Íbúðarhúsið á Borg á Mýrum 1915-1930. Sarpur.is. Ljósmynd nr. Lpr/2003-498-3.
Íbúðarhúsið á Borg á Mýrum 1915-1930. Sarpur.is. Ljósmynd nr. Lpr/2003-498-3.

Borg á Mýrum

Heiti: Straumfjörður - Borg
Byggingarár: 1896
Brann: 1959
Upphafleg notkun: Íbúðar- og verslunarhús
Fyrsti eigandi: Ásgeir Eyþórsson og Jensína Björg Matthíasdóttir
Aðrir eigendur:
1902: Þjóðkirkjan
Upphafleg staðsetning: Straumfjörður, Mýrum
Flutt: 1902 að Borg á Mýrum
Borg 4

Borg á Mýrum 1930 til 1940. Ljósm.: Jóhannes Óli Guðmundsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. JÓG 001 048 1-1.jpg. Sótt 9. febrúar 2024 Myndasafn (thon.is).

Borg 2

Borg á Mýrum árið 1938. Ljósm.: Björn Björnsson. Sarpur.is. Ljósmynd BB1-1324.

Saga:

Í Straumfirði í Álftaneshreppi á Mýrum var útræði og verslunarstaður fyrr á öldum, en árið 1863 var löggiltur þar verslunarstaður. Þegar Borgarnes varð löggiltur verslunarstaður fjórum árum síðar fór að halla undan fæti fyrir verslunina í Straumfirði. Engu að síður reisti Ásgeir Eyþórsson (1869-1942) verslunar- og íveruhús þar árið 1896. Þegar verslunin lagðist niður var húsið rifið og endurreist á kirkjustaðnum Borg á Mýrum árið 1902. Þar var húsið prestssetur þar til það brann 19. febrúar 1959. Í eldsvoðanum misstu allir sem í húsinu bjuggu allt sitt þó engan sakaði. Í húsinu bjuggu Leó Júlíusson prestur ásamt konu sinni og tveimur ungum börnum, Ólafur Nikulásson ábúandi jarðarinnar og Hans Meyvantsson með konu og tveimur börnum. Eftir brunann stóðu veggir hússins uppi, en húsið óíbúðarhæft. Nýtt prestssetur var reist árið 1962.

Faðir Ásgeirs var Eyþór Felixson (1830-1900). Hann var með verslun í Kóranesi, sem er sunnar en Straumfjörður. Þar hafði hann reist verslunarhús um 1886 . Vorið 1893 flutti Ásgeir, sonur Eyþórs, ásamt konu sinni Jensínu Björgu Matthíasdóttur (1864-1928) í Kóranes ásamt fyrsta barni þeirra, en þau höfðu gift sig tveimur árum áður og búið í Reykjavík. Ásgeir var faktor hjá föður sínum til vorsins 1896 þegar hann fékk ábúð á nokkrum jarðarhundruðum í Straumfirði þar sem hann reisti sér íbúðar- og verslunarhús, sem síðar var flutt að Borg. „Jörðin Straumfjörður er allstór eyja, sem verður landföst, þegar út fellur. Dregur hún nafn af firði, sem skerst inn í landið milli Kóraness og Höllubjargs, sem sagt er kennt sé við hina mikilhæfu og fjölkunnugu Straumfjarðar-Höllu, sem frá er hermt í þjóðsögum.“1Guðmundur Gíslason Hagalín (1973). Ásgeir Ágeirsson, bls. 12-14. Andvari, 1. tbl. 98. árg., bls. 3-59.

Sonur Ásgeirs og Jensínu Bjargar var Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972), síðar forseti Íslands. Hann fæddist árið 1894 þegar foreldrar hans bjuggu í Kóranesi. Hann var átta ára þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur, „… en frá bernsku sinni í Straumfirði átti hann minningar, sem voru honum svo hugstæðar og kærar ævilangt, að enginn efi getur á því leikið, að árin í Straumfirði hafa átt drjúgan þátt í að móta skapgerð hans, hugðarefni og viðhorf.2Guðmundur Gíslason Hagalín (1973), bls. 12-16.

 

Leitarorð: Borgarfjörður

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 9. febrúar, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 9. febrúar, 2024