Hlíðarvegur 30, Ísafirði, í ágúst 2013. Ljósm.: https://www.google.com/maps
Hlíðarvegur 30, Ísafirði, í ágúst 2013. Ljósm.: https://www.google.com/maps

Hlíðarvegur 30, Ísafirði

Byggingarár: 1903
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Hansína Elísabet Tómasdóttir
Aðrir eigendur:
1948: Guðmundur Benedikt Albertsson og Hrefna Ragnheiður Magnúsdóttir
Upphafleg staðsetning: Hesteyri, Jökulfjörðum
Flutt: 1948-1950 að Hlíðarvegi 30, Ísafirði

Saga:

Við Hlíðarveg 30 á Ísafirði stendur lítið timburhús sem sagt er byggt árið 1903 í Fasteignaskrá.1Sjá: https://fasteignaskra.is/ Það vekur furðu því nærliggjandi hús er öll mun yngri. Við athugun í gagnasafni Ísafjarðarbæjar kemur í ljós að í desember 1948 fór Guðmundur Benedikt Albertsson (1901-1972), þá til heimilis að Hlíðarvegi 24, þess á leit við byggingarnefnd og bæjarstjórn Ísafjarðar að fá að byggja íbúðarhús úr timbri við Hlíðarveg 30. Í nóvember 1950 hefur Guðmundur lokið smíði húss síns.2Gagnasafn Ísafjarðarbæjar. Í ágúst 1980 er húsinu lýst þannig:

Húsið Hlíðarvegur 30 er einbýlishús reist á Ísaf. árið 1950, en er norskt timburhús flutt til Hesteyrar í Jökulfjörðum laust eftir aldamót. Húsið er bjálkabyggt ein hæð og íbúðarris, ásamt kjallara. Húsið er óeinangrað með einföldu og „mixuðu“ tvöföldu gleri.
Gluggar eru mjög lélegir í húsinu og sömuleiðis hurðir og þyrfti að skipta um hvorutveggja, ef vel ætti að vera, þá er og nauðsynlegt að endurbæta rafkerfi og leggja niðurfall úr kjallara frá þvottahúsi.
Húsið er að grunnfleti ca 36 m².
Húsið stendur samkvæmt skipulagi og er byggt með tilskyldum leyfum.3Gagnasafn Ísafjarðarbæjar.

Húsið var upphaflega flutt inn frá Noregi um 1903 sem íbúðarhús fyrir Hansínu Elísabetu Tómasdóttur (1850-1933) móðurömmu Guðmundar Benedikts. Hún var frá Nesi í Grunnavík, en giftist Benjamín Einarssyni (1847-1891) og bjuggu þau á Marðareyri við Veiðileysufjörð. Árið 1891 drukknaði Benjamín frá 7 ungum börnum. Tveimur árum síðar giftist Hansína vinnumanni sínum, Jóni Guðmundssyni (1870-1893), sem var tuttugu árum yngri en hún, en það sama ár drukknaði hann einnig. Hansína gafst þó ekki upp, hélt áfram búskap og árið 1897 leigði hún hluta af landi Marðareyrar undir hvalstöð. Þegar hvalstöðin var lögð niður árið 1903 ákvað Hansína að flytja til Hesteyrar í húsið sem synir hennar og tengdasonur reistu fyrir hana.4Magnús Reynir Guðmundsson (sonur Guðmundar B. Albertssonar) (2020, 24. október). Munnleg heimild; Reynir Traustason. 2002. Sonja. Líf og leyndardómar Sonju W. Benjamínsson de Zorilla, bls. 16-18. Reykjavík: JPV útgáfa; Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971). Sléttuhreppur. Fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur, bls. 378-379. Útgáfustaðar ekki getið: Átthagafélag Sléttuhrepps. Ekki er ósennilegt að tengsl fjölskyldunnar við útlendinga sem stóðu fyrir rekstri hvalveiðistöðva á Meleyri og Stekkeyri hafi haft sitt að segja við pöntun á húsinu frá Noregi.

Hansína virðist ekki hafa búið ein í húsinu, því í manntali 1910 er dóttir hennar, Halldóra, og barnabarn skráð þar til heimilis, en 10 árum síðar býr Eiríkur sonur hennar þar ásamt konu sinni og tveimur börnum.5Manntalsvefur Þjóðskjalasafns. Sótt 7. nóvember 2020 af www.manntal.is. Einnig bjó Guðrún dóttir hennar með henni í húsinu ásamt manni sínum Benedikt Albert Benediktssyni (1866-1945).6Magnús Reynir Guðmundsson.

Ekki er vitað hvernig húsið leit út í upphafi en fljótlega var byggður skúr við húsið þar sem Guðmundur Halldór (1896-1952), sonur Alberts, hafði verslun þar til hann byggði Búðina líklega um 1930 eða litlu síðar með aðstoð bróður síns og nafna. Það hús er eitt af þeim húsum sem enn standa á Hesteyri.7Guðmundur Halldór verslaði á Hesteyri frá 1924 til 1945, svo ekki er ósennilegt að skúrbyggingunni hafi verið bætt við húsið um 1924. Magnús Reynir Guðmundsson (2020, 24. október); Guðrún Ása Grímsdóttir (1994). Ystu strandir norðan Djúps. Um Kaldalón, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Strandir, bls. 96-99. Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.

Á Hesteyri var vísir að þorpi um og upp úr aldamótunum 1900, árið 1920 voru þar t.d. 62 íbúar. Þar var skóli, verslun, kirkja og sæmileg atvinna við útgerð og fiskvinnslu. Upp úr 1940 fóru íbúarnir að tínast burtu og árið 1952 fluttu þeir síðustu frá Hesteyri.[8]8Guðrún Ása Grímsdóttir (1994), bls. 96-99.

Annar sonur þeirra hjóna, Guðrúnar og Alberts, var Guðmundur Benedikt, sem fyrr er getið. Það var hann sem stóð fyrir flutningi hússins til Ísafjarðar. Hann stundaði útgerð og sjómennsku á Hesteyri og var lengi formaður á eigin bát. Eftir að hann flutti til Ísafjarðar árið 1946 vann hann þar við skipasmíðar og gat sér gott orð fyrir þá iðn. Með honum flutti eiginkona hans Hrefna Ragnheiður Magnúsdóttir (1908-1999), en þau höfðu gift sig árið 1929. Hrefna lifði mann sinn og bjó í húsi þeirra við Hlíðarveg til dauðadags. Húsinu virðist ekki mikið hafa verið breytt frá því að það var flutt til Ísafjarðar.9Magnús Reynir Guðmundsson (2020, 24. október); Hjúskapur  (1929, 22. nóvember), Vesturland, 6. árg., 44. tbl., bls. 2; Dánardægur (1972, 15. apríl). Ísfirðingur 22. árg., 5. tbl., bls. 3.

 

Leitarorð: Hornstrandir – Ísafjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Sjá: https://fasteignaskra.is/
  • 2
    Gagnasafn Ísafjarðarbæjar.
  • 3
    Gagnasafn Ísafjarðarbæjar.
  • 4
    Magnús Reynir Guðmundsson (sonur Guðmundar B. Albertssonar) (2020, 24. október). Munnleg heimild; Reynir Traustason. 2002. Sonja. Líf og leyndardómar Sonju W. Benjamínsson de Zorilla, bls. 16-18. Reykjavík: JPV útgáfa; Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971). Sléttuhreppur. Fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur, bls. 378-379. Útgáfustaðar ekki getið: Átthagafélag Sléttuhrepps.
  • 5
    Manntalsvefur Þjóðskjalasafns. Sótt 7. nóvember 2020 af www.manntal.is.
  • 6
    Magnús Reynir Guðmundsson.
  • 7
    Guðmundur Halldór verslaði á Hesteyri frá 1924 til 1945, svo ekki er ósennilegt að skúrbyggingunni hafi verið bætt við húsið um 1924. Magnús Reynir Guðmundsson (2020, 24. október); Guðrún Ása Grímsdóttir (1994). Ystu strandir norðan Djúps. Um Kaldalón, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Strandir, bls. 96-99. Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
  • 8
    Guðrún Ása Grímsdóttir (1994), bls. 96-99.
  • 9
    Magnús Reynir Guðmundsson (2020, 24. október); Hjúskapur  (1929, 22. nóvember), Vesturland, 6. árg., 44. tbl., bls. 2; Dánardægur (1972, 15. apríl). Ísfirðingur 22. árg., 5. tbl., bls. 3.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024