Hólsvegur 2, Eskifirði
Saga:
Þegar hjónin Borghildur Einarsdóttir (1898-1981) og Sigurður Jóhannsson skipstjóri (1891-1946) þurftu að finna húsnæði fyrir sig og börnin sín tvö árið 1920 brá Sigurður á það ráð að festa kaup á húsi á Fáskrúðsfirði,1Minning: Einar Bragi (2005, 4. apríl). Morgunblaðið, 93. árg., 89. tbl., bls. 24; Einar Bragi (1985). Af mönnum ertu kominn, bls. 9. Reykjavík: Mál og menning. „… tók það ofan á fáeinum dögum og flutti viðina á vélbáti sínum Bergþóru til Eskifjarðar.“2Einar Bragi (1985), bls. 9.
Einar Bragi (1921-2005), þriðja barn þeirra hjóna, fæddist tæpum mánuði eftir að foreldrar hans fluttu í húsið, sem þau nefndu Skálholt. Það stóð þar sem húsið númer 2 við Hólsveg á Eskifirði stendur nú (2024).3Einar Bragi (1985), bls. 11; Kristín Ágústsdóttir (2001, maí). Byggingarár húsa á Eskifirði, bls. 15. Unnið fyrir Veðurstofu Íslands. Neskaupstað: Náttúrustofa Austurlands. Sótt 12. apríl 2024 af https://www.vedur.is/gogn/snjoflod/haettumat/es/eskifj_byggingarar.pdf. Í endurminningum sínum lýsti Einar Bragi húsinu sem hann ólst upp í á þessa leið:
Jón Magnússon smiður var fenginn til að endurreisa húsið á Grundinni sem svo er kölluð og liggur í miðju þorpinu. Jón var rómaður húsasmiður og heiðurskarl, einrænn nokkuð og stífur á meiningunni, bjó lengi einn í fallegu húsi sem hann smíðaði sér á Kirkjutungu rétt innan við þjóðkirkjuna.
Líklega hefur pabbi áltið ódýrara að kaupa gamalt hús til flutnings en byggja af nýjum viðum, nema timburskorut hafi hamlað. Hvað sem því líður varð húsið miklu dýrara en við var búist. Var haft á orði að naglarnir einir hefðu kostað 1200 krónur og þótti stórfé. En þá firru sló Jón niður í einu höggi: Það eru naglarnir sem öllu halda, sagði hann. Þvar var ekki með rökum hnekkt, enda reyndist hann hafa lög á mæla: húsið stóð af sér öll veður í aldarhelft, en varð þá að víka fyrir öðru stærra.
Íbúð okkar var á aðalhæðinni: upphaflega þrjú herbergi og eldhús, en innréttingu breytt nokkrum árum síðar og var þegar ég man fyrst stórt eldhús með búri, stofa, svefnherbergi og lítill gangur. Ofan við húsið voru trétröppur með fjórum þrepum upp á útidyrapall og gengið af honum í viðbyggða forstofu með skúrþaki. Í henni var afþiljaður kamar, en vatnssalerni voru þá fátíð á Eskifirði. Til vinstri voru dyrnar að íbúð okkar og stigi upp í risið. Á loftinu voru súðarherbergi sitt í hvorum stafni og stigapallur á milli þeirra. Uppi bjuggu alltaf fjölskyldur. Í kjallaranum var sérstakur inngangur sjávarmegin. Þar voru geymslur og eitt íbúðarherbergi með fastakojum. Í því bjuggu oft aðkomusjómenn sem reru hjá föður mínum, einkum Sunnlendingar.
Gluggar á eldhúsi og svefnherbergi sneru að sjá og úr þeim heillandi útsýni: framundan lá fjörðurinn …4Einar Bragi (1985), bls. 9-10.
Borghildur og Sigurður bjuggu í húsinu til ársins 1927, en árið áður höfðu þau misst húsið á nauðungaruppboði. Kaupandi hússins var Jón Þorsteinsson.5Einar Bragi (1985), bls. 76-78. Í bók Einars Braga er skondin lýsing á komu uppboðshaldara og kaupanda á heimili fjölskyldunnar og hvernig það atvikaðis að hann pissaði í skó hins nýja eiganda hússins [1985: 76-78].
Hjónin Margrét Guðmundsdóttir (1896-1968) og Auðbjörn Emilsson málarameistari, lúðrablásari og hljómsveitarstjóri (1903-1959) bjuggu alla sína búskapartíð í Skálholti. Þau gengu í hjónaband árið 1928 og er ekki ólíklegt að þau hafi fest kaup á húsinu um svipað leyti. Margrét rak verslun í kjallara hússins. Um það leyti sem Auðbjörn féll frá byggði Guðmundur sonur þeirra stórt og reisulegt hús á grunni æskuheimilis síns.6Minning: Guðmundur Á. Auðbjörnsson (2013, 27. júlí). Morgunblaðið, 101. árg., 174. tbl., bls. 30; Minning: Auðbjörn Emilsson (1960, 2. júlí). Morgunblaðið, 47. árg., 147. tbl., bls. 13.
Leitarorð: Eskifjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. apríl, 2024
Heimildaskrá
- 1Minning: Einar Bragi (2005, 4. apríl). Morgunblaðið, 93. árg., 89. tbl., bls. 24; Einar Bragi (1985). Af mönnum ertu kominn, bls. 9. Reykjavík: Mál og menning.
- 2Einar Bragi (1985), bls. 9.
- 3Einar Bragi (1985), bls. 11; Kristín Ágústsdóttir (2001, maí). Byggingarár húsa á Eskifirði, bls. 15. Unnið fyrir Veðurstofu Íslands. Neskaupstað: Náttúrustofa Austurlands. Sótt 12. apríl 2024 af https://www.vedur.is/gogn/snjoflod/haettumat/es/eskifj_byggingarar.pdf.
- 4Einar Bragi (1985), bls. 9-10.
- 5Einar Bragi (1985), bls. 76-78. Í bók Einars Braga er skondin lýsing á komu uppboðshaldara og kaupanda á heimili fjölskyldunnar og hvernig það atvikaðis að hann pissaði í skó hins nýja eiganda hússins [1985: 76-78].
- 6Minning: Guðmundur Á. Auðbjörnsson (2013, 27. júlí). Morgunblaðið, 101. árg., 174. tbl., bls. 30; Minning: Auðbjörn Emilsson (1960, 2. júlí). Morgunblaðið, 47. árg., 147. tbl., bls. 13.
Deila færslu
Síðast uppfært 16. apríl, 2024