Hafnarstræti 106 um 1927. Heimild: Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, janúar). Húsakönnun í miðbæ Akureyrar, ekkert bls.tal.
Hafnarstræti 106 um 1927. Heimild: Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, janúar). Húsakönnun í miðbæ Akureyrar, ekkert bls.tal.

Hafnarstræti 106, Akureyri

Heiti: Sæborg – Brauns-hús - Brauns-verzlun
Byggingarár: ≈ 1908
Upphafleg notkun: Fisktökuhús
Fyrsti eigandi: Edinborgarverslun
Aðrir eigendur:
1915: Ásgeir Pétursson
? : Richard Braun
1932: Páll Sigurgeirsson
Upphafleg staðsetning: Hrísey, Eyjafirði
Flutt: 1915 að Hafnargötu 106, Akureyri
Hvernig flutt: Fleytt á tunnufleka

Saga:

Húsið sem nú er Hafnarstræti 106 á Akureyri var upphaflega byggt í Hrísey um 1908 og var þá fisktökuhús Edinborgarverslunar. Árið 1915 fékk Ásgeir Pétursson heimild til að byggja hús á lóð númer 106 við Hafnarstræti á Akureyri. Hann lét þá fleyta húsi Edinborgarverslunar í Hrísey á tunnufleka inn eftir firðinum til Akureyrar. Hann lét breyta neðri hæð hússins í verslunarhúsnæði og síðan hefur verið þar verslunarstarfsemi, m.a. Brauns-verzlun sem Richard Braun rak á þriðja áratug síðustu aldar og verslun sem Páll Sigurgeirsson rak 1932-1956. Bræður Páls, Vigfús og síðan Eðvarð, ráku ljósmyndastofu á efri hæðinni og þar hefur einnig verið búið.1Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, janúar). Húsakönnun í miðbæ Akureyrar, ekkert bls.tal.

Ásgeir Pétursson (1875-1942) hafði mikið umleikis á Akureyri á fyrri hluta 20. aldar, rak bæði verslun og útgerð og var um tíma umsvifamesti útgerðarmaðurinn Norðanlands og virðist hafa átt fleiri húseignir við Hafnargötu. Veldi hans riðaði þó til falls í „síldarkrakkinu mikla“ árið 1919 og ekki bætti úr skák að hann missti þrjú skip á árunum 1922 og 1923.2Klemens Jónsson (1948). Saga Akureyrar, bls. 201. Akureyri: Akureyrarkaupstaður; Jón Hjaltason (2004). Saga Akureyrar. Vályndir tímar 1919-1940. IV. bindi, bls. 104 og 173. Akureyri: Akureyrarbær.

Þetta lagðist þungt á Ásgeir. Hann var ekki orðinn fimmtugur en þrekið samt tekið að dvína töluvert. Hann var ekki lengur fyrstur á fætur á morgnana og seinastur í rúmið á kvöldið. Hjartað sló feilpúst og hann mátti aldrei skilja nitroglycerinið við sig. Hann hafði veikst af inflúensu í Kaupmannahöfn þegar hann árið 1920 barðist við að koma síldinni í verð og legið þungt haldinn. Upp frá því gekk hann með dauðann í hjartanu og varð reglulega að nota nitroglycerin til að halda manninum með ljáinn í burtu.3Jón Hjaltason (2004), bls. 174-174.

Húsinu hefur verið breytt töluvert í tímans rás.

Um 1956 virðist hafa verið byggt við báðar hliðar hússins eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Viðbygging sunnan við var innréttuð sem verslunarhúsnæði en norðan við var byggt yfir portið á milli húsanna H-106 og H-108 [Hafnarstræti 106 og Hafnarstræti 108]. Við þessar breytingar fékk húsið að mestu það útlit sem það hefur í dag. Árið 1999 var verslunarrými á aðalhæð gamla hússins breytt í tvö minni verslunarrými og við það voru gerðar breytingar á útliti við innanginn á húsinu og þar gerðar tvær útihurðir í stað einnar áður.4Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, janúar)

Hér verður ekki reynt að rekja sögu þeirrar starfsemi sem farið hefur fram í húsinu, en þegar þetta er skrifað (2024) er útivistarverslun á götuhæðinni, en uppi eru leigð út herbergi eða íbúðir til ferðamanna.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 26. október, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, janúar). Húsakönnun í miðbæ Akureyrar, ekkert bls.tal.
  • 2
    Klemens Jónsson (1948). Saga Akureyrar, bls. 201. Akureyri: Akureyrarkaupstaður; Jón Hjaltason (2004). Saga Akureyrar. Vályndir tímar 1919-1940. IV. bindi, bls. 104 og 173. Akureyri: Akureyrarbær.
  • 3
    Jón Hjaltason (2004), bls. 174-174.
  • 4
    Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (2009, janúar)

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 26. október, 2024