Danskur stúdentahópur í heimsókn í Reykjavík 6. ágúst 1900. Frönsku húsin í baksýn. Svo virðist sem gluggarnir séu ekki „ekta“. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. ÁBS 11 327.jpg. Sótt af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.
Danskur stúdentahópur í heimsókn í Reykjavík 6. ágúst 1900. Frönsku húsin í baksýn. Svo virðist sem gluggarnir séu ekki „ekta“. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. ÁBS 11 327.jpg. Sótt af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.

Frönsku húsin, Reykjavík

Heiti: Drillenborg - Frönsku húsin
Byggingarár: 1834 og 1869
Rifið: > 1902
Upphafleg notkun: Geymsluhús
Fyrsti eigandi: P. C. Knudtzon og Lucinde Knudtzon
Aðrir eigendur:
1864: Lucinde Knudtzon
1868: Franska ríkisstjórnin
Upphafleg staðsetning: Við norðanverðan Austurvöll (Austurstræti 12)
Flutt: 1901 eða 1902 að Lindargötu 51,Reykjavík

Saga:

Árið 1834 lét athafna- og stórkaupmaðurinn P. C. Knudtzon (1789-1864) reisa geymsluhús á austurhluta þeirrar lóðar þar sem nú (2024) er Austurstræti 12. Af hrekk sínum byggði hann húsið fyrir framan glugga húss sem keppinautur hans, Hans Baagöe kaupmaður, hafði byggt á Austurvelli nokkru áður. Baagöe hafði ekki annað ráð en rífa húsið og byggja það upp aftur austur í Hafnarstræti. Eftir það var hús Knudtzons nefnt Drillenborg.

Árið 1868 seldi ekkja hans, Lucinde Knudtzon (1818-1888) frönsku stjórninni hús þetta.1Klemens Jónsson (1929). Saga Reykjavíkur. Síðara bindi, bls. 52-53. Reykjavík: Steindór Gunnarsson; Jón Helgason (1916). Þegar Reykjavík var fjórtán ára. Brot úr sögu Reykjavíkur, bls. 32. Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg.

Árið eptir fjekk franska stjórnin leyfi til að byggja annað hús, fyrir austan geymzluhúsið og jafnhliða því, til íbúðar fyrir franska skipbrotsmenn, þangað til þeir kæmust af landi brott. Þetta voru hin svonefndi „frönsku hús“, er stóðu þangað til árið 1902, er þau voru flutt burtu. Leið varla svo nokkurt ár, að ekki byggju þar franskir skipbotsmenn lengri eða skemmri tíma. Vera þeirra í húsinu var dálítil tilbreyting á lífi bæjarbúa, því að Frakkar höfðu þar ýmsa leiki fyrir framan íbúðarhúsið, og úti á götunni.2Klemens Jónsson (1929), bls. 53.

Bak við Frönsku húsin má sjá Ísafoldarhúsið (Austurstræti 8) lengst við vinstri og lengst til hægri sér í Landsbankann (Austurstræti 11). Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. ÁBS 11 327.jpg. Sótt af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.

Líklega má segja að hér hafi verið um að ræða fyrstu útiskemmtanirnar sem fram fóru í Austurstræti.

Í bók Elínar Pálmadóttur, Fransí biskví, kemur fram að húsin hafi verið flutt inn frá Cherbourg3Elín Pálmadóttir (1989). Fransí biskví. Frönsku Íslandssjómennirnir, mynd nr. 50. Reykjavík: Almenna bókafélagið., sem er á norðurströnd Normandí í Frakklandi.

Í ágúst 1874 fór fram brunavirðing á húsunum tveimur í eigu frönsku stjórnarinnar, annars vegar íbúðarhúsi sem var 16¼ alin á lengd og 9¼ á breidd með veggjahæð sem var 3¾ alin. Húsið var úr bindingi múruðum úr múrsteini, klætt borðum og með borðaþaki. Fimm herbergi voru í húsinu auk eldhúss. Hins vegar var geymsluhús, sem var áfast við vesturgafl íbúðarhússins, 6 álnir á lengd, en breidd og hæð hin sama og á íbúðarhúsinu. Þetta hús var úr ómúruðum bindingi, klætt borðum, með borðaþaki sem var með lágu risi. Þetta hús var virt mikið lægra en íbúðarhúsið.4Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Aðfnr. 733. Brunatrygging húsa 1874-1888.

Húsin þóttu lítil bæjarprýði, en það þótti hins vegar glæsilega hótelið sem reist var á lóðinni árið 1905, Hótel Reykjavík, sem brann því miður til grunna árið 1915.5Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. 1. bindi. A-G, bls. 49. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.

Nú fer þrennum sögum um afdrif húsanna. Ein sagan segir að timbrið úr þeim hafi verið nýtt þegar Bjarnaborg var byggð við Hverfisgötu 836Páll Líndal (1987). Reykjavík. Sögustaður við Sund. 2. bindi. H-P, bls. 67. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.. Á öðrum stað kemur fram að húsin hafi verið rifin árið 1901, „… en úr viðum þeirra var reist skipbrotsmannaskýli (eitt hús) í Skuggahverfi, norðan við Franska spítalann. Að hluta til var Bjarnaborgin einnig byggð úr viðum þeirra.“7Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1987). Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, bls. 156. Reykjavík: Torfusamtökin; Jón Helgason (1941). Árbækur Reykjavíkur 1786-1936, bls. 285. Reykjavík: Leiftur. Loks er sagt að húsin hafi verið flutt á lóð sem franska ríkisstjórnin átti við Lindargötu 51 og þau hafi staðið í fjörunni fyrir neðan (norðan spítalann)8Elín Pálmadóttir (1989), mynd nr. 50.. Hér verður þeirri sögu fylgt.

Árið 1902 átti Björn Jónsson ritstjóri land í Skuggahverfinu. Það ár lét hann hluta þess í makaskiptum við franska sjómannaráðuneytið fyrir lóðina í Austurstræti þar sem „frönsku húsin“ stóðu. Þau voru þá flutt á lóðina í Skuggahverfinu, Lindargötu 51, þar sem byrjað var að reisa Franska spítalann það sama ár. Frönsku húsin voru notuð til að hýsa franska skipbrotsmenn, en ekki er vitað hvenær þau voru rifin. Spítalinn var ekki lengi í byggingu og væntanlega hefur ekki verið þörf fyrir húsin þegar hann var tekinn til starfa.9Freyja Jónsdóttir (2002, 25. júní). Lindargata 51, Franski spítalinn, Morgunblaðið, 90. árg., blað C, bls. 42.

 

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 11. mars, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Klemens Jónsson (1929). Saga Reykjavíkur. Síðara bindi, bls. 52-53. Reykjavík: Steindór Gunnarsson; Jón Helgason (1916). Þegar Reykjavík var fjórtán ára. Brot úr sögu Reykjavíkur, bls. 32. Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg.
  • 2
    Klemens Jónsson (1929), bls. 53.
  • 3
    Elín Pálmadóttir (1989). Fransí biskví. Frönsku Íslandssjómennirnir, mynd nr. 50. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
  • 4
  • 5
    Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. 1. bindi. A-G, bls. 49. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
  • 6
    Páll Líndal (1987). Reykjavík. Sögustaður við Sund. 2. bindi. H-P, bls. 67. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
  • 7
    Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1987). Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, bls. 156. Reykjavík: Torfusamtökin; Jón Helgason (1941). Árbækur Reykjavíkur 1786-1936, bls. 285. Reykjavík: Leiftur.
  • 8
    Elín Pálmadóttir (1989), mynd nr. 50.
  • 9

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 11. mars, 2024