Líkan af fyrsta skólahúsinu á Búðarhól. Ljósm.: Steingrímur Kristinsson. Sótt 18. mars 2024 af https://sk2134.is/gamli/Lifid/2003-11-04.htm
Líkan af fyrsta skólahúsinu á Búðarhól. Ljósm.: Steingrímur Kristinsson. Sótt 18. mars 2024 af https://sk2134.is/gamli/Lifid/2003-11-04.htm

Eyrargata 25, Siglufirði

Heiti: Búðarhóll
Byggingarár: 1866
Brann: Á stríðsárunum (1938-1945)
Upphafleg notkun: Íbúðarhús - veitingahús ?
Fyrsti eigandi: Bessi Þorleifsson og Guðrún Einarsdóttir
Aðrir eigendur:
Um 1880: Hvanneyrarhreppur
Upphafleg staðsetning: Lindargata 16, Siglufirði
Flutt: 1924 að Eyrargötu 25
Hvernig flutt: Dregið

Saga:

Nálægt þeim stað þar sem nú er Lindargata 16 á Siglufirði voru byggð tvö lítil timburhús sem gengu undir nafninu Búðarhólshúsin. Annað húsið var byggt 1866 og hitt 1891 eða 1893. Eldra húsið byggði Bessi Þorleifsson skipstjóri og nefndi Búðarhól. Þó húsið hafi aðeins verið 7,5 m að lengd og 4,4 m á breidd, eða 33 fermetrar, var þar starfrækt veitingasala í mörg, líklega til ársins 1881. Þá voru þar haldnar ýmsar samkomur, m.a. dansleikir og brúðkaupsveislur.

Um 1880 keypti Hvanneyrarhreppur húsið til að gera að fyrsta barnaskóla í hreppnum. Eftir það var húsið kallað Skólahús. Fyrsti kennari var Helgi Guðmundsson læknir. Kennt var í húsinu til ársins 1899 þegar nýtt skólahús var reist við Aðalgötu.1Sigurjón Sigtryggsson (1986). Frá Hvanndölum til Úlfsdala. Þættir úr sögu Hvanneyrarhrepps, bls. 634-635. 3 bindi. Reykjavík: Sögusteinn; Örlygur Kristfinnsson (2023). Fólkið á Eyrinni. Smámyndir og þættir, bls. 239. Siglufirði: Söluturninn.

Árið 1924 var húsið „ … losað af grunni sínum og dregið út á Eyri þar sem það fékk nýtt hlutverk sem íbúðarhús tveggja fjölskyldna.“ Húsið stóð á horni Eyrargötu og Túngötu og var númer 25 við Eyrargötu.2Örlygur Kristfinnsson (2023). bls. 239.

Eins og fyrr er sagt voru húsin sem kölluðust einu nafni Búðarhólshúsin tvö. Hitt húsið, það yngra, var flutt að Kirkjustíg 5B á Siglufirði einnig árið 1924.3Harpa Grímsdóttir (1998, desember). Byggingarár húsa á Siglufirði, bls. 23. Reykjavík: Veðurstofa Íslands. Það skal tekið fram að ekki eru allir sammála um það hvort húsið var flutt hvert. Komi fram nýjar upplýsingar um málið mun að sjálfsögðu verða tekið tillit til þeirra og gerðar breytingar á þessum texta með hliðsjón af nýjum heimildum.

Á stríðsárunum bjuggu skipstjórarnir Þorlákur Þorkelsson (1897-1980) og Finnbogi Halldórsson í húsinu við Eyrarbraut 25 ásamt fjölskyldum sínum.

Þá gerðist það að eldur kom upp í húsinu að nóttu til þegar allir íbúar þess voru í fasta svefni – nema einn, en það var heimiliskötturinn hjá Ástu [eiginkonu Þorláks] og Láka. Hann bjó í herbergi barnanna, varð eldsins eða reyksins var og vildi komast út – og eina ráðið til þess var að vekja elsta drenginn, Harrý. Kisa gerði á hann árás og klóraði og mjálmaði hástöfum. Harrý gat vakið systkini sín og foreldra og þau síðan fjölskylduna á efri hæð og allir sluppu naumlega úr brennandi húsinu en glötuðu öllum fátæklegum eigum sínum.4Örlygur Kristfinnsson (2023). bls. 239-240.

Árið 1947 var risið steinsteypt hús á lóðinni, þar sem Áfengisverslun ríkisins var opnuð á neðri hæðinni og er þar enn í dag (2024) undir nýju heiti, Vínbúðin.

 

Leitarorð: Siglufjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. mars, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Sigurjón Sigtryggsson (1986). Frá Hvanndölum til Úlfsdala. Þættir úr sögu Hvanneyrarhrepps, bls. 634-635. 3 bindi. Reykjavík: Sögusteinn; Örlygur Kristfinnsson (2023). Fólkið á Eyrinni. Smámyndir og þættir, bls. 239. Siglufirði: Söluturninn.
  • 2
    Örlygur Kristfinnsson (2023). bls. 239.
  • 3
    Harpa Grímsdóttir (1998, desember). Byggingarár húsa á Siglufirði, bls. 23. Reykjavík: Veðurstofa Íslands.
  • 4
    Örlygur Kristfinnsson (2023). bls. 239-240.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 18. mars, 2024