Bakkastígur 7b, Eskifirði
Saga:
Ekki eru til nákvæmar heimildir um húsið sem nú stendur við Bakkastíg 7b á Eskifirði. Í gagnasafni Húsafriðunarnefndar má þó finna eftirfarandi um húsið:
Talið er að húsið hafi verið byggt árið 1862 sem saltgeymsla og verbúð á Vattarnesi við Reyðarfjörð. Um 1912 keyptu tveir Eskfirðingar húsið og fluttu það í tvennu lagi með árabát til Eskifjarðar. Óslitin búseta hefur verið í húsinu síðan 1914. Lengst af bjuggu tvær fjölskyldur í húsinu.
Þegar húsið var skoðað í júní 1994 af fulltrúa Húsafriðunarnefndar ríkisins kom eftirfarandi fram:
Einlyft timburhús byggt 1862, flutt 1915.
Með háu risi í fallegum garði.
Helmingur veggja eru forskalaðir.
Steypt utan á sökkul.
Gluggar nýir, sumir vitlaust smíðaðir, aðrir eldri en ekki upphaflegir.
Bitar í lofti inni upphaflegir að því er virðist.1Gagnasafn Húsafriðunarnefndar.
Í fasteignaskrá er húsið sagt byggt árið 1914, sem virðist þá taka mið af því hvenær húsið var flutt.
Vattarnes er yst á suðurströnd Reyðarfjarðar. Frá nesinu var útræði á sumrum og löngum stundaðar hákarlaveiðar þaðan.2Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1984). Landið þitt Ísland, 5. bindi, bls. 49. Reykjavík: Örn og Örlygur. Eins og áður segir var húsið flutt sjóleiðina til Eskifjarðar. Úr fjörunni var það dregið á trjádrumbum þangað sem það stendur nú.3Ljósmyndasafn Eskifjarðar (2013, 24. nóvember). Sótt 11. apríl 2024 af https://www.facebook.com/profile/100066442585804/search/?q=Bakki
Ekki er vitað mikið um íbúa hússins, en þegar manntal var tekið árið 1920 eru 8 skráð til heimilis í húsinu, sem nefnt er Hús Guðna Sveinssonar, þ.e. hjónin Guðni Sveinsson (1880-1954) sjómaður og Guðrún Sigurðardóttir (1883-1971) ásamt tveimur börnum þeirra og vinnumanni og Herdís Kolbeinsdóttir (1865-1962), sem þá var ekkja, og sonur hennar Ingólfur Einarsson (1894-1984) sjómaður ásamt vinnumanni.4Manntal 1920. Sótt 11. apríl 2024 af https://manntal.is/; Íslendingabók. Sótt 11. apríl 2024 af https://islendingabok.is/.
Voru þeir Guðni og Ingólfur Eskfirðingarnir tveir sem fluttu húsið?
Leitarorð: Eskifjörður – Reyðarfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 12. apríl, 2024
Heimildaskrá
- 1Gagnasafn Húsafriðunarnefndar.
- 2Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1984). Landið þitt Ísland, 5. bindi, bls. 49. Reykjavík: Örn og Örlygur.
- 3Ljósmyndasafn Eskifjarðar (2013, 24. nóvember). Sótt 11. apríl 2024 af https://www.facebook.com/profile/100066442585804/search/?q=Bakki
- 4Manntal 1920. Sótt 11. apríl 2024 af https://manntal.is/; Íslendingabók. Sótt 11. apríl 2024 af https://islendingabok.is/.
Deila færslu
Síðast uppfært 12. apríl, 2024