Blánefsbúð, Víkurbraut 26, Vík í Mýrdal
Mynd 2: Brydebúð til vinstri á myndinni. Næst henni hægra megin er Blánefsbúð og við hlið hennar annað pakkhús sem verslunin átti. Í forgrunni er járnbraut, sem notuð var til að flytja vörur milli pakkhúsanna og sjávar. Ljósm.: Ólafur Jónsson. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. ÓJ-208. Sótt 25. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=640777.
Mynd 3: Skrifstofuhús Kaupfélags Skagfellinga við Víkurbraut árið 1966. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. SÍS-4477-3. Sótt 25. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2151451.
Saga:
Ekki er með öllu ljóst hvenær það hús sem hér er til umfjöllunar var byggt, hvenær það flutt og hvort enn séu að finna einhverjar leifar þess. Hér verður stuðst við skrif Kjartans Ólafssonar í fyrra bindi bókarinnar Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga, sem var gefið út 1987, og grein eftir Sigrúnu Lilju Einarsdóttur í Lesbók Morgunblaðsins árið 1999.
Segja má að upphaf verslunar í Vík í Mýrdel megi rekja til þess að sumarið 1887 lét verslun Brydes í Vestmannaeyjum senda vöruskip til Víkur þar sem viðskiptin fóru fram úti á skipinu. Árið eftir versluðu sendimenn Brydes við Skaftfellinga í hlöðunni í Norður-Vík, en fram að þessu höfðu Mýrdælingar og nærsveitamenn þurft að fara langan og erfiðan veg í verslun á Eyrarbakka, Reykjavík, Vestmannaeyjum eða Papósi. Árið 1889 byggir svo Brydesverslun vörugeymsluhús rétt við Blánefnið, …1Kjartan Ólafsson (1987). Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga. Hundrað ára verslun í Vík í Mýrdal. Fyrra bindi. Vík: Vestur-Skaftafellssýsla; Sigrún Lilja Einarsdóttir (1999, 16. janúar). Brydes-verslun í Vík. Lesbók Morgunblaðsins, 74. árg., bls. 4 0g 5.
… bergnef eitt, sem ber nafn með réttu og stendur enn á sínum stað rétt vestan við þorpið í Vík.
Þarna í „Blánefsbúð“ var tekið við ull og öðrum framleiðsluvörum bænda næstu árin og kaupstaðarvörur afhentar. Verslun þessi var þó aðeins opin nokkrar vikur fyrri part sumars, enda rekin sem selverslun.2Kjartan Ólafsson (1987), bls. 122-123.
Ekki var verslað þarna í búðinni nema fáein sumur, því sjórinn gróf undan húsinu og það var því flutt þangað sem það stóð lengst af við Víkurbraut í Vík, þar sem nú (2024) er húsið númer 26. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær húsið var flutt, en Kjartan Ólafsson telur líklegast að það hafi verið árið 1895. Síðan segir Kjartan:
Úr pakkhúsi Brydesverslunar, sem byggt var úr viðum „Blánefsbúðar“, varð síðar til vesturhluti húss þess, sem nú hýsir skrifstofur Kaupfélags Skaftfellinga og stendur á sama grunni. Í vesturvegg kaupfélagshússins má líklega enn finna spýtur úr „Blánefsbúinni“ hans Brydes, sem reist var sumarið 1889 …3Kjartan Ólafsson (1987), bls. 124.
Skrifstofuhúsnæði Kaupfélags Skaftfellinga var byggt árið 1960 (mynd 3) og var númer 26 við Víkurbraut. Þar er nú (2024) starfrækt hótel.
Mynd númer 1 hér að ofan er talin tekin árið 1891 af Blánefsbúð á sínum upphaflega stað.4Kjartan Ólafsson (1987), bls. 124.
Á mynd númer 2 sést Brydebúð til vinstri á myndinni, en hún var flutt til Víkur frá Vestmannaeyjum árið 1895. Gaflar hennar snúa í austur og vestur. Næst henni hægra megin er Blánefsbúð og við hlið hennar annað pakkhús sem verslunin átti. Þau snúa göflum í norður og suður. Ef grannt er skoðað sést járnbraut, sem notuð var til að flytja vörur milli pakkhúsanna og sjávar. Húsasundið milli verslunarinnar og pakkhúsanna var ætlað bændum til að athafna sig með hesta sína í skjóli fyrir austannæðingnum.5Kjartan Ólafsson (1987), bls. 316-317.
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 25. júlí, 2024
Heimildaskrá
- 1Kjartan Ólafsson (1987). Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga. Hundrað ára verslun í Vík í Mýrdal. Fyrra bindi. Vík: Vestur-Skaftafellssýsla; Sigrún Lilja Einarsdóttir (1999, 16. janúar). Brydes-verslun í Vík. Lesbók Morgunblaðsins, 74. árg., bls. 4 0g 5.
- 2Kjartan Ólafsson (1987), bls. 122-123.
- 3Kjartan Ólafsson (1987), bls. 124.
- 4Kjartan Ólafsson (1987), bls. 124.
- 5Kjartan Ólafsson (1987), bls. 316-317.
Deila færslu
Síðast uppfært 25. júlí, 2024