Hugljótsstaðir, Höfðaströnd, Skagafirði
Saga:
„Árið 1897 fluttust ungu hjónin Frans Jónatansson [1873-1958] og Jóhanna Gunnarsdóttir [1878-1964] í nýbyggt hús er þau höfðu reist á landamerkjum Bæjar og Mannskaðahóls við Höfðavatn, syðst við vatnið í svokallaðri Kotabót, rétt austan við Urriðalæk, Húsið nefndu þau Garðhús. Þar bjuggu þau til 1910, að þau fluttust til Málmeyjar.“1Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014). Byggðasaga Skagafjarðar. VII. bindi. Hofshreppur, bls. 426. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki. Sögufélag Skagfirðinga. Ekki stunduðu þau Frans og Jóhanna búskap, en Frans sótti sjó og sinnti barnakennslu. Árið 1911 fluttist Kjartan Vilhjálmsson (1866-1954) frá Þverá í Hrolleifsdal í Garðhús, en frá 1917 til 1925 bjuggu þar Sigurður Ólafsson (1868-1925) og Margrét Baldvinsdóttir (1871-1942), sem komu frá Hugljótsstöðum. Sigurður lést í janúar 1925 og keyptu þá bræðurnir Helgi (1907-1985) og Sveinn (1900-1991) Símonarsynir frá Hugljótsstöðum húsið og fluttu að Hugljótsstöðum. Lengi sást móta fyrir kjallara hússins í Garðhúsi, u.þ.b. 3 x 2,5 m að stærð, og gerir ef til vill enn.
Að Hugljótsstöðum var búið í húsinu til ársins 1952, þegar nýtt íbúðarhús var steypt, en eftir það var það notað sem geymsla og fjárhús. Sveinn bjó á Hugljótsstöðum til ársins 1980 með örfáum hléum, en hann lést 27. janúar 1991. Daginn eftir að hann var jarðaður í Hofskirkjugarði 3. febrúar 1991 brast á hávaðarok, sem olli víða skaða í Hofshreppi. Þá hvarf gamla timburhúsið af grunni sínum ásamt fjárhúsi og fjósbragga.2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 311, 316 og 426.
Leitarorð: Skagafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 17. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014). Byggðasaga Skagafjarðar. VII. bindi. Hofshreppur, bls. 426. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki. Sögufélag Skagfirðinga.
- 2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2014), bls. 311, 316 og 426.
Deila færslu
Síðast uppfært 17. febrúar, 2024