Jaðar, Kleifum, Ólafsfirði
Farið með húsið yfir vað á ósi Ólafsfjarðarvatns, því brúin var of lítil.
Með hús fyrir Múlann (1996, 1. ágúst). Dagur, 79. árg., 144. tbl., bls. 7.
Jaðar eftir flutninginn að Kleifum.
Atli Rúnar Halldórsson (2007, 21. ágúst). Sagan af eina húsi heimsins sem farið hefur fyrir Múlann. Sótt 26. apríl 2011 af http://attilla.blog.is/blog/attilla/entry/292138/.
Saga:
Um aldamótin 1900 reisti Stefán Hallgrímsson frá Stóru-Hámundarstöðum sér timburhús upp af Litla-Árskógi á Árskógsströnd, norðan Þorvaldsdalsár (sunnan Dalvíkur). Þetta var nýbýli í landi Brattavalla og var því nefnt Brattahlíð. Húsið var 15 x 10 álnir að flatarmáli, járnvarið og stóð á kjallara.1Kristmundur Bjarnason (1978). Saga Dalvíkur I, bls. 327. [Dalvík:] Dalvíkurbær; Atli Rúnar Halldórsson (2007, 21. ágúst). Sagan af eina húsi heimsins sem farið hefur fyrir Múlann. Sótt 26. apríl 2011 af http://attilla.blog.is/blog/attilla/entry/292138/.
Stefán hafði nokkra grasnyt, en stundaði aðallega sjósókn. Sökum fjárhagsörðugleika, sem stöfuðu af veikindum, leystist heimilið upp, og seldi Stefán hús sitt. Það var rifið, flutt til Dalvíkur, þó í land Brimness, endurreist þar og nefnt Jaðar. Tveir góðir og mikilvirkir smiðir keyptu það 1908: Jóhann Jóhannsson frá Háagerði og Elías Halldórsson.2Kristmundur Bjarnason (1978). Saga Dalvíkur I, bls. 327. [Dalvík:] Dalvíkurbær.
Jaðar stóð þar sem fyrirtækið Sæplast ehf. er nú (2023) til húsa við Gunnarsbraut 12, Dalvík.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Árið 1996 hafði Dalvíkurbær eignast húsið og ákváðu bæjaryfirvöld að selja húsið til niðurrifs
til að auka athafnarými Sæplasts við Brimnesána. Árni Helgason á Ólafsfirði bauð í húsið og eignaðist það. Hann ætlaði í fyrstu að rífa eign sína niður í sprek á eldinn, eins og efni þóttu standa til, og ónefndir svarfdælskir bændur buðust til að flýta fyrir honum með því að hirða járnplöturnar utan af húsinu. Svo snerist Árna hugur og hann ákvað að láta duga að rífa viðbyggingu Jaðars en flytja sjálft húsið út á Kleifar og gera að frambúðarþaki yfir höfuð sér. Dalvíkurbæ lá hins vegar á að losna við húsið í hvelli svo Árni brá á það ráð að kippa því af grunninum og finna því áningarstað í sex vikur á landi Þorleifs bónda á Hóli út. Reyndar gekk mun betur en á horfðist að hífa Jaðarshúsið af aldargömlum dvalarstað sínum á Dalvík því í ljós kom að það sat laust á grunni sínum, án nokkurra festinga!
Á meðan Jaðar staldraði við á Hóli steypti Árni grunn á Kleifum og tók nokkur kvöld í að hreinsa grjót af Múlavegi. Þegar stundin rann upp hífði hann Jaðar upp á vagn og lagði af stað frá Hóli um áttaleytið að kvöldi. Húsið þokaðist á vagni fyrir Múlann í svartri þoku áleiðis til Ólafsfjarðar og út á Kleifar, þar sem hann lyfti því upp á nýsteyptan kjallara. Jaðar komst á leiðarenda um miðnættið eftir fjögurra tíma ferðalag, án teljandi erfiðleika.3Atli Rúnar Halldórsson (2007, 21. ágúst).
Sagt var frá ferðalagi hússins í Degi 1. ágúst 1996. Ekki var hægt að fara í gegnum Múlagöng með húsið, húsið var bæði of breitt og hátt. En um flutninginn segir m.a.:
Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er lokaður fyrir almennri umferð. Vegurinn hefur verið tekinn út af skrám Vegagerðar ríkisins og þeir sem um hann fara gera slíkt alfarið á eigin ábyrgð og tryggingar ná ekki til slíks ferðalags. Nokkuð hefur hrunið úr veginum og á síðustu árum er hann orðinn nokkur torfæra. En Árni Helgason og félagar sáu þó við því og ruddu það tæpa einstigi sem vegurinn um Múlann er, þannig að engin vandkvæði voru að fara þarna um sl. föstudagskvöld. Lagt var upp frá Dalvík kl. 21:00 um kvöldið og að Kleifum var komið laust fyrir miðnætti. Að öllu leyti gekk ferðin áfallalaust og samkvæmt áætlunum.4Með hús fyrir Múlann (1996, 1. ágúst). Dagur, 79. árg., 144. tbl., bls. 7.
Jaðar er nú sumardvalarstaður eigenda hússins.
Leitarorð: Ólafsfjörður – Kleifar
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 21. desember, 2023
Heimildaskrá
- 1Kristmundur Bjarnason (1978). Saga Dalvíkur I, bls. 327. [Dalvík:] Dalvíkurbær; Atli Rúnar Halldórsson (2007, 21. ágúst). Sagan af eina húsi heimsins sem farið hefur fyrir Múlann. Sótt 26. apríl 2011 af http://attilla.blog.is/blog/attilla/entry/292138/.
- 2Kristmundur Bjarnason (1978). Saga Dalvíkur I, bls. 327. [Dalvík:] Dalvíkurbær.
- 3Atli Rúnar Halldórsson (2007, 21. ágúst).
- 4Með hús fyrir Múlann (1996, 1. ágúst). Dagur, 79. árg., 144. tbl., bls. 7.
Deila færslu
Síðast uppfært 21. desember, 2023