Hæringsstaðir, Flóa
Hæringsstaðir í apríl 2011. Ljósm.: Höfundur.
Hæringsstaðir um 2016. Sótt 18. nóvember 2023 af síðunni Flóamannabók á Facebook.
Saga:
Um hús þetta, sem reist var á Stokkseyri, segir Guðni Jónsson í bók sinni Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi frá 1952:
Ártún II voru byggð 1898 af Gústaf Árnasyni trésmið, er hann seldi bæ sinn í Beinateig. Gústaf fluttist til Stykkishólms. Nafnið Ártún kemur síðast fyrir 1903. Hús þetta var stundum kallað Gústafshús. Gunnar í Götu keypti það og bjó þar nokkur ár og flutti það svo upp að Lölukoti, en þaðan var það flutt að Hæringsstöðum og stendur þar enn í dag.1Guðni Jónsson (1952). Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, bls. 379. Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík.
Þess má geta að í Beinateig voru 18 bæjarhús ári 1896. Beinateigshverfið var vestan við kirkjuna og Stokkseyrarhlaðið, á því svæði þar sem hús númer 9 til 17 við Eyrarbraut standa nú (2023). Eina húsið sem eftir stendur af hverfinu er Hausthús, sem er númer 17 við Eyrarbraut.2Guðmundur L. Hafsteinsson (ódags.). Stokkseyri. Byggða-og húsakönnun 2010. Sveitarfélagið Árborg.
Gunnar í Götu var Sigurðsson (1881-1930). Hann bjó í Lölukoti frá 1910-1913 og virðist bærinn hafa farið í eyði eftir búskap hans þar. Lölukot var upphaflega fjárhús frá Hæringsstöðum og var bærinn því stundum nefndur Hæringsstaðafjárhús. Ekki er vitað hver flutti bæinn að Hæringsstöðum en Snorri Sveinbjörnsson bjó þar á árunum 1891 til 1915 og Guðni Jóhannsson tók þá við og bjó þar til 1922.3Guðni Jónsson (1952), bls. 93-94, 243, 278 og 304-307.
Þegar rætt var við Sigríði Þorgeirsdóttur í september 2010 var enn búið í húsinu. Hún sagði að húsið hafi verið flutt þangað árið 1914 og kemur það heim og saman við upplýsingar í Fasteignaskrá Íslands. Hún hafði heyrt að húsið hafi verið tekið sundur spýtu fyrir spýtu og flutt á hestum. Foreldrar Sigríðar hófu búskap á Hæringsstöðum árið 1921. Í bók Guðna Jónssonar er mynd af Hæringsstöðum, sem líklega er tekin um 1950. Sigríður á Hæringsstöðum gaf þær upplýsingar að húsið sem var flutt þangað sé lengst til hægri á myndinni.4Sigríður Þorgeirsdóttir (2010, 22. september). Munnleg heimild.
Hafi húsið verið flutt árið 1914 hefur það væntanlega verið Snorri Sveinbjörnsson sem stóð að flutningnum. Sennilegra þykir þó að Guðni Jóhannsson hafi flutt húsið þegar hann settist að á Hæringsstöðum 1915.
Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, sem tekin var 2011, var húsið farið að láta mikið á sjá, en myndin frá 2106 sýnir að vel hefur verið hlúð að húsinu.
Leitarorð: Flói
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. desember, 2023
Heimildaskrá
- 1Guðni Jónsson (1952). Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, bls. 379. Reykjavík: Stokkseyringafélagið í Reykjavík.
- 2Guðmundur L. Hafsteinsson (ódags.). Stokkseyri. Byggða-og húsakönnun 2010. Sveitarfélagið Árborg.
- 3Guðni Jónsson (1952), bls. 93-94, 243, 278 og 304-307.
- 4Sigríður Þorgeirsdóttir (2010, 22. september). Munnleg heimild.
Deila færslu
Síðast uppfært 28. desember, 2023