Bakkabúð á sínum upprunaleg stað. Þorsteinn  Þorsteinsson stendur á tröppunum með Guðrúnu Bjarnadóttur móður sinni.
Freyja Jónsdóttir (2002, 23. júlí). Bakkastígur 3. Morgunblaðið, 90. árg., bls. 22 C.
Bakkabúð á sínum upprunaleg stað. Þorsteinn Þorsteinsson stendur á tröppunum með Guðrúnu Bjarnadóttur móður sinni. Freyja Jónsdóttir (2002, 23. júlí). Bakkastígur 3. Morgunblaðið, 90. árg., bls. 22 C.

Bakkastígur 3, Reykjavík

Heiti: Bakkabúð – Litla Bakkabúð
Byggingarár: 1894
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Þorsteinn Þorsteinsson og Guðrún Brynjólfsdóttir
Aðrir eigendur:
?: Eimskipafélag Íslands
1990: Sveinbjörn Gunnarsson og Kolbrún Mogensen
Upphafleg staðsetning: Lindargata 45 (áður númer 23), Reykjavík
Flutt: 1991 að Bakkastíg 3, Reykjavík
Hvernig flutt: Í heilu lagi
Bakkastígur 3 1

Lindargata 45 og 47 á árunum 1930 til 1940. Nær er Litla Bakkabúð, númer 45. Ljósm.: Lára Sigurbjörnsdóttir eða Ásgeir Ó. Einarsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd nr. 2008 1 022 1-1.jpg.

Bakkastígur 3 3

Húsið flutt frá Lindargötu á Bakkastíg árið 1991. Freyja Jónsdóttir (2002, 23. júlí). Bakkastígur 3. Morgunblaðið, 90. árg., bls. 22 C.

Saga:

Við Bakkastíg 3 í Reykjavík stendur hús sem vekur athygli fyrir snyrtimennsku, nostur og fallegt handbragð við frágang á glugga- og dyraumbúnaði. Þetta hús hefur ekki alltaf staðið þarna, því það var byggt við Lindargötu árið 1894 og ekki flutt á Bakkastíginn fyrr en árið 1991. Fyrst var húsið númer 23 við Lindargötu, en árið 1941 var númerum húsa við götuna breytt og fékk þá húsið númer 45.1Freyja Jónsdóttir (2002, 23. júlí). Bakkastígur 3. Morgunblaðið, 90. árg., bls. 22 C. Húsið hefur væntanlega staðið við Lindargötuna á reitnum milli Vatnsstígs og Frakkastígs.

Fyrsta brunavirðingin á húsinu var gerð í október 1894. Þar segir að húsið sé byggt af bindingi, klætt að utan með borðum, pappa og járni yfir. Þak er klætt járni á langböndum. Niðri í húsinu eru þrjú herbergi og eldhús, allt þiljað og málað. Uppi eru þrjú herbergi sem ekki er búið að fullgera. Kjallari er undir húsinu öllu.
Í virðingu sem gerð var nokkrum árum eftir að húsið var fullbyggt er getið um inn- og uppgönguskúr sem er við norðurhlið hússins, byggður eins og það. Ennfremur segir að á neðri hæðinni séu fjögur herbergi og eldhús. Allt þiljað, veggfóðrað og málað. Á efri hæðinni er sama herbergjaskipun með sama frágangi. Þá kemur fram að gólf í kjallara er úr timbri og hann notaður til geymslu.2Freyja Jónsdóttir (2002, 23. júlí).

Það var Þorsteinn Þorsteinsson (1869-1954) skipstjóri sem lét byggja húsið og nefndi Bakkabúð. Þar bjó hann árið 1900 með eiginkonu sinni, Guðrúnu Brynjólfsdóttur (1877-1964), foreldrum sínum, bróður, verkakonu og 18 ára námsmær. Á lóð sinni byggði Þorsteinn einnig fiskgeymsluhús, skemmur og fyrir neðan Bakkabúð var trébryggja sem útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem Þorsteinn átti ásamt bræðrum sínum. Norðan við húsið voru fiskreitir sem tilheyrðu útgerðinni.

Þau hjónin bjuggu þó ekki lengi í húsinu, því árið 1903 fluttu þau í nýja og stærri Bakkabúð sem þau höfðu látið byggja við hlið þeirrar gömlu (Lindargata 47, sem nú er Skerplugata 11). Upp frá því var eldra húsið kallað Litla Bakkabúð, en þar rak Þorsteinn verslun með ýmsum varningi, m.a. timbri.3Freyja Jónsdóttir (2002, 23. júlí); Páll V. Bjarnason o.fl. (2003). Mýrargötusvæði. Húsakönnun og fornleifaskráning, bls. 63. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 98; Guðjón Friðriksson (2022, 10. febrúar). Sótt 15. október 2023 af https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10228470431895958&set=pb.1536850182.-2207520000&type=3; Guðjón Friðriksson. Alfræði Reykjavíkur. Sótt 15. október 2023 af https://archive.ph/Xzmet/image.  Enn síðar eða 1916 fluttu þau í risastórt steinsteypt hús sem Þorsteinn byggði við Templarasund og fékk nafnið Þórshamar.4Guðjón Friðriksson (2022, 10. febrúar).

Bakkastígur 3, árið 2020. Ljósm.: Höfundur.

Hann [Þorsteinn] var frumkvöðull að vélbátaútgerð við Faxaflóa og gerði fyrstu hafskipabryggjuna í Reykjavík og var bæði skipstjóri og útgerðarmaður. Þorsteinn sat í ótal nefndum t.d. niðurjöfnunarnefnd, og vitamálanefnd. Hann var skipaður eftirlitsmaður skipa og báta árið 1894 og fulltrúi í alþjóðafélagsskap um mannbjörgun.
Þorsteinn var forseti Slysavarnafélags Íslands fyrstu 10 árin eftir að félagið tók til starfa. Einnig átti hann þátt í stofnun margra fyrirtækja. …
Í gegnum tíðina hafa ekki verið margir eigendur að húsinu, síðast meðan það stóð við Lindargötu var Eimskipafélagið eigandi þess. Sveinbjörn Gunnarsson og eiginkona hans, Kolbrún Mogensen, keyptu húsið árið 1990 og var ætlun þeirra að flytja það enda stóð það til að Eimskip léti byggja hótel á þessum slóðum. Nokkur bið varð á að viðunandi staður fengist til þess að setja húsið niður á en í mars 1991 fékkst lóð á Bakkastíg 3.
Kl. 20 hinn 10. maí 1991 var slökkviliðið kvatt að Lindargötu 45. Mikinn reyk lagði frá húsinu frá eldi á annarri hæð. Nærliggjandi hús voru ekki í hættu því að hægur vindur var af suðri og lagði reykinn út yfir sundin. Talið var fullvíst að um íkveikju hefði verið að ræða. Eitthvað í þessa átt hljóðuðu fréttir af brunanum í fjölmiðlum.
Miklar skemmdir urðu af eldinum en burðarvirkið var lítið brunnið nema efst. Húsið hafði ekki fengist tryggt vegna þess að ekki var búið í því. Tjón þeirra Kolbrúnar og Sveinbjörns var því mjög tilfinnanlegt. Efri hæðin og risið brunnu illa, bæði þak og gólf á milli hæða. Þrátt fyrir þetta áfall kom aldrei til greina hjá ungu hjónunum að hætta við að flytja húsið og gera það upp. …
Í byrjun ágúst var búið að ganga frá kjallaranum og húsið flutt á núverandi stað. Jakob Fenger sá um framkvæmdina. Fyrstu nóttina sem húsið átti á Bakkastígnum beið það á vagninum en var híft á grunninn daginn eftir. Jakob Fenger segir að hann hafi aldrei flutt eins illa farið hús sem síðan hefur verið gert upp. Hann kallar húsið “Hið ómögulega”.
Af ódrepandi kjarki og dugnaði hófu þau Kolbrún og Sveinbjörn að gera húsið upp. Burðarvirkið er upphaflegt nema í helmingi efri hæðar og í risi en það skemmdist það mikið í brunanum að endursmíða þurfti það allt. Ekki var neinn fúi í húsinu og kemur það til af því að það var ekki einangrað á milli veggja. Grjóti hafði verið hlaðið í grind hússins upp í miðja veggi en það gegnir nú miklu hlutverki í hleðslum í garðinum á Bakkastíg 3.
Að utan var húsið gert upp eftir sínu upprunalega útliti nema norðan við það var byggður rúmgóður inn- og uppgönguskúr og aðalinngangur fluttur þangað.5Freyja Jónsdóttir (2002, 23. júlí).

 

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 9. febrúar, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 9. febrúar, 2024