Hanshús – Stóragerði 8, Reykjavík
Teikningavefur Reykjavíkurborgar. Stóragerði 4-8 (Kringlumýrarblettur XXII). Sótt 29. september 2023 af https://skjalasafn.reykjavik.is/fotoweb/.
Hanshús við Háaleitisbraut / Stóragerði 8. Heimild: Þorsteinn Jónsson (2011). Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg, bls. 281. Reykjavík: Sögusteinn.
Saga:
Árið 1905 reisti Hans Karel Hannesson (1867-1928) póstur timburhús syðst við Barónsstíg í austanverðu Skólavörðuholti, sem ætíð var nefnt Hanshús. Á þeim tíma var húsið langt frá meginbyggðinni í Reykjavík, en síðar varð húsið númer 25 við Leifsgötu.1Þorsteinn Jónsson (2011). Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg, bls. 279. Reykjavík: Sögusteinn. Húsið var virt til brunabóta í lok september 1905, þá sagt við Hringbraut. Þá var húsinu var lýst þannig:
Hús þetta er bygt af binding, klætt utan með plægðum 1″ borðum pappa, listum og járni þar yfir, og með járnþaki á plægðri 1″ borða súð, með pappa á milli. Innan á binding er pappi og listar, og millumgólf í báðum bitalögum. Niðri í húsi þessu eru 3 íbúðarherbergi, eldhús og 1 fastur skápur, sem alt er þiljað, og herbergi eru með pappa á veggjum en striga og pappír á loftum. Alt málað. Þar er 1 ofn og 1 eldavjel. Uppi eru 4 íbúðarherbergi þiljuð og máluð. Þar eru 2 ofnar. Kjallari er undir öllu húsinu 3 ál á hæð. Hólfaður í 4 geimslurúm. Lengd 11 al. br 11 ál. hæð 6 ál.2Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Brunabótavirðingar 1900-1905. Aðfnr. 735.
Hans hóf ungur að fara póstferðir með föður sínum, Hannesi Hanssyni (1833-1912), en Hans hafði póstferðir með höndum í fulla fjóra áratugi, fyrst milli Reykjavíkur og Staðar í Hrútafirði en síðar austur að Odda á Rangárvöllum. Við hús sitt á Skólavörðuholti byggði hann hús til að geyma hesta sína og vagna sem hann notaði í póstferðunum.
Hans póstur má heita fyrirmynd í ferðalögum. Þau voru þau vísindi, sem hann varði æfi sinni til að komast til botns í. Það má heita vel unnið verk, að hafa á hverjum sex árum ferðast álíka leið og kringum jörðina, um íslenskar bygðir og óbygðir, og á vetri jafnt og sumri, án þess að nokkurn tíma bæri slys að höndum. Tilviljun ræður vitanlega miklu um slíkt, en þó verður líka að þakka það forsjá ferðamannins. – Hans lagði mikla stund á að hafa jafnan duglega hesta, og sparaði aldrei neitt til þess, að aðbúð þeirra væri góð. …
Forsjáin var mikil, en þó ekki ein. Hann hafði eigi síður kappið, sem sjá mátti af því, að fáir menn voru stundvísari í ferðum en hann. Það mátti heita undantekning, ef bar út af áætlun hjá honum, og voru jafnan fullar ástæður fyrir slíku. Hitt vakti meiri undrun, hve oft Hans póstur komst sinna ferða óhindraður, þó bæði veður og færð kyrrsettu aðra menska menn. En sjaldan bar það þó við, að Hans yrði skrafdrúgt um erfiðleikana.
Hans var hversdagslega fáskiftinn maður, og lét lítið á sér bera. Hann hafði lífsstarfi að gegna, og það var honum svo mikið áhugamál, að hann gaf sig lítt við öðru. Hann var póstur; það nafn vildi hann eiga – og átti.3Hans Hannesson póstur (1928, 19. janúar). Vísir, 18. árg., 18. tbl., bls. 2.
Árið 1900 gekk Hans að eiga Kristínu Hjálmarsdóttur (1871-1961). Þau eignuðust fjögur börn. Þegar Hans lést árið 1928 hélt Kristín áfram að búa í húsinu. Árið 1933 lét hún reisa steinsteypt hús á lóð Hanshúss og bjó þar uns hún flutti til dóttur sinnar þar sem hún bjó síðustu æviárin.4Þorsteinn Jónsson (2011), bls. 280.
Í júní 1933 auglýsti borgarstjórinn í Reykjavík gamla Hanshús til „niðurrifs og burtflutnings nú þegar.“5Hús til sölu (1933, 13. júní). Alþýðublaðið, 14. árg., 141. tbl., bls. 1. Húsið var flutt austur að Háaleitisbraut, á lóð sem síðar varð nr. 8 við Stóragerði en á lóðinni Stóragerði 4 til 8 var reist fjölbýlishús um 1961. Húsið var þó ekki fjarlægt fyrr en nokkrum árum síðar og fyrr var ekki hægt að ljúka frágangi á svölum blokkarinnar.6Sigrid Hulda Richards (2023, 29. september). Gamlar ljósmyndir. Sótt 29. september 2023 af https://www.facebook.com.
Þegar ljósmyndirnar af Hanshúsi á Skólavörðuholti og við Háaleitisbraut eru bornar saman sést að húsið hefur verið lengt. Fyrir liggur teikning sem samþykkt var á fundi bygginganefndar Reykjavíkur árið 1933 þar sem stækkun hússins sést. Þar er húsið skráð að Kringlumýrarbletti 23 og fram kemur að eigandi þess sé Ernst Backmann.7Teikningavefur Reykjavíkurborgar. Stóragerði 4-8 (Kringlumýrarblettur XXII). Sótt 29. september 2023 af https://skjalasafn.reykjavik.is/fotoweb/. Í brunavirðingu sem gerð var 21. maí 1935 eru eigendur sagðir vera Ernst Backmann og Jóhanna Sigurgeirsdóttir. Þar er reyndar sagt að um nýtt hús sé að ræða, en þetta er ekki eina dæmið um að flutningshús séu sögð ný þegar þau eru virt á nýjum stað.8Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Brunabótavirðingar 1933-1937. Aðfnr. 746. Svo virðist sem nafninu Kringlumýrarblettur hafi verið breytt í Háaleitisveg.
Ernst Backman (1891-1959) var kvæntur Jónínu Salvöru Helgadóttur (1894-1988). Ernst var sænskur sprengjusérfræðingur og steinsmiður. Hann kom hingað til lands 1918 til að vinna í síld á Siglufirði þar sem þau Jónína kynntust. Þau hófu búskap við þröngan kost í Pólunum enda börnin mörg. Því þótti þeim hagur sinn vænkast þegar þau fluttu í Hanshús.9Björn Kristleifsson (2018, 2. mars). Minning: Ernst Fridolf Backman. Morgunblaðið, 106. árg., 52. tbl., bls. 26; Minning: Valgeir Backman (2021, 2. júní). Sótt 29. september 2023 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1781763/.
Meðeigandi þeirra hjóna var Jóhanna Sigurgeirsdóttir (1877-1956). Hún bjó í kjallara hússins við Háaleitisbraut, sem þá hafði heimilisfangið Háaleitisvegur 23, ævina á enda. Þar rak hún hænsnabú, átti nokkrar geitur og stundaði garðrækt. Hún var mikill dýravinur og sinnti geitunum „… sem væru þau börnin hennar.“10Benedikt S. Bjarklind (1956, 27. mars). Dánarminning: Jóhanna Sigurgeirsdóttir. Tíminn, 40. árg., 73. tbl., bls. 8.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Þorsteinn Jónsson (2011). Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg, bls. 279. Reykjavík: Sögusteinn.
- 2
- 3Hans Hannesson póstur (1928, 19. janúar). Vísir, 18. árg., 18. tbl., bls. 2.
- 4Þorsteinn Jónsson (2011), bls. 280.
- 5Hús til sölu (1933, 13. júní). Alþýðublaðið, 14. árg., 141. tbl., bls. 1.
- 6Sigrid Hulda Richards (2023, 29. september). Gamlar ljósmyndir. Sótt 29. september 2023 af https://www.facebook.com.
- 7Teikningavefur Reykjavíkurborgar. Stóragerði 4-8 (Kringlumýrarblettur XXII). Sótt 29. september 2023 af https://skjalasafn.reykjavik.is/fotoweb/.
- 8
- 9Björn Kristleifsson (2018, 2. mars). Minning: Ernst Fridolf Backman. Morgunblaðið, 106. árg., 52. tbl., bls. 26; Minning: Valgeir Backman (2021, 2. júní). Sótt 29. september 2023 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1781763/.
- 10Benedikt S. Bjarklind (1956, 27. mars). Dánarminning: Jóhanna Sigurgeirsdóttir. Tíminn, 40. árg., 73. tbl., bls. 8.
Deila færslu
Síðast uppfært 22. febrúar, 2024