Húsið lengst til hægri á myndinni er sölubúð Höepfnersverslunar um 1935. Ljósmyndarinn stendur á Lágarbryggju, sem upphaflega var nefnd Höepfnersbryggja, og var á þeim slóðum sem Sjávarbraut er nú. Gamla sláturhús kaupfélagsins er vinstra megin (sunnan við) við Höepfnersbúð. Heimild: Jóhann Antonsson (2016, 24. nóvember). Röðull hf útgerðarfélag - annar hluti. Norðurslóð, 40. árg., 11. tbl., bls. 3.
Húsið lengst til hægri á myndinni er sölubúð Höepfnersverslunar um 1935. Ljósmyndarinn stendur á Lágarbryggju, sem upphaflega var nefnd Höepfnersbryggja, og var á þeim slóðum sem Sjávarbraut er nú. Gamla sláturhús kaupfélagsins er vinstra megin (sunnan við) við Höepfnersbúð. Heimild: Jóhann Antonsson (2016, 24. nóvember). Röðull hf útgerðarfélag - annar hluti. Norðurslóð, 40. árg., 11. tbl., bls. 3.

Kambhóll, Dalvík

Heiti: Höepfnershús – Höepfnersbúð – Höepfner - Kambhóll
Byggingarár: 1922
Upphafleg notkun: Sölubúð
Fyrsti eigandi: Höepfnersverslun Akureyri
Aðrir eigendur:
1934: Kaupfélag Eyfirðinga
1943-1960: Jón Baldvin Sigurðsson
1960: Jón Sölvi Stefánsson og Vilborg Guðmundsdóttir
Upphafleg staðsetning: Þar sem Hafnarbraut 1 á Dalvík er nú
Flutt: 1943 á Kambhól við Karlsrauðatorg, Dalvík
Hvernig flutt: Tekið í sundur
Kambhóll 4

Höepfnersbúð á sínum upprunalega stað. Heimild: Hvoll. Byggðasafn Dalvíkur. Húsaskráning Kristjáns Hjartarsonar. Karlsrauðatorg.

Kambhóll 2

Kambhóll, Dalvík, í júlí 2023. Ljósm.: Ja.is.

Saga:

Í fasteignaskrá er húsið Kambhóll á Dalvík sagt byggt árið 1943. Það mun þó ekki vera með öllu rétt, því 1943 er árið sem það var flutt á Kambhól og endurbyggt þar. Líklega telst húsið til götunnar Karlsrauðatorg, þó það standi ekki við götuna heldur bak við (sunnan við) hús númer 7 við Karlsrauðatorg.

Höepfnersverslun á Akureyri  byggði húsið sem sölubúð fyrir útibú sitt á bakkanum utan og neðan við gamla sláturhús kaupfélagsins á Dalvík árið 1922, á þeim stað þar sem hús Samherja hf. við Hafnarbraut 1 er í dag (2024). 1Hvoll. Byggðasafn Dalvíkur. Húsaskráning Kristjáns Hjartarsonar. Karlsrauðatorg; Hákon Jensson (2022). Dalvíkurbyggð. Endurskoðun fornleifaskráningar innan þéttbýliskjarna og framkvæmdasvæða vegna aðalskipulags, bls. 106 og 107. Búnaðarsamband Eyjafjarðar. Rannsóknarskýrslur 2022/12; Jóhann Antonsson (2016, 24. nóvember). Röðull hf útgerðarfélag – annar hluti. Norðurslóð, 40. árg., 11. tbl., bls. 3.

Við fasteignamat árið 1931 var verslunin enn eigandi hússins. Þá var húsið sagt vera 37,5 fermetrar, tvö herbergi og notað sem sölubúð. Þegar húsið var metið árið 1940 var það nýtt sem íbúðarhús og orðið ansi illa farið. Þá var eitt herbergi, eldhús og geymsla í húsinu.

Höepfnersverslun hætti starfsemi sinni á Dalvík upp úr 1930 og árið 1934 keypti Kaupfélag Eyfirðinga húseignir hennar.2Hvoll. Byggðasafn Dalvíkur. Húsaskráning Kristjáns Hjartarsonar. Karlsrauðatorg; Kristmundur Bjarnason (1984). Saga Dalvíkur, 3. bindi, bls. 266. Dalvík: Dalvíkurbær.

Árið 1943 keypti Jón Baldvin Sigurðsson (1879-1962) hús Höepfnersverslunarinnar. Hann fékk „… Jón Stefánsson í Hvoli til að taka húsið í sundur og flytja það sem var nýtanlegt úr því upp að Kambhóli. Þar var Jonni búinn að steypa grunn eða kjallara undir húsið og reisti hann húsið þar ofaná. Húsið er mjög líkt gamla Höpfnershúsinu bæði að stærð og útliti, þó er gluggasetningin önnur.“3Hvoll. Byggðasafn Dalvíkur. Húsaskráning Kristjáns Hjartarsonar. Karlsrauðatorg. Áður hafði verið timburhús á Kambhóli.

Baldvin bjó í húsinu með Dagbjörtu Aldinborgu Óskarsdóttur (f. 1900) þar til hún lést árið 1960. Þá flutti Jón Baldvin til sonar síns sem bjó í næsta húsi og keyptu þá Jón Sölvi Stefánsson og Vilborg Guðmundsdóttir húsið.

Þegar Jón Sölvi keypti Kambhól var húsið klætt með bárujárni og gluggarnir voru úr Höepfnersverslun, einpóstgluggi með þriggja rúðurömmum. Rétt um 1980 lét Jón taka bárujárnsklæðninguna utan af húsinu og setja álklæðningu í staðinn. Bárujárnið á þakinu er þó upphaflegt, en Jón steypti utanum reykháfinn sem var að falli kominn. Við þetta tækifæri var gluggunum breytt þannig að pósturinn var fjarlægður en settur liggjandi póstur í staðinn með stærri rúðu að neðan og lausu fagi að ofan.4Hvoll. Byggðasafn Dalvíkur. Húsaskráning Kristjáns Hjartarsonar. Karlsrauðatorg.

 

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 11. apríl, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 11. apríl, 2024