Lindargata 41, Reykjavík, árið 1954. Ljósm.: Sigurhans Vignir. Borgarsögusafn. Myndasafn. Mynd nr. VIG 1288 1-2. Sótt 4.  nóvember 2024 af https://borgarsogusafn.is/myndasafn?q=%22Lindargata+41%22&h=eyJmaWxlbmFtZSI6IlZJRyAxMjg4IDEtMi5qcGciLCJwYWdlIjowfQ%3D%3D.
Lindargata 41, Reykjavík, árið 1954. Ljósm.: Sigurhans Vignir. Borgarsögusafn. Myndasafn. Mynd nr. VIG 1288 1-2. Sótt 4. nóvember 2024 af https://borgarsogusafn.is/myndasafn?q=%22Lindargata+41%22&h=eyJmaWxlbmFtZSI6IlZJRyAxMjg4IDEtMi5qcGciLCJwYWdlIjowfQ%3D%3D.

Fossagata 13, Reykjavík

Byggingarár: 1902
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Kolbeinn og Einar Þorsteinssynir
Aðrir eigendur:
1989: Gunnhildur Emilsdóttir og Patricia Bark
Upphafleg staðsetning: Lindargata 41 (áður nr. 19), Reykjavík
Flutt: 1990 að Fossagötu 13, Reykjavík
Hvernig flutt: Í heilu lagi
Lindargata 41 2

Lindargata 41, Reykjavík, árið 1971. Ljósm.: Sveinn Þórðarson. Borgarsögusafn. Myndasafn. Mynd nr. SÞÓ ÁBS 840

Fossagata 13 2008

Fossagata 13, Reykjavík, árið 2008. Ljósm. úr Gagnasafni Húsafriðunarnefndar.

Saga:

Í lok september árið 1902 var virt til brunabóta einloftað timburhús með háu porti og risi sem bræðurnir Kolbeinn (1879-1960) og Einar Þorsteinssynir (1868-1933) höfðu byggt á lóð sinni við Lindargötu. Þegar hús fengu síðar númer við götuna varð þetta hús númer 19, en síðan  var númerum breytt og fékk þá húsið númerið 41. Húsið var byggt af bindingi, allar hliðar klæddar að utan með plægðum borðum, pappa og járni. Sömuleiðis var járn á þakinu. Niðri í húsinu voru 4 herbergi og tvö eldhús, sem allt var þiljað að innan og herbergin auk þess með panelpappa á veggjum. Allir veggir voru málaðir. Á hæðinni voru fjórir ofnar og tvær eldavélar. Í risinu voru fjögur herbergi og eitt eldhús. Öll voru rýmin þiljuð og máluð. Kjallari var undir öllu húsinu. Við norðuhlið var inn- og uppgönguskúr, sem allur var þiljaður og málaður.1Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Brunavirðingar 1900 til 1905. Aðf.nr. 735. Brunav.nr. 693. Sótt 3. nóvember 2024 af https://www.borgarskjalasafn.is/static/files/Midlun/Brunabotavirdingar/Brunavirdingar/735-bok-02-04-1900-til-13-11-1905-adfnr-735.pdf.

Miðað við þessa lýsingu virðist hafa verið gert ráð fyrir þremur eða fjórum íbúðum í húsinu, en þegar manntal var tekið árið 1910 eru hvorki meira né minna en 24 manneskjur skráðar til heimilis í húsinu í 6 misstórum fjölskyldum. Þar býr enn Einar Þorsteinsson með konu sinni Kristínu Einarsdóttur (1874-1941) og fjórum dætrum þeirra hjóna.2Þjóðskjalasafn Íslands. Manntöl. Sótt 4. nóvember 2024 af https://manntal.is/leit/Lindargata%2019/1910/1/1910.

Á níunda áratug síðustu aldar var farið að huga að því að reisa stórhýsi við Lindargötu og keypti þá Reykjavíkurborg húsið eins og fleiri hús á þessum slóðum.

Árið 1989 höfðu þær Gunnhildur Emilsdóttir og Patricia Bark fengið leyfi til að flytja húsið númer 41 við Lindargötu á lóð númer 13 við Fossagötu í Skerjafirði og endurbyggja það þar.
Húsið var flutt á steyptan kjallara sem búið var að byggja áður en það var flutt. Samkvæmt teikningu Magnúsar Skúlasonar áttu að vera tvær íbúðir í húsinu. Jakob Fenger, maður Gunnhildar, flutti húsið, en hann hefur annast flutning á mörgum húsum hér í borg.
Húsið var gert upp sem næst því sem það var upprunalega. Það hafði verið augnstungið, krosspóstar slegnir út og settar heilar rúður. Þegar húsið var gert upp voru allir gluggar, þrjátíu og sex að tölu, gerðir upp og settir í þá krosspóstar og rúðurammar. Fyrir ofan þá var sett skraut eins og talið er að hafi prýtt húsið þegar það var nýbyggt.
Skipt var um járn bæði á hliðum og á þaki. Að innan var allt notað sem mögulegt var og gömlu gólffjalirnar unnar upp á báðum hæðum. Smíða þurfti stiga á milli hæðanna en sá sem var fyrir í húsinu var ekki lengur nothæfur.
Víða á veggjum er hinn upphaflegi panill og málningin verið verkuð af honum svo að efnið fái að njóta sín. Á einum vegg í risinu hefur bláa málningin fengið að halda sér en hún fannst undir nokkrum lögum af annarri málningu. þegar húsið var flutt var inn – og uppgönguskúrinn rifinn og einnig viðbyggingin sem byggð var árið 1907.
Húsið stendur ekki rétt eftir áttum eins og svo mörg önnur hús í Reykjavík. Gengið er inn í húsið á norðvestururgafli og komið inn í rúmgóða forstofu. þar inn af er gangur, bað, eldhús og þrjár samliggjandi stofur, ein af þeim var byggð eftir að búið var að flytja húsið.
Úr forstofunni er breiður stigi upp á efri hæðina, stiginn er nýr. Í miðstofunni er hringstigi í kjallara hússins. Þar eru þrjú svefnherbergi, bað, þvottaherbergi og geymsla. Frá ganginum niðri eru útidyr að stórum timburpalli. Í kringum pallinn er upphækkun hlaðin úr grjóti sem kjallari hússins var hlaðinn úr þegar það var við Lindargötu. Í rishæð eru þrjú herbergi, eldhús og bað.
Gengið er út á svalir sem eru ofan á útbyggingunni frá stofunni. Flestar millihurðir í húsinu eru gamlar og hafa verið unnar upp. Þær eru þó ekki upphaflegu hurðirnar og engin þeirra úr húsinu sjálfu. Sumar þeirra eru frá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þegar húsið var byggt var það ekki einangrað en þegar það var gert upp var einangrað með steinull. Lítið hanabjálkaloft er efst sem notað er til geymslu. Húsið er fallegt og reisulegt á sínum nýja stað og vel hefur tekist með endurbyggingu þess.3Freyja Jónsdóttir (2002, 22. október). Fossagata 13. Morgunblaðið, 90. árg., bls. C 31.

 

Leitarorð: Skerjafjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 4. nóvember, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 4. nóvember, 2024