Holt á Síðu, á árunum 1920 til 1950. Ljósm.: Valgerður Helgadóttir. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. V-Sk-Hól-190. Sótt 4. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1873857.
Holt á Síðu, á árunum 1920 til 1950. Ljósm.: Valgerður Helgadóttir. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. V-Sk-Hól-190. Sótt 4. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1873857.

Holt á Síðu, Skógasafni, Rangárþingi eystra

Heiti: Holt
Byggingarár: 1878
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Árni Gíslason
Aðrir eigendur:
1880: Runólfur Jónsson og Sigurlaug Vigfúsdóttir
1910 ?: Björn Runólfsson og Marín Þórarinsdóttir
1969 ? : Siggeir Björnsson og Margrét Kristín Jónsdóttir
Upphafleg staðsetning: Holt á Síðu (Holt 1), Skaftárhreppi (áður Kirkjubæjarhreppi)
Flutt: 1979 að Skógasafni, Skógum, Rangárþingi eystra
Hvernig flutt: Tekið niður
Holt 2

Holt á Síðu árið 1979. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. R-Hús-59. Sótt 4. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1570229.

Skógar, Holt á Síðu 14.07.2005. GLH 011

Holt á Síðu á Skógasafni árið 2005. Ljósm.: Guðmundur L. Hafsteinsson. Gagnasafn Húsafriðunarnefndar.

Saga:

Á sýningarsvæði Skógasafns í Rangárþingi eystra eru nokkur hús sem hafa verið flutt þangað, í heild eða að hluta. Eitt þeirra sem flutt var í heild sinni er íbúðarhúsið, sem upphaflega var byggt í Holti á Síðu árið 1878. Húsið byggði Árni Gíslason sýslumaður að öllu leyti úr rekaviði, fyrsta timburhús sem byggt var í Vestur-Skaftafellssýslu. „Þiljur í vesturstofu eru úr spítalaskipinu Sankti Páli sem strandaði í Meðallandi árið 1899. Búið var í húsinu til 1974. “ Húsið var flutt að Skógum árið 1979 og endurbyggt árið eftir.1Skógasafn. Byggingar. Holt. Sótt 3. júlí 2024 af https://www.skogasafn.is/is/sk%C3%B3gasafn/byggingar/.

Árni Gíslason (1820-1898) var sýslumaður Skaftfellinga á árunum 1852 til 1879. Sýslumannssetrið var á Kirkjubæjarklaustri, þar sem hann bjó stórbúi. Hann hafði einnig annað bú í Holti, þangað sem hann hugðist flytja eftir embættistíð sína.2Þjóðfélagsleg nauðsyn að landbúnaðurinn verði eftirsótt atvinnugrein. Rætt við Siggeir Björnsson, hreppstjóra, Holti á Síðu (1963, 21. febrúar). Morgunblaðið, 50. árg., 43. tbl., bls. 13; Páll Eggert Ólason (1945). Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940, I. bindi, bls. 44-45.

Efndi hann þar til húsagerðar á stórmannlegan hátt. Var það langhús mikið með hlöðnum veggjum á þrjá vegu en þili að framan. Grindin var úr fírkantstrjám af rauðviði og þiljur flett borð úr sama úrvalsefni. Þá var bárujárnið ekki komið til sögunnar. Á þekjuna — skarsúðina — var þakið með melstöngum og síðan tyrft yfir, en framþilið var varið fyrir vætu með zinkþynnum.
Þetta hús Árna sýslumanns var hið vandaðasta og mjög reisulegt á sinni tíð.3Þjóðfélagsleg nauðsyn að landbúnaðurinn verði eftirsótt atvinnugrein. Rætt við Siggeir Björnsson, hreppstjóra, Holti á Síðu (1963, 21. febrúar).

Árni flutti þó ekki í Holt, því þegar hann lét af embætti eystra árið 1880 flutti hann til Krýsuvíkur, þar sem hann lést. Hann seldi Runólfi Jónssyni (1827-1910) Holt. Eiginkona hans var Sigurlaug Vigfúsdóttir (1832-1911) ljósmóðir. Síðan tók Björn (1878-1969) sonur hans við ásamt eiginkonu sinni, Marín Þórarinsdóttur (1874-1965), og eftir hans daga Siggeir (1919-2004)  sonur Björns. Kona hans var Margrét Kristín Jónsdóttir (1919-2015). Allir voru þeir hreppsstjórar um langa tíð.4Þjóðfélagsleg nauðsyn að landbúnaðurinn verði eftirsótt atvinnugrein. Rætt við Siggeir Björnsson, hreppstjóra, Holti á Síðu (1963, 21. febrúar); Steinunn Finnbogadóttir, Sólveig Matthíasdóttir, & Björg Einarsdóttir (1984). Ljósmæður á Íslandi I, bls. 587. Reykjavík: Ljósmæðrafélag Íslands.

Árið 1979 gáfu þau Siggeir og Margrét Byggðasafninu í Skógum gamla húsið til ofantöku og flutnings á safnasvæðið í Skógum. Var þá húsið farið að láta verulega á sjá. Húsið stóð þar sem nú (2024) er bílskúr við norðausturhorn núverandi íbúðarhúss í Holti 1. Einungis var fluttur elsti hluti hússins frá 1878, en ekki yngri viðbyggingar.5Þórður Tómasson (2004, 7. febrúar). Minning: Siggeir Björnsson. Morgunblaðið, 92. árg., 37. tbl., bls. 53; Viggó Vilbogadóttir (2024, 4. júlí). Munnleg heimild.

Um húsið, flutning þess og uppbyggingu segir í ritinu Byggðasöfn á Íslandi:

Húsið frá Holti á Síðu er byggt árið 1878. Það var fyrsta timburhúsið í Vestur–Skaftafellssýslu og byggt af þáverandi sýslumanni á Kirkjubæjarklaustri, Árna Gíslasyni. Húsið er byggt úr rekaviði af fjörum í Meðallandi og er upphaflega reist á kjallara sem var hlaðinn úr mógrjóti. Að húsinu eru hlaðnir grjótveggir á þrjá vegu, alla nema framhlið hússins. Margvíslegar breytingar voru gerðar á húsinu þau eitt hundrað ár sem það stóð á jörðinni í Holti. Búið var í húsinu til ársins 1976 en hafist handa við niðurrif þess til brottflutnings að Skógum árið 1979. Fór þar fremstur manna Þórður Tómasson eins og á við um aðrar aðkomubyggingar safnsins. Við endurreisn hússins árið 1980 þurfti að endurnýja töluvert í því, til dæmis var suðurhlið hússins og þakjárnið á því með öllu ónýtt og þar af leiðandi varð að leita úrbóta. Til þess voru nýttir viðir úr gömlum húsum á Skógum og eins gamlir viðir í eigu safnsins. Við endurreisnina var húsinu valinn staður uppi í brekku fyrir ofan aðalbyggingu safnsins og steyptur undir það kjallari með það að markmiði að síðar yrði hægt að hlaða veggina að innan með mósteini svo að kjallarinn líktist sem næst upprunalegastri mynd. Einnig voru steyptir grjótveggirnir þrír en grjótinu síðan hlaðið utan á steypuna svo hvergi sést í hana. Innanstokksmunir eru allir við hæfi í húsinu og óhætt að segja að það sé líkt og tíminn hafi stöðvast við komuna þangað inn (Þórður Tómasson, e.d., d).
Húsið var að falli komið þegar Þórður lét flytja það að Skógum og að hans sögn væri ekkert eftir af því ef það hefði ekki verið flutt á sínum tíma að Skógum til varðveislu. Gestastofan í Holtshúsi var klædd að innan með panelviði frá 20. öld. Við endurbyggingu var hún klædd með breiðum stofuþiljum frá Seljalandi í Fljótshverfi, unnum að mestu úr mastri spítalaskipsins Sankti Páls sem strandaði í Meðallandi árið 1899.6Vigdís Finnbogadóttir (2015). Byggðasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga, 1949, bls. 62. Í Byggðasöfn á Íslandi, bls. 59-67. Ritstj. Sigurjón Baldur Hafsteinsson. Reykjavík: Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 4. júlí, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 4. júlí, 2024