Grasgeiri, Hólsheiði, Melrakkasléttu
Saga:
Á fyrstu árum 20. aldar stunduðu Norðmenn umtalsverðar síldveiðar fyrir Norður- og Austurlandi og komu sér víða upp söltunarstöðvum, m.a. komu fjórir Norðmenn sér upp aðstöðu á Raufarhöfn, sem störfuðu þó mislengi. Árið 1905 byggði Norðmaðurinn Hans L. Falck frá Stafangri síldarsöltunarstöð á Raufarhöfn. Á heimstyrjaldarárunum fyrri var afar örðugt að koma síldinni á erlenda markaði og veturinn 1919-1920 kom „krakkið mikla“ þegar gífurlegt verðhrun varð á síldarmörkuðum erlendis og fjöldi síldarsaltenda varð gjaldþrota. Hús Falcks hafði þó verið rifið árið 1913 og flutt á heiðarbýlið Grasgeira.1Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Raufarhöfn, bls. 55-57. Reykjavík: Skrudda ehf. Ekki er vitað hvar nákvæmlega Falckshúsið stóð á Raufarhöfn, en líklegt er talið að það hafi staðið á Holtinu, sem er klettaholt upp af miðri höfninni að vestanverðu.2Lilja Laufey Davíðsdóttir og Ragnheiður Gló Gylfadóttir (2016). Aðalskráningskráning [svo] fornleifa í Raufarhafnarhreppi og skráning fornleifa á deiliskipulagsreit við Heimskautsgerði, bls. 23-24. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands ses.
Það voru hjónin Þorbjörg Guðmundsdóttir (1870-1949) og Eiríkur Kristjánsson (1871-1921) sem fluttu Falckhúsið á Grasgeira, sem stendur í hraunjaðrinum vestan við Ormarsá skammt frá núverandi þjóðleið, þegar þau fluttu þangað af jörðinni Höskuldarnesi, þar sem þau höfðu verið leiguliðar en sagt upp ábúðinni.3Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli, bls. 315. Reykjavík: Skrudda ehf.
Var fárra kosta völ, um hæli fyrir svo stóra fjölskyldu sem taldi 10 manns, hjónin og 8 börn þeirra, sem mörg voru nokkuð á legg risin, en þó flest innan fermingaraldurs. Var þá það ráð tekið, að kaupa hús á Raufarhöfn, sem norsk síldarútgerð hafði sett þar upp, fyrir nokkrum árum, og notað fyrir verkafólk sitt og ýmislegt annað, er starfsemi þessari tilheyrði. Þetta var allstórt timburhús, portbyggt, með nokkuð háu risi, og þiljðum herbergjum á porthæðinni. Í húsinu var mikið timbur, því það hafði verið vel viðað, og ekki búið að standa þarna, nema 7 eða 8 ár. Feðgarnir Eiríkur bóndi í Nesi og Guðmundur sonur hans, þá 17 ára, unnu að því að rífa húsið, og aka timbrinu fram í Hólsheiði, þar sem fjölskyldan hafði afráðið að taka sér bólfestu. Þetta býli hét Grasgeiri, hafði verið byggt í landareign Brekku í Núpasveit. Þarna hafði fyrst verið hrófað upp einhverjum torfkofum um 1860 yfir fólk og fénað, og búið þar eitthvað fram á níunda tug næstliðinnar aldar. En um aldarfjórðungsskeið mun þetta býli hafa í eyði verið, er Eiríkur Kristjánsson ásamt fjölskyldu tók það til ábúðar og uppbyggingar vorið 1913 og auðvitað enginn kofi þar uppistandandi, en landið umhverfis grösugt, kjarngott heiðarland.4Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli, bls. 315. Reykjavík: Skrudda ehf.
Þegar Eiríkur lést árið 1921 hélt Þorbjörg áfram búskap með börnum sínum til ársins 1945 og er nú húsið (2020) löngu horfið.5Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli, bls. 319. Reykjavík: Skrudda ehf.
Óljósar heimildir eru um að húsið hafi verið flutt aftur og nýtt annars staðar þegar hlutverki þess á Grasgeira var lokið, en það hefur ekki fengið staðfest.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 3. október, 2024
Heimildaskrá
- 1Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Raufarhöfn, bls. 55-57. Reykjavík: Skrudda ehf.
- 2Lilja Laufey Davíðsdóttir og Ragnheiður Gló Gylfadóttir (2016). Aðalskráningskráning [svo] fornleifa í Raufarhafnarhreppi og skráning fornleifa á deiliskipulagsreit við Heimskautsgerði, bls. 23-24. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands ses.
- 3Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli, bls. 315. Reykjavík: Skrudda ehf.
- 4Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli, bls. 315. Reykjavík: Skrudda ehf.
- 5Níels Árni Lund (2016). Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli, bls. 319. Reykjavík: Skrudda ehf.
Deila færslu
Síðast uppfært 3. október, 2024