Búðargata 4, 1996. Ljósm.: Gagnasafn Minjastofnunar Íslands.
Búðargata 4, 1996. Ljósm.: Gagnasafn Minjastofnunar Íslands.

Búðargata 4, Reyðarfirði

Heiti: Tærgesenshús - Kaupfélagshús
Byggingarár: 1880
Upphafleg notkun: Verslunarhús
Fyrsti eigandi: Peter Tærgesen
Aðrir eigendur:
1886: Jón Magnússon kaupmaður
1912: Kaupfélag Héraðsbúa
Upphafleg staðsetning: Litla-Breiðavík, Reyðarfirði
Flutt: 1890 að Búðargötu 4, Reyðarfirði
Hvernig flutt: Sjóleiðis

Saga:

Eins og margir Norðmenn freistaði Peter Tærgesen gæfunnar við síldveiðar hér við land á seinni hluta 19. aldar. Tærgesen var reyndar danskættaður og kom hingað frá Færeyjum. Hann settist að í Litlu-Breiðuvík, sem er í utanverðum Reyðarfirði, norðan megin, árið 1880 og reisti útgerðar- og verslunarhús. Tærgesen varð gjaldþrota árið 1886, en þó er líklegt að hann hafi verið viðloð­andi fyrirtækið þar til hann lést árið 1889, en sagt er að hann hafi hengt sig uppi á lofti í húsinu. Síðan hefur farið sögum af reimleikum í húsinu.1Guðmundur Magnússon (2003). Saga Reyðarfjarðar 1883-2003, bls. 82-85. Fjarðabyggð: Fjarðabyggð.

Ármann Halldórsson ritaði ítarlega grein um hús þetta árið 1984. Hann telur engan vafa leika á að eftirfarandi virðingargjörð tilheyri því húsi sem hér er til umræðu:

Það er á lengd 40 áln., á breidd 15 áln., hæð af grunni í mæni á að giska 13¼ áln. og undir þakskegg 5 ¾ áln. Fremur veikt að viðum eftir stærð þess, gólf er í því og lauslega lagt, loft af plægðum borðum. Þak af þumlungsþykkum borðum og pappi yfir. Klæðning á hliðum og stöfnum af samkynja borðum, einnig plægðum. 5 inngangar eru á því og hlerar fyrir.2Ármann Halldórsson (1984). Tærgesenshúsið á Reyðarfirði – elsta hús KHB, bls. 61-62. Múlaþing, 13. tbl., bls. 60-75.

Þegar þrotabú Tærgesens var gert upp í júlí 1886 var húsið

sneisafullt af útgerðar- og viðlegudóti bæði uppi og niðri: Vogir, ryðbrunninn ofn, danskt flagg, strengir, önglar, meðalakassi, vatnskíkjar, nótapartar og netagarn, leirtau, kompásar, kabyssa, borð með bekkjum, tunnur, stafir og botnar, digur kaðall, netakúlur, „kútar og annað rusl,“ þakpappi, timburrusl. Þetta og fleira er uppi á loftinu, en niðri ægir öllu saman: Þar eru spilbátar, skektur, tógvinduhankir, árar, háfar, 7 nætur …, koltjörutunna, nótakaggar, dregg, atkeri með kettingu, svigabúnt, börur, stampar o.m.fl.3Ármann Halldórsson (1984), bls. 63.

Búðargata 4 í september 2017. Ljósm.: Ja.is.

Talið er að Jón Magnússon kaupmaður á Eskifirði hafi keypt húsið 1886 og nýtt það sem útgerðar­­­bækistöð þar til hann fékk mælda lóð undir húsið á Búðareyri (þar sem Reyðarfjarðar­kaupstaður stendur nú) árið 1890. Síðar varð lóðin nr. 4 við Búðargötu. Sagt hefur verið að „húsið hafi verið dregið í heilu lagi á tunnuflekum inn allan fjörð.“ Guðmundur Magnússon telur þó líklegra „að það hafi frá upphafi verið tilhöggvið einingahús og því auðvelt að flytja það í pörtum milli staða eins og tíðkaðist með norsku húsin á þessum tíma.“ En hvor aðferðin sem notuð var má gera ráð fyrir að sjóleiðin hafi verið farin.

Þegar kennt var í húsinu veturinn 1897-1898 hafði skólinn þrjú góð herbergi með ágætum ofnum til umráða. Kennslustofa var í einu herbergjanna, leikstofa í öðru og kennarinn bjó í því þriðja.4Ármann Halldórsson (1984), bls. 70.

Margvísleg starfsemi hefur farið fram í þessu næst elsta húsi Reyðarfjarðarkaupstaðar, allt fram á þennan dag, verslunarrekstur (m.a. Kaupfélag héraðsbúa frá 1912-1938), skólahald, sýningar þögulla kvikmynd, tóvinnu- og lopavélar starfræktar og nú síðast hótel. Auk þess var búið í húsinu, eins og títt var um verslunarhús og breski herinn tók það í sína þjónustu á stríðsárunum.5Guðmundur Magnússon (2003), bls. 82-85; Ármann Halldórsson (1984).

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. desember, 2023

Heimildaskrá

  • 1
    Guðmundur Magnússon (2003). Saga Reyðarfjarðar 1883-2003, bls. 82-85. Fjarðabyggð: Fjarðabyggð.
  • 2
    Ármann Halldórsson (1984). Tærgesenshúsið á Reyðarfirði – elsta hús KHB, bls. 61-62. Múlaþing, 13. tbl., bls. 60-75.
  • 3
    Ármann Halldórsson (1984), bls. 63.
  • 4
    Ármann Halldórsson (1984), bls. 70.
  • 5
    Guðmundur Magnússon (2003), bls. 82-85; Ármann Halldórsson (1984).

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 13. desember, 2023