Hverfisgata 21B, Hafnarfirði
Saga:
Hjónin Helgi Sigvaldason (1859-1942) og Ragnhildur Magnúsdóttir (1857-1937) komu að Litlabæ á Vatnsleysuströnd um 1884. Litlibær var tómthús í upphafi í landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar og varð Helgi að láta sér nægja sjómennsku og aðra atvinnu sem til féll utan heimilis. Helgi var meðal annars annálaður hleðslumaður og hefur væntanlega getað drýgt tekjurnar með þeirri iðju. Síðar fékk hann leyfi prestsins á Kálfatjörn til að rækta tún norður og austur af bænum og var Litlibær grasbýli eftir það. Árið 1906 byggðu hjónin timburhús í stað gamla torfbæjarins. Þótti það gott hús og þegar hjónin fluttu til Hafnarfjarðar árið 1921 fluttu þau húsið með sér og settu það á steyptan kjallara á lóð númer 11B við Hverfisgötu í Hafnarfirði (síðar númer 21B). Þar bjuggu þau hjónin til dauðadags.1Guðmundur B. Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 337-440. [Útg.staðar ekki getið:] Höfundur; Guðjón Guðmundsson (1989, 5. ágúst). Erlendsína Helgadóttir, Vogum, Vatnsleysuströnd – 100 ára. Morgunblaðið, bls. 14-15. Sótt 27. nóvember 2023 af https://timarit.is/page/1707504. Húsið var rifið og flutt á vörubíl, „sem varð að fara fjórar ferðir, enda þá bílar litlir og þjóðvegurinn gerður frekar fyrir hestvagna en bíla.“2Guðmundur B. Jónsson (1987), bls. 340.
Eftir að húsið var flutt var það virt til brunatrygginga. Í brunavirðingu sem gerð var 20. október 1921 er húsinu lýst þannig:
Húsið er einlyft með porti og risi, rishæð 2.30 m. Því er skift í 2 stofur og eldhús, allt klætt innan með panel, stofurnar fóðraðar. Uppi er húsinu skift í 1 herbergi og eldhús, allt klætt innan með panel og málað, allt málað til íbúðar. Undir öllu húsinu er kjallari notaður til geymslu. Eldavélar: 2. Gluggar: 7. Stærð: 4.39 x 6.33 m, hæð 3.70 m. Við norðurhlið hússins er skúr með vatnhallaþaki. Klæddur innan með panel. Ætlaður til inngöngu í húsið. Stærð: 1.50 x 1.25 m, hæð 2.10 m. Gluggar: 1. Efni: Timbur járnvarið.3Húsaskráning Miðbær Hraun vestur (2015). Hafnarfjörður. Sótt 27. nóvember 2023 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_113.pdf.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur húsið tekið talsverðum breytingum. Eftir að eldri myndin var tekin var húsið stækkað til norðurs, þaki þess snúið og það hækkað. Báðar myndirnar sýna sömu hlið hússins. Unnið var að þessum breytingum á árunum 1987 til 1989.4Elías Már Guðnason (2024, 3. febrúar). Tölvupóstur.
Núverandi (2011) eigendur hússins sögðu frá því að í skúr á lóðinni, sem enn stendur, hafi Helgi geymt líkbíl sem hann ók.5Bolli Ófeigsson (2011, 2. apríl). Munnleg heimild.
Leitarorð: Hafnarfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 2. maí, 2024
Heimildaskrá
- 1Guðmundur B. Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 337-440. [Útg.staðar ekki getið:] Höfundur; Guðjón Guðmundsson (1989, 5. ágúst). Erlendsína Helgadóttir, Vogum, Vatnsleysuströnd – 100 ára. Morgunblaðið, bls. 14-15. Sótt 27. nóvember 2023 af https://timarit.is/page/1707504.
- 2Guðmundur B. Jónsson (1987), bls. 340.
- 3Húsaskráning Miðbær Hraun vestur (2015). Hafnarfjörður. Sótt 27. nóvember 2023 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_113.pdf.
- 4Elías Már Guðnason (2024, 3. febrúar). Tölvupóstur.
- 5Bolli Ófeigsson (2011, 2. apríl). Munnleg heimild.
Deila færslu
Síðast uppfært 2. maí, 2024