Sjónarhóll við Reykjavíkurveg 22. Sótt 2. febrúar 2024 af Facebook-síðu Byggðasafns Hafnarfjarðar. Birt þar 10. apríl 2015.
Sjónarhóll við Reykjavíkurveg 22. Sótt 2. febrúar 2024 af Facebook-síðu Byggðasafns Hafnarfjarðar. Birt þar 10. apríl 2015.

Brattakinn 5, Hafnarfirði

Heiti: Sjónarhóll
Byggingarár: 1908
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Eiríkur Jónsson og Sólveig Benjamínsdóttir
Aðrir eigendur:
?: Björn Eiríksson
1948: Magnús Óskar Guðbjartsson og Hallgerður Guðmundsdóttir
Upphafleg staðsetning: Reykjavíkurvegur 22, Hafnarfirði
Fyrst flutt: 1947 flutt til á lóðinni við Reykjavíkurveg
Flutt: 1948 að Bröttukinn 5, Hafnarfirði
Hvernig flutt: Í heilu lagi

Saga:

Árið 1907 fluttu hjónin Eiríkur Jónsson (1856-1922) og Sólveig Benjamínsdóttir (1866-1949) frá Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar með börn sín, sem þá voru orðin 7, en alls eignuðust þau 11 börn. Árið eftir hófust þau handa við að byggja sér hús. Sólveig hafði augastað á lóð við Reykjavíkurveg, gegnt fiskreitum Brydesverslunar (fyrir norðan og vestan þar sem Reykjavíkurvegur og Skúlaskeið mætast nú (2024)), en það land átti Garðakirkja. Sólveig lét sig ekki mun um að fara á fund Jens Pálssonar prófasts og falast eftir lóðinni. Hann tók bón hennar vel og lóðin varð þeirra. Á hæðinni sem húsið stóð var útsýni til allra átta og fékk húsið því nafnið Sjónarhóll og var númer 22 við Reykjavíkurveg. Á lóðinni var einungis ber klöpp, enginn jarðvegur og ekkert lausagrjót, því það hafði allt verið flutt yfir veginn á reiti Bydes.1Guðmundur B. Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 255. Útgáfustaðar ekki getið: Gefið út af höfundi; Dánarminning (1922, 21. júlí). Morgunblaðið, 9. árg., 213. tbl., bls. 3; Guðmundur Gíslason Hagalín (1962). Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá.

Það varð því að flytja að allt grjót í sökkulinn undir húsið. Hann var um það bil ein alin á hæð [um 63 cm], hlaðinn úr óhöggnu hraungrýti, klesst sementsblöndu í holurnar. Húsð var 10 álna langt og 9 á breidd og allmikill skúr við norðurendann. Hæð undir loft var 3½ alin, og risið var það hátt, að vel var manngengt uppi. Niðri var eldhús og tvö herbergi — og önnur tvö uppi á loftinu. Bárujárn var á þaki. Milli laga í veggjum var troðið hefilspónum. Ekki voru veggir málaðir eða skilrúm, en einna var lagður á þetta … og síðan veggfóður. Stór og góð eldavél var í eldhúsinu, og þótti sá hiti, sem frá henni lagði um húsið, nægileg upphitun, svo að ekki voru keyptir ofnar, enda þótti húsið verulega hlýtt. Yfirsmiður var Eggert Böðvarsson, … Með honum unnu að smíðunum þrír lærlingar.2Guðmundur Gíslason Hagalín (1962), bls. 158.

Smíði hússins var lokið á jólaföstu 1908 og næsta vor fékk Sólveig Eyjólf Illugason málara til að mála nafn hússins á skilti sem sett var á húsið. Framan við nafnið málaði hann rauða rós á fagurgrænum stöngli. Þegar spjaldið var síðar endurmálað var rósinni sleppt.3Guðmundur Gíslason Hagalín (1962), bls. 160.

Í brunavirðingu frá 17. janúar 1917 var húsinu lýst þannig:

„A. Íbúðarhús, útveggir og þak úr timbri og járnvarið, L. 6,30m B. 5,75m H. 2,90m. 7 gluggar.   Húsið er einlyft með risi 2,20m. Því er skift niðri í 3 stofur og eldhús, ein stofa fóðruð annars klætt panel og málað, uppi er húsinu skift í 2 herbergi, klætt innan með panel og málað, notað til íbúðar.
B. Við norðurgafl hússins er viðaukabygging úr timbri og  járnvarin, L. 3,20m B. 5,75m H. 2.40m, 2 gluggar, ris 0,50m, skift í 2 stofur og gang til inngöngu í bæði húsin, önnur stofan er fóðruð, annars klætt með panel, allt málað notað til íbúðar. Undir allri byggingunni er kjallari hlaðinn úr hraungrýti og steinlímdur.  H. 1,20m, 3 gluggar.
C. Við suðurhlið hússins er skúr að nokkru úr timbur rimlum, þak úr timbri, járnvarið. L. 3,20m B. 2,50m H. 2,30m, notaður til geymslu á honum er vatnshalla-þak.“4Rósa Karen Borgþórsdóttir, Byggðasafni Hafnarfjarðar (2015, 10. apríl). Tölvupóstur.

Þann 18. apríl 1922 drukknaði Eiríkur ásamt Jóni Ágústi (1901-1922) syni sínum, sem var um tvítugt, og þriðja manni þegar bátur þeirra fórst í ofsaveðri.5Dánarminning (1922, 21. júlí). Morgunblaðið, bls. 3.

Haustið 1946 hófst Björn Eiríksson (1894-1983), sonur Eiríks og Sólveigar, handa við að grafa fyrir nýju húsi í norðausturhorni lóðar Sjónarhóls.6Guðmundur Þórðarson (1980). Heill í höfn. Skipstjórinn og bifreiðastjórinn Björn Eiríksson Sjónarhóli Hafnarfirði, bls. 166. Reykjavík: Bókaútgáfan Bakkafell. Þegar búið var að steypa kjallarann sumarið 1947

… hófst Björn handa um að færa gamla „hólinn“. Hann byrjaði á því að rífa skorsteininn úr húsinu, annars færði hann það með öllu í. Um leið og hann færði það, sneri hann því þannig, að norðurendinn sneri út að götu, en suðurendinn gekk inn á nýsteypta planið, þar sem Björn geymdi timbrið. Gamla húsið náði út á miðjan þennan steypt flöt og var vesturhliðin á suðurlóðamörkunum, þá fyrst fékk hann nægjanlegt rými fyrir nýja húsið. Þetta var mjög erfitt verk, en þannig fór minnst fyrir því og nú gat gamla húsið staðið þar sem það var komið, meðan verið var að byggja það nýja. Gísli Guðjónsson var aðalmaðurinn og verkstjóri við flutninginn á gamla húsinu, en  sjálfur tengdi Björn við það vatnið og frárennslið. Bjó svo fjölskyldan áfram í húsinu í heilt ár.7Guðmundur Þórðarson (1980), bls. 170.

Björn flutti í nýja húsið ásamt Guðbjörgu Jónsdóttur (1894-1993) konu sinni í júní 1948, en áður höfðu tvö barna þeirra hafið búskap í húsinu. Björn og Guðbjörg ánöfnuðu Fimleikafélagi Hafnarfjarðar Sjónarhól eftir sinn dag. Á sjómannadaginn 2. júní 1957 lét Björn reisa á lóð sinni stuðlabergsstein til minningar um föður sinn og þrjá bræður sína sem drukknuðu.8Guðm. Gíslason Hagalín (1969, 9. september). Björn Eiríksson 75 ára í dag: Að duga eða drepast. Morgunblaðið, 56. árg., 195. tbl., bls. 24 og 21. Sá bautasteinn var síðar fluttur í Kaplakrika, þar sem FH-ingar hafa aðstöðu.9Guðmundur Þórðarson (1980), bls. 177; Sarpur, mynd nr. L.K.G./2015-2398-21

Brattakinn 5, Hafnarfirði, í apríl 2024. Ljósm.: Höfundur.

Í gögnum frá Byggðasafni Hafnarfjarðar kemur fram að árið 1948 hafi Magnúsi Óskari Guðbjartssyni (1921-1994) verið heimilað að flytja gamla Sjónarhólshúsið á lóð númer 5 við Bröttukinn í Hafnarfirði. Þar var húsið sett á steyptan grunn og stækkað nokkuð. Ekki er vitað hversu lengi Magnús átti húsið, en í manntalsskýrslu árið 1953 býr hann þar enn ásamt konu sinni Hallgerði Guðmundsdóttur (f. 1924) og fimm börnum þeirra ásamt öðrum hjónum með eitt barn, sem hafa væntanlega leigt íbúð þá sem Magnús auglýsti til leigu í húsinu í ágúst 1950.10Hafnarfjörður (1950, 9. ágúst). Morgunblaðið, 37. árg., 179. tbl., bls. 5.

Þess má geta að Björn Eiríksson sótti skiltið með nafni hússins þegar það hafði verið flutt í í heilu lagi í Bröttukinn, því hann taldi að aðeins eitt hús ætti að bera nafnið, en nýr Sjónarhóll var þegar risinn við Reykjavíkurveg. Skiltið er enn til, því það hangir nú yfir innganginum í félagsheimili FH-inga, Sjónarhól í Kaplakrika, en Björn var mikill velgjörðarmaður félagsins.11Guðmundur Gíslason Hagalín (1962), bls. 160; Rósa Karen Borgþórsdóttir, Byggðasafni Hafnarfjarðar (2015, 10. apríl).

 

Leitarorð: Hafnarfjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 2. maí, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 2. maí, 2024