Brattakinn 9, Hafnarfirði
Brattakinn 9 í Hafnarfirði árið 2002. Sótt 29. apríl 2024 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/645960/?t=217053244&_t=1714416081.3874414.
Brattakinn 9 í Hafnarfirði í apríl 2024. Ljósm.: Höfundur.
Saga:
Skólaárið 1901 til 1902 var Matthildur Finnsdóttir (1876-1942) skólastjóri Gerðaskóla (Útskálaskóla) í Garði, sem nú telst til Suðurnesjabæjar. Við því starfi tók Einar Magnússon (1878-1947) árið eftir, en þau gengu í hjónaband um þetta leyti. Einar gegndi skólastjórastarfinu til ársins 1943 og kenndi Matthildur einnig við skólann.1Skólanámskrá Gerðaskóla 2020 – 2022, bls. 5.
Um þau hjón segir eftirfarandi í grein sem Sveinbjörn Árnason ritaði í tilefni 100 ára afmælis Gerðaskóla:
Einar var prúðmenni mikið og var mjög fágaður maður í framgöngu og mjög grandvar maður bæði til orðs og æðis og hafði mjög mótandi og góð áhrif á nemendur sína. Hann var maður sanngjarn, og vitur kennari. Hann hafði ekki skólagöngu að baki sér, en var maður vel sjálfmenntaður. Hann var söngelskur og félagsmálamaður ágætur. Hann var í áratugi gæzlumaður unglingastúkunnar og hafði þar rnikil og góð áhrif. Matthildur, kona hans, var mjög músíkölsk og kenndi hér mörgu fólki að leika á orgel. Í hennar tíð voru hljóðfæri til á flestum betri bæjum. Glæddi hún mjög áhuga fólks á söng- og hljóðfæraslætti, einnig stofnaði hún hér 2 kóra, blandaðan kór og karlakór, og voru þeir starfandi hér í nokkur ár. Þeirra hjóna verður áreiðanlega lengi minnzt með þakklæti og hlýhug, fyrir hin miklu áhrif, som þau höfðu á menningu þessa byggðarlags.2Sveinbjörn Árnason (1973, 1. febrúar). Presturinn kom að jafnaði í skólann á hverjum degi, bls. 31. Faxi, 33. árg., 2. tbl., bls. 30-31.
Um svipað leyti og þau Einar og Matthildur gengu í hjónaband byggðu þau sér íbúðarhús á Gerðalóðinni, sem kallað var Einarshús.3Hallmann Sigurðsson (1966, 1. júní). Býli og búendur í Garði 1903-1915, bls.88. Faxi, 26. árg., 6. tbl., bls. 87-92. Það stóð um 55 m vestan við hús sem nú er númer 21 við Gerðaveg. Enn (2024) sést þar grunnur hússins, 8 x 5 m að utanmáli.4Ágústa Edwald, Ásta Hermannsdóttir o.fl. (2008). Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna), bls. 70-71. Ritstjóri: Birna Lárusdóttir. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands, FS404-08011.
Árið 1949 leigði Hafnarfjarðarbær Leifi Björnssyni (1918-2002) lögregluþjóni lóðina við Bröttukinn 9 í Hafnarfirði. Þangað flutti hann Einarshús árið 1951. Farið var með húsið í heilu lagi landleiðina úr Garði til Hafnarfjarðar sem þóttu tíðindi í þá daga.
Árið 1981 var útbygging eða inngönguskúrinn hækkaður og 1985 var byggður nýr inngönguskúr eða anddyri með svölum.5Fasteignaskrá. Brattakinn 9, Hafnarfirði; Málfríður Kristjánsdóttir, Björn Pétursson, Rósa Karen Borgþórsdóttir o.fl. (2020). Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði, bls. 20; Rósa Karen Borgþórsdóttir, Byggðasafni Hafnarfjarðar (2024, 29. apríl). Tölvupóstur.
Húsið var auglýst til sölu í janúar 2002. Þá var því lýst þannig:
Þetta er timburhús, byggt 1950 og því fylgir steinsteyptur bílskúr sem byggður var 1991. Húsið er 164 ferm., þar af er bílskúrinn 35 ferm.
… Húsið skiptist þannig að kjallarinn er 43,9 ferm., hæðin 51,7 ferm. og risið er 34,7 ferm. Gólfflötur þar er stærri þar sem töluvert af honum er undir súð.
Á hæðinni er forstofa með parketi á gólfi og fatahengi, baðherbergi er inn af forstofu með dúk á gólfi, sturta er þar og ljós innrétting. Eldhús er með flísadúk á gólfi, flísar eru á vegg á milli skápa, góð innrétting, borðkrókur og stæði fyrir uppþvottavél, svo og vifta. Stofa og borðstofa eru með parketi á gólfi.
Í ris er gengið upp tréstiga og komið í rúmgott hol, en hægt er að nota það sem vinnuaðstöðu eða sem sjónvarpshol, spónaparket er á gólfi og útgengt er út á austur-suðursvalir. Tvö svefnherbergi eru þarna með dúk á gólfi og fataherbergi. Baðherbergið er með dúk á gólfi og innréttingu. Loftið er klætt með panel í risinu.
Í kjallara er gengið niður tréstiga. Komið er í rúmgott sjónvarpshol og herbergi er í kjallara, þvottahús og geymsla. Innangengt er í kjallara frá garði. Köld útigeymsla er einnig fyrir hendi.
Bílskúrinn er með hita og rafmagni, opnara á hurðum, vatni og hillum. Hellulögð innkeyrslan er með hita. Lóð er ræktuð og þar er pallur og verönd.6Brattakinn 9 (2002, 8. janúar). Sótt 29. apríl 2024 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/645960/?t=217053244&_t=1714416081.3874414.
Leitarorð: Hafnarfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 2. maí, 2024
Heimildaskrá
- 1
- 2Sveinbjörn Árnason (1973, 1. febrúar). Presturinn kom að jafnaði í skólann á hverjum degi, bls. 31. Faxi, 33. árg., 2. tbl., bls. 30-31.
- 3Hallmann Sigurðsson (1966, 1. júní). Býli og búendur í Garði 1903-1915, bls.88. Faxi, 26. árg., 6. tbl., bls. 87-92.
- 4Ágústa Edwald, Ásta Hermannsdóttir o.fl. (2008). Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: Fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna), bls. 70-71. Ritstjóri: Birna Lárusdóttir. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands, FS404-08011.
- 5Fasteignaskrá. Brattakinn 9, Hafnarfirði; Málfríður Kristjánsdóttir, Björn Pétursson, Rósa Karen Borgþórsdóttir o.fl. (2020). Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði, bls. 20; Rósa Karen Borgþórsdóttir, Byggðasafni Hafnarfjarðar (2024, 29. apríl). Tölvupóstur.
- 6Brattakinn 9 (2002, 8. janúar). Sótt 29. apríl 2024 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/645960/?t=217053244&_t=1714416081.3874414.
Deila færslu
Síðast uppfært 2. maí, 2024