Hraunbrún 28, Hafnarfirði
Saga:
Árið 1919 fékk Friðrik Bjarnason (1880-1962), tónskáld, söngkennari og kórstjóri, leyfi til að byggja sér íbúðarhús við Suðurgötu 36 í Hafnarfirði. Þegar húsið var brunavirt í september sama ár var því lýst þannig:
Húsið er einlyft með risi 2,70m. Því er skipt í 2 stofur, eldhús og anddyri, klætt innan með panel og stofurnar eru fóðraðar, allt málað. Notað til íbúðar. Stærð L 5,65m. B. 6,28m. H. 2,80m. 7 gluggar.Útveggir úr timbri járnvörðu, þak úr timbri járnvörðu. 1 eldavél og 1 ofn í húsinu. Undir öllu húsinu er 1,90m. hár steinsteyptur kjallari notaður til geymslu. 2 gluggar á kjallara.1Gláma – Kím (2021, 15. janúar). Vesturbær Hafnarfjarðar. Húsakönnun, bls. 323. Hafnarfirði: Hafnarfjörður. Umhverfis- og skipulagssvið.
Um Friðrik Bjarnason segir m.a. í minningargrein:
… árið 1908 … fluttist [Friðrik] til Hafnarfjarðar sem kennari við barnaskólann þar og var jafnframt ráðinn söngkennari við Flensborgarskólann. Má telja, að þá hefjist hið eiginlega ævistarf hans, sem síðan var órjúfanlega tengt sönglífi og söngmennt í Hafnarfirði í meira en fjóra áratugi. Jafnframt kennslu sinni við barnaskólann, en þar kenndi hann auðvitað sönginn, var hann söngkennari við Flensborgarskólann í 13 ár og organisti við þjóðkirkjuna í 35 ár. Um áratuga skeið hafði Friðrik á heíidi stjórn og æfingar söngkóra, og munu kunnastir þeirra karlakórinn „Þrestir“ og kvenna kórinn „Erlur“, en báða þá stofnaði hann og stjórnaði þeim í mörg ár.2Guðni Jónsson (1962, 2. júní). Friðrik Bjarnason tónskáld – minning. Morgunblaðið, 49. árg., 124. tbl., bls. 8.
Eiginkona Friðriks var Guðlaug Pétursdóttir (1879-1966) Þau eignuðust eina dóttur sem dó ung.
Frú Guðlaug var hlédræg, en listfeng gáfukona, sem var manni sínum traustur félagi í erfiðu og erilsömu starfi. Á fyrri árum kenndi hún teikningu við barnaskóla Hafnarfjarðar. Einnig kenndi hún um langt skeið handavinnu í einkatímum. Hún var ágætlega skáldmælt og samdi Friðrik lög við mörg ljóða hennar, oft var það líka, að hún samdi ljóð við lög hans. Helzta lag/ljóð þeirra er héraðssöngur Hafnfirðinga: „Þú hýri Hafnarfjörður“, hugþekkt ljóð við tígulegt lag Friðriks, sem allir kunna og syngja á mannfundum.3Friðrik Bjarnason. Sótt 7. júní 2024 af Ísmús. Íslenskur músík og menningararfur.
Í erfðaskrá frá 1960 arfleiddu hjónin Friðrik Bjarnason og Guðlaug Pétursdóttir Hafnarfjarðarbæ af miklum hluta eigna sinna og mæltu svo fyrir að bækur og munir skyldu varðveittar í bókasafninu og að stofnaður væri sjóður til að “efla tónlistarlíf í Hafnarfirði með þeim hætti er best þykir fara hverju sinni, þó einkum til eflingar sönglífs í bænum“, og „styrkja nemendur til tónlistarnáms og fræðimenn í tónlist“. 4Styrkir úr sjóði Friðriks og Guðlaugar. Sótt 7. júní 2024 af https://hafnarfjordur.is/styrkir-ur-sjodi-fridriks-og-gudlaugar/.
Þegar Friðrik flutti í hús sem hann hafði látið byggja nálægt barnaskólanum eignuðust Þórður Þórðarson (1868-1951) og Jóna Jónsdóttir (1892-1977) húsið við Suðurgötu. Þar hóf Þórður verslunarrekstur árið 1930. Árið 1943 hóf Guðlaugur Björgvin (1922-2006), sonur Þórðar, störf í búðinni með föður og tók síðan við rekstrinum þegar Þórður lést árið 1951. Eftir að Guðlaugur tók við var verslunin nefnd Laugjabúð og Guðlaugur sjaldnast kallað annað en Laugji í Laugjabúð.
Um 1960 réðst Guðlaugur í að byggja stórt steinsteypt verslunar- og íbúðarhús á lóðinni og þurfti þá gamla húsið að víkja. Guðlaugur sótti þá um að fá að flytja húsið að Hraunbrún 4, sem síðar fékk númerið 28. Sá flutningur var heimilaður með því skilyrði að gluggaskipan hússins og götuhlið yrði breytt í samræmi við nærliggjandi hús. Síðar var kvistum og gluggum breytt og svalir settar á suðvestur hlið hússins.5Málfríður Kristjánsdóttir, Björn Pétursson og Rósa Karen Borgþórsdóttir (2022). Suðurgata – Strandgata Hafnarfirði. Húsakönnun, bls. 42. Hafnarfirði: Hafnarfjarðarkaupstaður; Gláma – Kím (2021, 15. janúar). Vesturbær Hafnarfjarðar. Húsakönnun, bls. 323. Hafnarfirði: Hafnarfjörður. Umhverfis- og skipulagssvið. Guðlaugur Björgvin Þórðarson. Minning (2006, 4. apríl). Morgunblaðið, 94. árg., 93. tbl., bls. 25; Lúðvík Geirsson (1994). Höfuðstaður verslunar. Saga verslunar og kaupmennsku í Hafnarfirði í sex hundruð ár, bls. 338. Hafnarfirði: Verslunarmannafélag Hafnarfjarðar.
Þegar húsið var auglýst til sölu árið 2016 var það sagt 165,5 fermetrar með bílskúr. Húsið skiptist í forstofu, stofu, borðstofu, eldhús og baðherbergi á hæðinni. Á efri hæð var alrými ásamt hjónaberbergi og í kjallara tvö stór herbergi, snyrting, þvottahús og geymsla.6Hraunbrún – Hafnarfjörður – Einbýli (2016, 17. maí). Fréttablaðið, 16. árg., 114. tbl., bls. 36.
Leitarorð: Hafnarfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. júní, 2024
Heimildaskrá
- 1Gláma – Kím (2021, 15. janúar). Vesturbær Hafnarfjarðar. Húsakönnun, bls. 323. Hafnarfirði: Hafnarfjörður. Umhverfis- og skipulagssvið.
- 2Guðni Jónsson (1962, 2. júní). Friðrik Bjarnason tónskáld – minning. Morgunblaðið, 49. árg., 124. tbl., bls. 8.
- 3
- 4Styrkir úr sjóði Friðriks og Guðlaugar. Sótt 7. júní 2024 af https://hafnarfjordur.is/styrkir-ur-sjodi-fridriks-og-gudlaugar/.
- 5Málfríður Kristjánsdóttir, Björn Pétursson og Rósa Karen Borgþórsdóttir (2022). Suðurgata – Strandgata Hafnarfirði. Húsakönnun, bls. 42. Hafnarfirði: Hafnarfjarðarkaupstaður; Gláma – Kím (2021, 15. janúar). Vesturbær Hafnarfjarðar. Húsakönnun, bls. 323. Hafnarfirði: Hafnarfjörður. Umhverfis- og skipulagssvið. Guðlaugur Björgvin Þórðarson. Minning (2006, 4. apríl). Morgunblaðið, 94. árg., 93. tbl., bls. 25; Lúðvík Geirsson (1994). Höfuðstaður verslunar. Saga verslunar og kaupmennsku í Hafnarfirði í sex hundruð ár, bls. 338. Hafnarfirði: Verslunarmannafélag Hafnarfjarðar.
- 6Hraunbrún – Hafnarfjörður – Einbýli (2016, 17. maí). Fréttablaðið, 16. árg., 114. tbl., bls. 36.
Deila færslu
Síðast uppfært 16. júní, 2024