Geirsstaðir, Byggðasafninu í Görðum, Akranesi
Saga:
Eftirfarandi upplýsingar um húsið sem stóð við Skólabraut 24 á Akranesi koma fram í gögnum Minjastofnunar Íslands frá Byggðasafni Akraness:
Húsið var byggt á árunum 1903-1908 við Skólabraut 24 á Akranesi. Í fyrstu var húsið aðeins ein hæð með láreistu þaki, en árið 1908 var grunnur þess stækkaður sem og hæðin yfir og byggt ofan á hana portbyggt ris. Húsið hefur verið óbreytt í því formi síðan.
Fyrsti eigandi og ábúandi var Sigurgeir Guðmundsson [1851-1928] (faðir Odds sterka af Skaganum), enda húsið við hann kennt (Geirastaðir / Geirstaðir). Á árunum 1944-1984 bjuggu í húsinu hjónin Sigurður Jónsson [1903-1997] og Kristín Jónsdóttir [1900-1992] en hún hafði um árabil með höndum smábarnakennslu í húsinu, sem þá gekk í daglegu tali undir heitinu “Háskólinn á Geirstöðum”. Húsið fór úr ábúð 1992 og komst síðan í eigu Akranesbæjar, enda var af bæjaryfirvöldum ákveðið með samþykkt nýs deiliskipulags að húsið skyldi víkja. Í jan. 1994 ákvað bæjarstjórn að húsið yrði flutt inn á Safnasvæðið að Görðum og varðveitt þar til frambúðar.
Húsið er góður góður fulltrúi þeirra húsa sem byggð voru á Skaga um og eftir síðustu aldamót og eru mörg hver horfin. … Á árinu 1994 var húsið flutt inn á lóð safnsins og grunnur þess endurhlaðinn þar. Húsinu var þar komið fyrir og lokið við frágang þess í grófum dráttum utandyra. Þá var allt húsið málað að utan. Á árinu 1996 voru laus gluggafög ísett, smíðaðir gluggar í kjallara og þeir settir í, hlaðinn skorsteinn frá kjallaragólfi og upp á hæð, múrað milli steina í kjallara og gengið frá þakrennum. Á árinu 2000 var húsið tengt við hitaveitu og komið þar fyrir einföldu hitakerfi. Áætlanir safnsins varðandi Geirstaði ganga út frá að húsið verði gert upp hið ytra eins og það var nálægt aldamótum 1900 en innri búnaður þess yrði í anda áranna í kringum 1920-1930.1Gagnasafn Minjastofnunar Íslands, verknr. 0494.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 16. janúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Gagnasafn Minjastofnunar Íslands, verknr. 0494.
Deila færslu
Síðast uppfært 16. janúar, 2024