Efri-Ás, Hofsósi
Heimild: Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 174. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.
Heimild: Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 174. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.
Saga:
Árið 1926 keyptu bræðurnir Jón (1907-1981) og Anton Kjartanssynir (1904-1935) skika úr landi Þönglaskála á Höfðaströnd og tveimur árum síðar byggðu þeir þar íbúðarhús sem þeir nefndu Sólbakka. Foreldrar þeirra Kjartan Vilhjálmsson (1866-1954) og Sigríður Soffía Guðjónsdóttir (1869-1954) voru talin fyrir búi fyrstu tvö árin en árið 1930 tók Jón og eiginkona hans, Anna Sigríður Bogadóttir (1912-1972), við og keyptu hlut Antons. Þau Jón og Anna bjuggu síðan á Sólbakka til ársins 1954 þegar þau fluttu til Hofsóss. Það ár létust báðir foreldrar Jóns, sem búið höfðu hjá honum á Sólbakka og fór þá Sólbakki í eyði.1Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 173-174. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.
Íbúðarhúsið var um 35 metrum í norðvestur frá núverandi sumarhúsi. Það var úr timbri, járnklætt utan og með bárujárnsþaki, 5×6 metrar að flatarmáli, með hlöðnum kjallara undir. Á lofti var eitt herbergi og geymsla. Þar fyrir utan voru í húsinu tvö íbúðarherbergi, eldhús og gangur, kynt með eldavél og tveimur kolaofnum. Lítill skrúðgarður var sunnan undir húsinu. Brunnur var örskammt suðaustan við húshornið. Hann er nú horfinn þar sem fyllt var upp í hann og sléttað yfir. Þegar býlið fór í eyði keypti Bjargmundur Einarsson [1933-2019] í Hofsósi íbúðarhúsið. Var það síðan dregið á jarðýtu í heilu lagi inn í Hofsós árið 1955 og sett niður norðan við íbúðarhúsið Brekku þar sem það stendur enn og heitir Efri-Ás.2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 173-174.
Móðurætt Bjargmundar hafði búið í Brekku frá árinu 1912 og þegar hann flutti húsið fékk hann leigðan skika hjá móður sinni, Margréti Guðmundsdóttur, sem þá var orðin ekkja og átti Brekku.3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 142.
Leitarorð: Skagafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. ágúst, 2024
Heimildaskrá
- 1Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021). Byggðasaga Skagafjarðar. 10, Hofsós, Grafarós, Haganesvík, Drangey og Málmey, bls. 173-174. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga.
- 2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 173-174.
- 3Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson (2021), bls. 142.
Deila færslu
Síðast uppfært 28. ágúst, 2024