Fundarhúsið í Nesjum eftir að byggt var við það.  Heimild: Arnþór Gunnarsson (1997). Saga Hafnar í Hornafirði. Fyrra bindi. Aðdragandi búsetu og frumbýlisár, bls. 321. 
Hornafirði: Hornafjarðarbær.
Fundarhúsið í Nesjum eftir að byggt var við það. Heimild: Arnþór Gunnarsson (1997). Saga Hafnar í Hornafirði. Fyrra bindi. Aðdragandi búsetu og frumbýlisár, bls. 321. Hornafirði: Hornafjarðarbær.

Fiskhóll 5, Höfn

Heiti: Fundarhús - Sólstaðir – Fiskhóll
Byggingarár: 1907
Upphafleg notkun: Samkomu- og fundahús
Fyrsti eigandi: Nesjahreppur
Aðrir eigendur:
1913: Guðmundur Jónsson Hoffelli
1920: Sigurður Sigurðarson og Kristín Arngrímsdóttir
Upphafleg staðsetning: Bjarnaneshverfi í Nesjahreppi
Fyrst flutt: 1918 flutt að Sandbakka
Aftur flutt:
1918 að Hafnarbraut 1 á Höfn
1920 að Fiskhól á Höfn
Hvernig flutt: 1918 var húsið dregið af 12 hestum á ís eftir Hornafirði. 1919 var það dregið með spili. 1920 var húsið flutt sjóleiðis í pörtum.
Fiskhóll 2

Sólstaðir skömmu  eftir að húsið var flutt á Fiskhól. Ríki Vatnajökuls. Frétta- og upplýsingavefur Hornafjarðar (ódags.). Myndasafn. Gamlar myndir. Fiskhóll. Sótt 30. september 2009 af http://www2.hornafjordur.is/myndasafn/ album/37/mynd/136/.

Fiskhóll 3

Fiskhóll 5 árið 1995. Ljósm.: Gagnasafn Minjastofnunar Íslands.

Saga:

Árið 1906 reistu hreppsbúar í Nesjum sér samkomu- og fundahús. Það stóð neðan við gamla leikvöll Ungmennafélagsins Mána, milli Fornustekka og Brekkubæjar, spöl innar en þar sem Nesjaskóli var síðar byggður.Byggingin var að talsverðu leyti fjármögnuð með tombóluhaldi auk þess sem að Þórarinn Tulinius, kaupmaður á Höfn, lagði til fé. Yfirsmiður Fundarhússins var Móritz Steinsen í Krossbæ  Gert var ráð fyrir að húsið yrði einnig notað sem barnaskóli.1Stefán Jónsson og Bjarni Bjarnason (1971). Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu. I. bindi, bls. 121. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó; Vísir. Málgagn Ungmennafélagsins Mána í Nesjum (2015, 22. desember). 1. tbl., bls. 5. Sótt 19. desember 2023 af https://usu.is/wp-content/uploads/2015/12/V%C3%ADsir-1-tbl-2015.pdf.; Nesjum, Austurskaptafellssýslu 2. okt. (1907, 2. nóvember). Austri, 17. árg., 43. tbl., bls. 155.

Hús þetta er 13 ál. langt, 9 ál. breitt og 5 ál. undir lopt. Funda- og skólastofan er 9+9 ál. Kjörherbergi 4+4½ og forstofa af líkri stærð. Húsið er byggt úr sterkum og góðum viðum. Utan á grindinni er byrðing úr plægðum borðum, þá tjørupappi og yzt bárujárn; að innan er húsið allt þiljað í hólf og gólf og málað utan og innan. Stór ofn er í húsinu og ágætur lampi til að lýsa salinn.2Nesjum, Austurskaptafellssýslu 2. okt. (1907, 2. nóvember).

Í frétt um húsið í Austra 2. nóvember 1907 er sagt að ekki sé vitað um myndarlegra samkomuhús upp til sveita á Austurlandi.

Mikið var um dýrðir þegar húsið var vígt 29. október 1907, mælt var fyrir minni konungs, Hornafjarðar, kvenna og margar aðrar ræður haldnar milli þess sem gestir skemmtu sér við dans og söng og gæddu sér á kaffi og óáfengum drykkjum fram undir morgun.3Nesjum, Austurskaptafellssýslu 2. okt. (1907, 2. nóvember).

Skömmu eftir að húsið var byggt fékk Þórhallur Daníelsson, kaupmaður á Höfn, leyfi til að byggja viðbyggingu við húsið, þar sem hann hafði aðstöðu fyrir sig og sína á mannamótum. Þegar kirkja var byggð við Laxá árið 1912 fengu hreppsbúar nýja aðstöðu til funda- og samkomuhalda í kjallara kirkjunnar og samkomuhúsið missti hlutverk sitt. Skömmu síðar keypti Guðmundur Jónsson í Hoffelli húsið og hugðist hann nýta húsið sem verslunarhús, en til þess var húsið á óheppilegum stað og ákvað hann því að koma húsinu út á Höfn þar sem það yrði betur í sveit sett. Þegar Hornafjörð fraus næstum allan frostaveturinn mikla 1918 var ákveðið að freista þess að flytja húsið út eftir í heilu lagi á ís, en þá var ísinn á sundinu milli Álaugareyjar og Mikleyjar orðinn 45 sm þykkur. Áður en hafist var handa við að undirbúa húsið fyrir flutninginn var haldinn kveðjudansleikur í húsinu í foráttuveðri 19. janúar 1918.

Undirbúningur hússins fyrir flutning fólst í því að losa húsið af grunninum og setja það á volduga meiða úr heljarmiklum júfertum, sem sækja þurfti um langan veg.4Heimir Þór Gíslason (1987). Fundarhús á ferðalagi. Eystrahorn, 5, 46, bls. 14-17.

Húsið dregið með hestum. Teikn.: Heimir Þór Gíslason. Heimir Þór Gíslason (1987). Fundarhús á ferðalagi. Eystrahorn, 5, 46, bls. 14-15.

Svo mun það vera 24. janúar, sem húsið er tilbúið og farið að draga það áleiðis af stað, vestur eftir, í áttina út á Hornafjörð, eða út á ísinn, og þaðan tók tvo daga að koma því niður á ís. Versti farartálminn var garður við Austurhólsrimann. Það varð að brjóta hann niður að hluta til, auk þess að byggja þurfti undir húsið, sitt hvoru megin við garðinn. Á þessum tíma var húsið flutt áfram með handafli. Átján til tuttugu menn drógu það með blökkum, annarri þrískorinni og hinni tvískorinni. Auk þess voru nokkrir menn sem ýttu á eftir húsinu og vógu það áfram með brotum, það er að segja sterkum staurum eða plönkum.
Svo þegar komið var niður á ís þá gekk þetta allt betur, það þurfti ekki lengur að nota blakkir, og þessir tuttugu menn drógu húsið þar á kafla með aðstoð nokkurra hesta. Þegar hér var komið sögu var kominn 27. janúar og verkið hafði staðið í þrjá daga og miðað fremur hægt.5Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15.

En nú kom babb í bátinn, frostið rénaði auk þess sem stórstreymi gerði það að verkum að vatn flæddi um allan ís þannig að sumstaðar var ekki klofstígvélafært. Þegar húsið var komið út í Hrappsey var gert hlé á flutningnum til 7. febrúar.6Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15.

Það hafði frosið talsvert dögunum áður og nú var lagt af stað í bítið. Hafði nú verið safnað miklu liði. Um þrjátíu vaskir menn, sjálfsagt allir á broddum, drógu húsið ásamt fimm hestum. En þeir höfðu ekki langt farið er veður tók að spillast á ný. Hvessa fór á austan og flatti húsið talsvert undan vindi, en áfram miðaði þó. Sumstaðar þótti ekki vitlegt annað en að bora í gegnum ísinn og rannsaka þykkt hans. Frá Háey var húsið dregið þvert austur undir land og þá beint á móti vindi og tók það svo mikinn vind á sig að þar varð að nota blakkir á ný og tafði það ferðina. En samt sem áður, miðaði þótt hægt færi og seint um daginn eða kvöldið, voru þeir komnir alla leið út að Sandbakka. Þar var húsið dregið fast að landi og stóð þar í fjörunni um nóttina. Og var það tjóðrað rækilega fast. Skollin var á rigning og versta veður. Daginn eftir hafði skipast svo að ísinn þar sem farið var með húsið daginn áður var nú allur brotinn upp og sumstaðar autt inn fyrir Sandbakkasker. Og eftir þetta fraus aldrei svo mikið að húsið hefði verið flutt.7Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15.

Gripið var til þess ráðs að koma húsinu upp á bakkann. Til þess þurfti ýmis konar tilfæringar, meðal annars var notað bátaspil. Þarna stóð húsið þar til fryst hafði nægilega næsta haust svo að hægt væri að koma því á fyrirhuguðum grunni, sem var nálægt þeim stað þar sem nú er húsið númer 1 við Hafnarbraut.8Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15-16.

Oft mun hafa verið kátt á hjalla meðan á þessum flutningi öllum stóð, ekki síst þegar margmenni var að flytja húsið áleiðis út á Höfn. … En eins og fram kom hér fyrr, voru um það tuttugu manns á „hlauparanum“ svonefnda, kaðlinum sem gekk í gegn um blakkirnar, en aftan við húsið voru fimm til sex menn, sem komu því af stað með brotum. Voru þeir sem framan við húsið voru, gjarnan nefndir „hlauparar“, en þeir sem voru með brotin aftan við voru nefndir „brotamenn“. En þegar ekki líkaði alltof vel við frammistöðu þeirra, var farið að kalla þá „afbrotamenn“.9Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 17.

En nú ber heimildum ekki saman. Heimir Þór Gíslason segir að Guðmundi á Hoffelli hafi snúist hugur og aldrei hafi verið rekin verslun í húsinu á þessum stað. Hins vegar hafi húsið verið notað sem verbúð og haldnir dansleikir í húsinu.10Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 16. Þetta kemur heim og saman við það sem Kristján Imsland segir í grein sinni um Hornafjörð í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1948. Hann getur þess að athafnamaðurinn Þórhallur Daníelsson, sem lét byggja við húsið skömmu eftir að það var byggt, hafi um 1915 til 1918 keypt gamalt fundarhús af Nesjamönnum, flutt það í heilu lagi út á Höfn og leigt það fimm bátshöfnum.11Kristján Imsland (1948). Hornafjörður, bls. 151. Sjómannablaðið Víkingur, X. árg., 6-7. tbl., bls. 150-155. Hlýtur hér að vera um sama hús að ræða. Arnþór Gunnarsson segir aftur á móti að Þórhallur hafi rekið verslun í húsinu fram á sumar 1920, en þá var hann ráðinn kaupfélagsstjóri nýstofnaðs Kaupfélags Austur-Skaftfellinga. Þá keyptu hjónin Sigurður Sigurðsson og Kristín Arngríms­dóttir húsið.12Arnþór Gunnarsson (1997). Saga Hafnar í Hornafirði. Fyrra bindi. Aðdragandi búsetu og frumbýlisár, bls. 97. Hornafirði: Hornafjarðarbær. Sigurður tók húsið í sundur, flutti það í pörtum sjóleiðina beinustu leið yfir að Fiskhól og notaði efniviðinn til að reisa íbúðarhús. Gjarnan voru farnar tvær eða þrjár ferðir á hverju flóði og þannig tókst að flytja húsið smám saman. Hús sitt nefndu þau Sólstaði, en það gekk þó yfirleitt undir nafninu Fiskhóll, og var það fyrsta íbúðarhúsið sem var byggt fyrir innan Litlubrú.

Fiskhóll 5 í desember 2009. Ljósm.: Gagnasafn Minjasstofnunar Íslands.

Sigurður Sigurðsson (1885-1962) gekk undir nafninu Siggi snikkari, því hann vann við smíðar í kauptúninu, einkum húsasmíðar, frá því hann fluttist þangað fyrir 1910. Hann vann einnig við búarsmíðar víðs vegar um land og var um skeið byggingarfulltrúi á Höfn.13Arnþór Gunnarsson (1997), bls. 97; Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 17. Það hefur því varla vafist fyrir honum að búta húsið í sundur og setja það saman á aftur á nýjum stað, þar sem segja má að þau hjón Siggi snikkari og Kristín hafi verið frumbyggjar.

„[Húsið] er tvílyft timburhús á steyptum kjallara, 47 fermetrar að grunnfleti samkvæmt fasteignamati frá 1930, með tveimur íbúðum og fimm herbergjum á hvorri hæð.“14Arnþór Gunnarsson (1997), bls. 98.

Sólstaðir standa enn á lóð nr. 5 við Fiskhól. Enn eru tvær íbúðir í húsinu, en samkvæmt Fasteignaskrá Íslands hefur húsið verið stækkað.

 

Leitarorð: Hornafjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 19. desember, 2023

Heimildaskrá

  • 1
    Stefán Jónsson og Bjarni Bjarnason (1971). Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu. I. bindi, bls. 121. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó; Vísir. Málgagn Ungmennafélagsins Mána í Nesjum (2015, 22. desember). 1. tbl., bls. 5. Sótt 19. desember 2023 af https://usu.is/wp-content/uploads/2015/12/V%C3%ADsir-1-tbl-2015.pdf.; Nesjum, Austurskaptafellssýslu 2. okt. (1907, 2. nóvember). Austri, 17. árg., 43. tbl., bls. 155.
  • 2
    Nesjum, Austurskaptafellssýslu 2. okt. (1907, 2. nóvember).
  • 3
    Nesjum, Austurskaptafellssýslu 2. okt. (1907, 2. nóvember).
  • 4
    Heimir Þór Gíslason (1987). Fundarhús á ferðalagi. Eystrahorn, 5, 46, bls. 14-17.
  • 5
    Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15.
  • 6
    Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15.
  • 7
    Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15.
  • 8
    Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 15-16.
  • 9
    Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 17.
  • 10
    Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 16.
  • 11
    Kristján Imsland (1948). Hornafjörður, bls. 151. Sjómannablaðið Víkingur, X. árg., 6-7. tbl., bls. 150-155.
  • 12
    Arnþór Gunnarsson (1997). Saga Hafnar í Hornafirði. Fyrra bindi. Aðdragandi búsetu og frumbýlisár, bls. 97. Hornafirði: Hornafjarðarbær.
  • 13
    Arnþór Gunnarsson (1997), bls. 97; Heimir Þór Gíslason (1987), bls. 17.
  • 14
    Arnþór Gunnarsson (1997), bls. 98.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 19. desember, 2023