Eyrarlandsstofa, Lystigarðinum, Akureyri
Eyrarlandsstofa á sínum upphaflega stað við bílastæði Sjúkrahúss Akureyrar, sem er fremst á myndinni, árið 1968. Ljósm. Gunnsteinn Gunnarsson. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. Lps/2010-407-1. Sótt 18. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1541857.
Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum á Akureyri. Nú starfsmannaaðstaða Lystigarðsins. Heimild: Vikublaðið (2020, 16. júní). Hús vikunnar: Eyrarlandsstofa. Sótt 18. júlí 2024 af https://www.vikubladid.is/is/frettir/hus-vikunnar-eyrarlandsstofa.
Saga:
Um Eyrarlandsstofu, sem nú er í Lystigarðinum á Akureyri segir á vef Vikublaðsins:
Drjúgur hluti þéttbýlis Akureyrar, sunnan Glerár, er að mestu í landi forns stórbýlis, Stóra – Eyrarlands. Gagnfræðaskólinn (nú Menntaskólinn) var reistur árið 1904 í túni Eyrarlands og fáeinum árum síðar voru fyrstu tré Lystigarðsins gróðursett fast við Eyrarlandsbæinn. Bæjarstæði Stóra – Eyrarlands var þar sem nú eru bílastæði Sjúkrahússins. Þar var reist, um miðja 19. öld, Eyrarlandsstofa og er það eitt Eyrarlandshúsa sem enn stendur. Húsið var flutt á núverandi stað í sunnanverðum Lystigarðinum árið 1987.
Eyrarlandsstofa er talin byggð 1848 og hönnuður hússins hinn valinkunni hagleikssmiður Þorsteinn Daníelsson, kenndur við Skipalón. Þá bjuggu á Stóra – Eyrarlandi þau Magnús [1804-1846] og Geirþrúður [1805-1864] Thorarensen.
Eyrarlandsstofa er einlyft timburhús með háu risi, ca. 5,5×9,5m að grunnfleti og stendur húsið á steyptum grunni. Veggir klæddir slagþili en rennisúð á þaki og sexrúðupóstar eru í gluggum. Stóra – Eyrarland var frá fornu fari mikil kostajörð og henni tilheyrði m.a. hálfur Glerárdalurinn og Stórhólmi við ósa Eyjafjarðarár. Árið 1893 keypti Akureyrarkaupstaður Stóra – Eyrarland með það að markmiði, að eignast byggingarland. Áratugir liðu hins vegar, uns þéttbýlismyndum varð að ráði á Brekkunni. Áfram var stundaður búskapur en síðasti ábúandi Stóra – Eyrarlands, Jón Helgason, bjó þar til dánardægurs, 1956. Búskapur á býlinu hafði hins vegar lagst af áratugum fyrr, enda raunar sjálfhætt með uppbyggingu þéttbýlis er líða tók á 20. öldina.
Eyrarlandsstofa var íbúðarhús lengi vel en einnig var húsið nýtt af Sjúkrahúsinu. Um og upp úr 1980 komu fram hugmyndir um að flytja Eyrarlandsstofu inn í Lystigarð. Flutningur hússins fór fram, sem áður segir, árið 1987 og var það í kjölfarið endurbyggt af miklum myndarbrag. Miðuðust endurbætur við að færa húsið til upprunalegs horfs að ytra byrði, m.a. blikk- og járnklæðningu skipt út fyrir slagþil og rennisúð. Nú er Eyrarlandsstofa sannkölluð garð- og bæjarprýði. Eyrarlandsstofa er nýtt sem starfsmannaaðstaða fyrir starfsfólk Lystigarðsins. Húsið var friðlýst árið 1990.1Vikublaðið (2020, 16. júní). Hús vikunnar: Eyrarlandsstofa. Sótt 18. júlí 2024 af https://www.vikubladid.is/is/frettir/hus-vikunnar-eyrarlandsstofa.
Eyrarlandsstofa er talin byggð á árunum 1844-1848. Hafi Magnús látið byggja húsið, hefur hann ekki séð það fullbúið, því hann lést árið 1846. Ekki er ósennilegt að Geirþrúður hafi látið byggja húsið eftir lát Magnúsar, eins og Arnór Bliki Hallmundsson bendir á.2Arnór Bliki Hallmundsson (2011, 7. september). Hús dagsins: Eyrarlandsstofa. Sótt 18. júlí 2024 af https://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1189627/.
Á vef Minjastofnunar Íslands má finna þessar upplýsingar um byggingu hússins:
Eyrarlandsstofa er einlyft timburhús með risþaki, 9,59 m að lengd og 5,42 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir slagþili og þak rennisúð. Á húsinu eru sex krosspóstagluggar með sex rúðum; tveir á vesturhlið, einn á suðurstafni og þrír á austurhlið. Efst á hvorum stafni er fjögurra rúðu póstgluggi. Útidyr eru á austurhlið nærri miðju húsi og bakdyr á vesturhlið norðarlega.
Forstofa er inn af útidyrum, herbergi í norðausturhluta, stofa í suðurenda, forstofa og stigi inn af bakinngangi og snyrting er í norðvesturhluta hússins. Upp af stiga er geymsluloft og afþiljað herbergi við suðurgafl. Veggir á jarðhæð eru klæddir strikuðum panelborðum en snyrting er plötuklædd. Loft eru klædd plötum á milli klæddra bita. Veggir í risi eru klæddir spjaldaþili. Súð á geymslulofti er klædd skarsúð á sperrur og í suðurherbergi er listuð standsúð. Jarðhæð og suðurloft eru máluð að innan en geymsluloft bæsað. Rishæð hússins er ófrágengin að innan.3Minjastofnun Íslands. Friðlýst hús og mannvirki. Eyrarlandsstofa, Lystigarðinum. Sótt 18. júlí 2024 af https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/eyrarlandsstofa.
Um Eyrarlandsstofu segir Hörður Ágústsson í bók sinni Íslensk byggingararfleifð II:
Frumkvæði að varðveislu stofunnar átti Jóhann Pálsson, forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar og Þór Magnússon [þáverandi þjóðminjavörður]. Þorsteinn Gunnarsson [arkitekt] sá um endurgervingu hússins, sem hófst 1983 á byggingarrannsóknum, uppmælingu og aðlögun að nýtti notkun, sem kraftðist nálægrar nýbyggingar í sama stíl, og lauk 1985. Í október 1986 samþykkti bæjarráð Akureyrar að flyta húsið á nýjan grunn í Lystigarði Akureyrar og var það opnað 30. júní 1987 og notað fyrir starfsfólk Lystigarðsins. Byggingadeild bæjarins annaðist framkvæmdir undir stjórn Einars Jóhannssonar tæknifræðings.4Hörður Ágústsson (2000). Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, bls. 116-123. [Reykjavík:] Húsafriðunarnefnd ríkisins.
Á vef Minjasafnsins á Akureyri er eftirfarandi frásögn um Geirþrúði, ekkju Magnúsar Thorarensen:
Ekkjan Geiþrúður Thyrrestrup (1805-1864) varð eignakona þegar hún ung að árum erfði jörðina Eyrarland eftir mann sinn Magnús Thorarensen ásamt 2000 ríkisdölum og síðar umtalsverða fjármuni eftir danska foreldra sína og systur eða um 13300 ríkisdali. Fyrir vikið var hún á sínum tíma ríkasta kona bæjarins – og líklega á öllu landinu. Velgengni veldur þó oft öfund og afbrýði.
Geirþrúður lifði nokkuð hátt, hærra en almannarómur þoldi. Hún hélt vegleg boð og dansleiki í Eyrarlandsstofu og aldrei skorti vín né veitingar. Það skorti heldur ekki sögurnar sem gengu um bæinn um lífernið í Eyrarlandsstofu. Þar dvaldi um tíma giftur maður, Jóhann Guðmundsson, sem sagt var að ætti í ástarsambandi við Geirþrúði. Það þótti mikið hneyksli og var rætt um að svipta eignakonuna sjálfræði vegna þessa. Jóhann var því fljótlega sendur á brott. Síðar varð hún ástfanginn af öðrum Jóhanni, Jóhanni Jakob, sem sendur hafði verið hreppaflutningum frá Kaupmannahöfn til fæðingarsveitar sinnar, Hrafnagilshrepps, sem Akureyri tilheyrði áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1862. Ríkidæmi Geirþrúðar veitti henni ekki allt það frelsi sem hugsast gat því þótt skötuhjúin vildu giftast var þeim neitað um vígslu. Þau héldu þó áfram að vera saman í óvígðri sambúð á Eyrarlandsstofu. Þegar upp kom lekandi á Akureyri og var hann rakinn til Eyrarlandsstofu og var heimilið í kjölfarið sett í einangrun. Hefðarfrúin sinnti því litlu og hélt sína dansleiki.
Líferni Geirþrúðar og eyðslusemi var umtöluð í bænum og var sem fyrr talað um hvort svipta ætti hana sjálfræði. Enginn þrýsti jafn mikið á það og tengdasonur hennar, séra Daníel Halldórsson. Honum fannst eyðslusemi og ólífi tengdamóðurinnar úr öllu hófi. Eftir miklar deilur og bréfaskrif við sýslu- og amtmann fékk klerkurinn sínu framgengt árið 1861. Sigurinn var ekki algjör því hann fékk ekki umsjón með fjármunum hennar. Það hlutverk var falið virðulegum verslunarstjóra, faktor Bernhard August Steincke sem fór fljótlega að stunda viðskipti með fé og eignir Geirþrúðar. Einn sá fyrsti til þess að fá lán úr eignastýringu Steincke var enginn annar en séra Daníel Halldórsson! Nokkrum árum síðar lést Geirþrúður.
Saga Geirþrúðar er sorglegt dæmi um hversu bág kjör kvenna voru á þessum tíma, jafnvel hefðarfrúar. Réttindi þeirra voru skert og undir körlum komin. Álitið var að hlutverk þeirra í samfélaginu fælist fyrst og fremst í barnauppeldi og heimilishaldi. Það var ekki í þeirra verkahring að höndla með eignir og peninga. Hins vegar voru karlmenn oft litlu skárri en þá var yfirleitt tekið öðruvísi á málunum. Jafnvel þó að Geirþrúður hafi lifað hátt á sínu lífsskeiði var nóg eftir í búi hennar þegar hún lést eða yfir 10000 ríkisdalir.5Minjasafnið á Akureyri. Sögu staurar. Ríkasta kona Íslands svipt sjálfræði. Sótt 18. júlí 2024 af https://www.minjasafnid.is/is/sogustaurar-upphafs/rikasta-kona-islands-svipt-sjalfraedi.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. júlí, 2024
Heimildaskrá
- 1Vikublaðið (2020, 16. júní). Hús vikunnar: Eyrarlandsstofa. Sótt 18. júlí 2024 af https://www.vikubladid.is/is/frettir/hus-vikunnar-eyrarlandsstofa.
- 2Arnór Bliki Hallmundsson (2011, 7. september). Hús dagsins: Eyrarlandsstofa. Sótt 18. júlí 2024 af https://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1189627/.
- 3Minjastofnun Íslands. Friðlýst hús og mannvirki. Eyrarlandsstofa, Lystigarðinum. Sótt 18. júlí 2024 af https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/eyrarlandsstofa.
- 4Hörður Ágústsson (2000). Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, bls. 116-123. [Reykjavík:] Húsafriðunarnefnd ríkisins.
- 5Minjasafnið á Akureyri. Sögu staurar. Ríkasta kona Íslands svipt sjálfræði. Sótt 18. júlí 2024 af https://www.minjasafnid.is/is/sogustaurar-upphafs/rikasta-kona-islands-svipt-sjalfraedi.
Deila færslu
Síðast uppfært 18. júlí, 2024