndaiðn. Þau gengu síðar í hjónaband og sagði Þórarinn að skuldin fyrrnefnda hefði verið sitt mesta happ í lífinu. Þórarinn hóf bóksölu í húsinu og batt jafnframt inn bækur og enn er starfandi á Húsavík bókaverslun með nafni Þórarins ekki langt frá þeim stað sem Kirkjubær stóð. Ekki var verslunin stór í upphafi því í byrjun rúmuðust bækurnar sem til sölu voru í skáp í kvistherbergi Kirkjubæjar. Árið 1915 keypti Þórarinn annað hús í nágrenninu og flutti þangað starfsemi sína og heimili. Eftir að húsið hafði gengið kaupum og sölum um tíma keypti Kaupfélag Þingeyinga Kirkjubæ því hann stóð aftan við glæsilegt verslunarhús sem það lét byggja árið 1948. Líklega hefur þótt nauðsynlegt að rífa húsið til að rýma fyrir bílastæðum við verslunina. Það var gert um 1980 en ekki eru dagar hússins endanlega taldir, því Jón Þór Buch bóndi á Einarsstöðum í Reykjahverfi fékk viðina úr húsinu og nýtti þá í byggingu á jörð sinni og þar er hluti þeirra líklega enn.5Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 72-76; Karl Kristjánsson (1981). Saga Húsavíkur, I. bindi, bls. 126-127. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður; Sigurjón Jóhannesson (1985). Bókaverslun Þórarins Stefánssonar 75 ára. Ávarp flutt í Húsavíkurkirkju 16. september 1984, bls. 58. Árbók Þingeyinga, 28, bls. 56-65; Sigrún Kristjánsdóttir (2010, 14. og 15. júlí). Tölvupóstur; Fasteignaskrá Íslands (ódags.). Garðarsbraut 5, Norðurþing.

Eins og fyrr er sagt var kirkjan tjörguð svört og var hún því stundum nefnd Surtla. Húsið sem Eiríkur byggði úr kirkjunni þótti dálítið sérstakt í útliti og af því varð þessi vísa til:

Framar enginn Surtlu sér
sálum manna þjóna.
Reist úr hræi hennar er
hryggskökk Eiríks-Skjóna.6Húsavíkurland. Kortabók. Örnefni og söguminjar (1994), bls. 41. Húsavík: Safnahúsið á Húsavík.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. desember, 2023

Heimildaskrá

  • 1
    Sæmundur Rögnvaldsson (1981). Húsavík fyrri tíma. Verslun, brennisteinsnám og kirkja, bls. 73. Í Saga Húsavíkur, I. bindi, bls. 8-76. Karl Kristjánsson aðalhöfundur og safnari. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður.
  • 2
    Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 72.
  • 3
    Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 74-76.
  • 4
    Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 76.
  • 5
    Sæmundur Rögnvaldsson (1981), bls. 72-76; Karl Kristjánsson (1981). Saga Húsavíkur, I. bindi, bls. 126-127. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður; Sigurjón Jóhannesson (1985). Bókaverslun Þórarins Stefánssonar 75 ára. Ávarp flutt í Húsavíkurkirkju 16. september 1984, bls. 58. Árbók Þingeyinga, 28, bls. 56-65; Sigrún Kristjánsdóttir (2010, 14. og 15. júlí). Tölvupóstur; Fasteignaskrá Íslands (ódags.). Garðarsbraut 5, Norðurþing.
  • 6
    Húsavíkurland. Kortabók. Örnefni og söguminjar (1994), bls. 41. Húsavík: Safnahúsið á Húsavík.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. desember, 2023