Brandshús

Brandshús, Miklaholtsseli, Eyja- og Miklaholtshreppi

Heiti: Vestur-Bakki – Vestri-Bakki – Bakki - Brandshús
Byggingarár: 1926
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Júlíus Einarsson og Ragnheiður K. Björnsdóttir
Upphafleg staðsetning: Bakkatún 24, Akranesi
Flutt: 1991 í Miklaholtssel, Eyja- og Miklaholtshreppi
Hvernig flutt: Í heilu lagi

Saga:

Í húsakönnun Eyja- og Miklaholtshrepps segir m.a.:

Árið 1991 var húsið Vestur-Bakki flutt í Miklaholtssel frá Akranesi. Húsið var byggt á Akranesi rétt við Slippinn (Bakkatún 24, áður Strandgötu) árið 1926. Sá sem lét reisa það var Einar Ingjaldsson skipstjóri á Akranesi. Hann bjó sjálfur í húsinu, Síðar bjuggu þar synir hans tveir, fyrst Júlíus og síðan Helgi. Húsið stóð autt á Akranesi þegar það var flutt í Miklaholtssel. Núverandi eigandi er Guðjón Jensson, búsettur í Noregi.1Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur (2014, maí). Eyja- og Miklaholtshreppur. Húsa- og mannvirkjakönnun 2012-2014, bls. 29. Sótt 1. september 2023 af https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_136.pdf

Þetta mun ekki vera allskostar rétt, því það mun hafa verið Júlíus Einarsson (1902-1973) skipstjóri, sonur Einars Ingjaldssonar, sem byggði Vestri-Bakka á Akranesi. Þar bjó hann lengi með eiginkonu sinni, Ragnheiði K. Björnsdóttur (1904-1996) og sjö börnum þeirra, sem öll fæddust í húsinu á árunum 1927 til 1945. Öll voru þau kennd við Bakka (en ekki Vestri-Bakka). Einar Ingjaldsson byggði hins vegar annað hús á Skaganum árið 1922. Það hús stendur enn og er númer 22 við Bakkatún.2Birna G. Hjaltadóttir (2023, 5. september). Tölvupóstur.

Svo virðist sem húsið hafi fengið nafnið Brandshús þegar það var flutt í Miklaholtssel, sem nefnt er Sel í daglegu tali.3Axel Kaaber, Bergþóra Gróa Kvaran, Birkir Ingibjarsson o.fl. (2012). Eyðibýli á Íslandi, 3. bindi: Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Dalasýslu, Snæfells- og Hnappadalssýslu, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu sumarið 2012, bls. 84. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Í fyrrnefndri húsakönnun er húsinu lýst þannig:

Húsið er járnklætt timburhús á steyptum sökkli, 1 hæð og ris. Mænir er yfir miðju húsi. Stigahús gengur út úr húsinu með einhalla þaki. Húsið hefur aldrei verið íbúðarhæft frá því það var flutt í Miklaholtssel og hefur ekkert verið notað. Þar stendur það opið fyrir vindi og úrkomu og orðið hrörlegt. Húsið er lóðarsamningslaust.4Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur (2014, maí), bls. 29.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 20. janúar, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur (2014, maí). Eyja- og Miklaholtshreppur. Húsa- og mannvirkjakönnun 2012-2014, bls. 29. Sótt 1. september 2023 af https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_136.pdf
  • 2
    Birna G. Hjaltadóttir (2023, 5. september). Tölvupóstur.
  • 3
    Axel Kaaber, Bergþóra Gróa Kvaran, Birkir Ingibjarsson o.fl. (2012). Eyðibýli á Íslandi, 3. bindi: Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Dalasýslu, Snæfells- og Hnappadalssýslu, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu sumarið 2012, bls. 84. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.
  • 4
    Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur (2014, maí), bls. 29.

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 20. janúar, 2024