Mynd 2

Betuhús, Æðey

Heiti: Betuhús - Jónasarhús
Byggingarár: 1773-1792
Upphafleg notkun: Íbúðarhús ?
Fyrsti eigandi: Danakonungur
Aðrir eigendur:
1799: Busch og Paus kaupmenn
1874 eða 1878: Árni Jónsson eða Rósinkar sonur hans
Upphafleg staðsetning: Reykjanes við Ísafjarðardjúp
Flutt: 1874 eða 1878 í Æðey, Ísafjarðardjúpi
Betuhús

Betuhús árið 1973.

Gagnasafn Minjastofnunar Íslands. Verknr. 1001. Betuhús. Ástandskönnun og uppmæling 2018.

 

Betuhús 2

Betuhús í Æðey 1981.

Finnbogi Hermannsson (1981, 31. október). „Sagði einhvern tíma að ég væri rauðsokka ...“ Spjall við Guðrúnu Lárusdóttur húsfreyju og vitavörð í Æðey. Lesbók Morgunblaðsins, bls. 13. Sótt 13. febrúar 2011 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3301839&issId=242070&lang=is

Bethús 3

Betuhús, Æðey, júní 2009. Ljósm.: Höfundur.

Mynd 2

Betuhús nýuppgert árið 2021. Nýja hurð vantar. Ljósm.: Eigendur Betuhúss.

Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.

Saga:

Sagan segir að hús þetta hafi verið hluti af byggingum sem reistar voru í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp í tengslum við saltframleiðslu sem þar fór fram á árunum 1773-1793 samkvæmt fyrirmælum Danakonungs. Soðið var salt úr sjó við hverahita. Þarna voru reist tvö íbúðarhús, annað fyrir forstöðumann og hitt fyrir saltkarla, fimm eða sex suðuhús, tvö þurrkunarhús, stórt salthús og hús yfir sjógeymi, tvö dæluhús, vatnshjól og trérör. Saltsuðan var lögð niður því reksturinn bar sig ekki. Saltið tók í sig blýsambönd úr pönnunum sem notaðar voru og ekki hægt að nota það til að salta fisk því hann varð bláleitur. Reyndist því erfitt að selja saltið. Árið 1799 voru eignir saltverksins boðnar upp. Húsin keyptu kaupmennirnir Busch og Paus.1Guðmundur Finnbogason (ritstjóri) (1943b). Saltgerð. Í Iðnsaga Íslands, síðara bindi, bls. 30-39 Lýður B. Björnsson (1978). Saltvinnsla á Vestfjörðum og saltverkið í Reykjanesi. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 21, bls. 25-69; Lýður B. Björnsson (1979). Saltvinnsla á Vestfjörðum og saltverkið í Reykjanesi. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 22, bls. 7-28.

Ekki er vitað hvenær eða hverjum Busch og Paus seldu húsið, sem hér er til umræðu, sem væntanlega hefur verið annað íbúðarhúsanna í Reykjanesi. Heimildum ber heldur ekki saman um flutnings­árið, né hver flutti það, en annað hvort var það Rósinkar Árnason (1822-1891) eða faðir hans Árni Jónsson sem flutti húsið út í Æðey og gerði að íbúðarhúsi árið 1874 eða 1878 og hafði það þá staðið lengi autt í Reykjanesi.2Finnbogi Hermannsson (1981, 31. október); Minjastofnun Íslands (ódags.). Friðlýst hús og mannvirki. Betuhús, Æðey; Lýður B. Björnsson (1979), bls. 24; Snjáfjallasetur (ódags.). Sótt 27. október 2023 af https://snjafjallasetur.is/byli/8aedey.html. Kristján Jónas Jónasson (1875-1939) og Elísabet Svanhildur Guðmundsdóttir (1880-1963) bjuggu um tíma í húsinu þar til þau fluttu til Reykjavíkur.3Snjáfjallasetur (ódags.). Sótt 27. október 2023 af https://snjafjallasetur.is/byli/8aedey.html Líklega hefur húsið þá fengið nafn sitt og kallað Jónasarhús eða Betuhús, en það heiti virðist hafa náð yfirhöndinni. Byggt hefur verið við húsið sunnan­vert og skúr við vesturhlið.4Minjastofnun Íslands (ódags.). Friðlýst hús og mannvirki. Betuhús, Æðey

Búið var í húsinu í Æðey til ársins 1935 og eftir það var húsið notað fyrir dúnhreinsun og síðar sem geymsla.5Gagnasafn Minjastofnunar Íslands. Verknr. 1001. Betuhús. Ástandskönnun og uppmæling 2018.

Húsinu er lýst þannig á vef Minjastofnunar Íslands:

Betuhús er einlyft, portbyggt timburhús með risþaki, 7,60 m að lengd og 3,99 m á breidd. Skúr er við suðurhlið hússins, 7,60 m að lengd og 3,96 m á breidd, og inngönguskúr við vesturgafl, 4,88 m að lengd og 1,40 m á breidd, báðir með skúrþaki. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir eru klæddir slagþili, þök bárujárni og reykháfur er á þakinu sunnanverðu. Á suðurstafni hússins eru tveir sex rúðu póstagluggar, tveir á norðurhlið auk þriggja rúðu glugga og á gaflhlaði vestan megin eru tveir tveggja rúðu gluggar og hurð fyrir miðju. Á suðurhlið skúrs eru tveir níu rúðu póstagluggar og einn sex rúðu á suðurgafli. Útidyr eru á vesturhlið inngönguskúrs og fjögurra rúðu póstagluggi.
Inn af inngönguskúr er forstofa og í henni stigi upp á loft og dyr að búri og kamesi en inn af því er stofa í austurhluta hússins. Í skúrnum er herbergi í hvorum helmingi og dyr að búri úr því fremra en að stofu úr því innra. Í risi er herbergi í hvorum helmingi. Veggir í eldri hluta hússins eru flestir klæddir standþili eða standþiljum en strikuðum panelborðum inn á milli. Skúr er klæddur strikuðum panelborðum. Í forstofu, búri og kamesi er loft á bitum, málningarpappír á milli bita í stofu og yfirfelld skarsúð á sperrum í risi. Skúrloft er klætt strikuðum panelborðum en inngönguskúr er ófrágenginn að innan. Forstofa, búr, kames og ris eru ómáluð.6Minjastofnun Íslands (ódags.). Friðlýst hús og mannvirki. Betuhús, Æðey

Árið 2019 var ráðist í miklar og mjög vandaðar endurbætur á húsinu þar sem hugað var að hverju smáatriði og stendur nú húsið í Æðey eigendum sínum til mikils sóma.

 

Friðlýsing:

Húsið var friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, sem kveður á um að öll hús sem reist eru fyrir 1850 skulu vera friðuð.7Minjastofnun Íslands (ódags.). Friðlýst hús og mannvirki. Betuhús, Æðey; Þjóðminjalög nr. 88/1989.

 

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. júní, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. júní, 2024