Bakkabraut 7, Vík í Mýrdal, um 1999. Heimild: Gata ehf. Húsakönnun Mýrdalshrepps. Sótt 29. júlí 2024 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_207.pdf.
Bakkabraut 7, Vík í Mýrdal, um 1999. Heimild: Gata ehf. Húsakönnun Mýrdalshrepps. Sótt 29. júlí 2024 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_207.pdf.

Bakkabraut 7, Vík í Mýrdal

Heiti: Skálmarbæjarhraun – Hraunin – Hús Benedikts Einarssonar - Fagrabrekka
Byggingarár: <1918
Rifið: 2023
Fyrsti eigandi: ?
Aðrir eigendur:
?: Jón Eyjólfsson og Þuríður Oddsdóttir
1918: Þuríður Oddsdóttir
1920: Benedikt Einarsson og Vilborg Oddsdóttir
1920: Benedikt Einarsson og Vilborg Oddsdóttir / Sveinn Jónsson og Solveig Sigurveig Magnúsdóttir
?: Sveinn Jónsson og Solveig Sigurveig Magnúsdóttir / Eiríkur E. Sverrisson
?: Sveinn Jónsson og Solveig Sigurveig Magnúsdóttir / Magnús Ingileifsson og Steinunn Karitas Andrésdóttir
Upphafleg staðsetning: Skálmarbæjarhraun í Álftaveri, Skaftárhreppi
Flutt: 1920 að Bakkabraut 7, Vík í Mýrdal
Hvernig flutt: Tekið niður

Saga:

Afleiðingar Kötlugossins sem hófst 12. október 1918 voru m.a. þær að allmargir bæir fóru í eyði til lengri eða skemmri tíma. Einn þessara bæja var Skálmarbæjarhraun í Álftaveri, sem komst ekki aftur í byggð, en jörðin var lögð undir Skálmarbæ.

Rústir Skálmarbæjarhrauni. Gísli Gestsson tók myndina 1972. Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. Skg-3171. Sótt 29. júlí 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=737581.

Þekkt er frásögn um smalamenn í Álftaveri sem höfðu verið á afrétti þegar gosið hófst og sluppu rétt undan jökulhlaupinu.

Bændurnir sem voru að smala voru komnir nokkuð nærri Álftaverinu þegar þeir heyrðu dynki og drunur og svo sáu þeir tilsýndar að menn riðu allir burtu frá réttinni og stefndu til Skálmabæjarhrauna sem eru hærri en landið í kring. Stuttu síðar sáu smalarnir jökulhlaupið og þá var ekkert um annað að gera en að skilja féð eftir og ríða sem hraðast undan hlaupinu sem nálgaðist óðfluga.
Breyttu þeir stefnu og héldu í áttina til Skálmabæjarhrauna. Hleyptu þeir hestunum á fleygiferð þvert á skurði og læki. Mátti nú varla á milli sjá hvor hefði betur, hestarnir á harðastökki eða jökulhlaupið. Hestarnir náðu hraunbrúninni rétt áður en hlaupið skall á henni, en svo var það nærri komið, að það féll yfir slóð þeirra 40-50 metra frá hraunbrúninni. Mestur hluti þess fjár sem búið var að smala varð undir hlaupinu. Þessu næst héldu smalarnir til mannanna sem safnast höfðu upp á hraunið. Voru þar komnir allir afréttarmenn og menn sem voru á leið í réttina. Urðu menn harla fegnir er engan vantaði.
Mennirnir riðu svo heim að bænum Skálmarbæjarhrauni og báru allt úr bænum upp á hraunbrúnina og gistu svo með heimilisfólkinu í fjárhúsi sem var lengra uppi í hrauninu. Um nóttina varð engum svefnsamt. Það var ösku- og vikurfall og kolamyrkur sem lýstist upp öðru hvoru af leiftrum frá eldingum, í fjarska heyrðust þrumur og dynkir frá gosinu, og vatnsniður og skruðningar frá jökulhlaupinu. Um morguninn þegar fólkið vaknaði sá það að flóðið hafði farið alveg heim á bæjarhlaðið og á stéttinni við húsið var mittishá jakahrönn. Fjær voru hrannir miklar og hrikalegar jökulborgir. Bærinn Skálmabæjarhraun lagðist í eyði eftir gosið en aðrir bæir í Álftaveri skemmdust lítið.
Það má merkilegt heita að enginn maður skyldi farast í þessum hamförum sem stóðu í 24 daga.1Lilja Magnúsdóttir (ódags.). Kötlugos 1918. Smalarnir á Mýrdalssandi rétt sluppu undan jökulhlaupinu. Sótt 29. júlí 2024 af https://www.klaustur.is/visitklaustur/afthreying/kotlugos-1918-smalarnir-a-myrdalssandi-rett-sluppu-undan-jokulhlaupinu.

Benedikt Einarsson (1893-1970) verslunarmaður við Kaupfélag Skaftfellinga og Vilborg Oddsdóttir (1890-1982) kona hans keyptu járnvarið timburhús í Skálmarbæjarhraunum árið 1920. Húsið keyptu þau af Þuríði Oddsdóttur (1872-1955), sem bjó í Skálmarbæjarhrauni ásamt 7 börnum sínum, en eiginmaður hennar, Jón Eyjólfsson (1865-1918), hafði látist árið 1918.2Eiríkur E. Sverrisson (1988). Víkurkauptún 1890-1930, bls. 99. Í Dynskógar. Rit Vesturskaftellinga, bls. 7-130; Manntal 1920. Sótt 29. júlí 2024 af https://manntal.is/; Anna Lilja Oddsdóttir (2008). „Undur yfir dundu“. Áhrif Kötlugossins 1918 á byggð og samfélag í Vestur-Skaftafellssýslu. Ritgerð til M.S. prófs í Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands; Oddgeir Guðjónsson, Jón Guðmundsson og Júlíus Jónsson (1985). Sunnlenskar byggðir VI. Skaftárþing, bls. 329. Búnaðarsamband Suðurlands.

Reif Benedikt húsið og flutti til Víkur. Byggði hann sér íbúðarhús úr því uppi á Víkurbökkum og kallaði Fögrubrekku. Var húsið byggt þegar dýrtíð var sem mest og sá Benedikt að honum mundi brátt verða um megn að standast kostanð þann sem af byggingunni leiddi. Seldi hann þegar tvo fimmtu hluta hússins Sveini skósmið Jónssyni [1892-1982] frá Reynishólum sem hefir búið þar síðan [skrifað um 1927]. Hinn hluta hússins, eða þrjá fimmtu, seldi hann líka nokkru síðar Eiríki E. Sverrissyni [1876-1932] barnakennara, móðurbróður sínum. En Eiríkur seldi aftur eftir ár Magnús Ingileifssyni [1888-1967], nú háseta á vélbátnum „Skaftfellingi“.3Eiríkur E. Sverrisson (1988), bls. 99-100.

Yfirsmiður við uppbyggingu Fögrubrekku 1920 var Jón Brynjólfsson. Húsið var síðar skráð ssem Bakkabraut 7 í Vík.

Eiginkona Sveins skósmiðs var Solveig Sigurveig Magnúsdóttir (1900-1992) en eiginkona Magnúsar var Steinunn Karitas Andrésdóttir (1885-1963). Eiríkur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Katrín Kristbjarnardóttir (1882-1976). Þau slitu samvistir. Árið 1925 gekk hann að eiga Steinvöru Sigríði Jónsdóttur (1903-1987).4Eiríkur E. Sverrisson (1988), bls. 99-100; Manntal 1920; Páll Eggert Ólafsson (1948). Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940, bls. 422. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. Sótt 29. júlí 2024 af https://baekur.is/bok/dfdd721a-e63f-489d-a5e1-c12615debb70/1/438.

Í október 2021 kom upp eldur í Fögrubrekku. Nokkrar skemmdir urðu á húsinu vegna elds, vatns og reyks, enda var þar mikill eldsmatur, því húsið var einangrað með heyi.5Magnús Þ. Þórhallsson (2021, 18. október). Slapp heill á húfi úr brennandi húsi í Vík í Mýrdal. Sótt 29. júlí 2024 af https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-10-18-slapp-heill-a-hufi-ur-brennandi-husi-i-vik-i-myrdal.

Í húsakönnun sem gerð var árið 2023 segir þetta um Fögrubrekku:

Húsið stóð áður á Skálmabæjarhraunum í Álftaveri en eftir Kötluhlaupið árið 1918 lagðist byggð þar af. Tveimur árumsíðar flutti Benedikt Einarsson húsviðina til Víkur og reisti húsið á þessu stað og kallaði Fögrubrekku. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær húsinu var breytt en þó nokkrar breytingar hafa átt sér stað í tímans rás.
Í húsinu voru áður tvær íbúðir.
Minjastofnun Íslands hefur veitt heimild fyrir niðurrifi hússins.6Urban arkitektar (2023, maí). Húsakönnun, Bakkar og Fit, Vík í Mýrdal, bls. 9. Sótt 29. júlí 2024 af https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_230.pdf.

Heimild Minjastofnunar Íslands var veitt með hliðsjón af ástandsmati hússins, þar sem húsið var talið í slæmu ástandi og óíbúðarhæft og byggingarhlutar þess ekki nýtanlegir. Einnig taldi stofnunin uppruna hússins óvissan og taldi rétt að miða byggingarár Fögrubrekku við flutning hússins í Vík, en ekki upphaflegt byggingarár í Skálmarbæjarhraunum.7Umsögn Minjastofnunar Íslands um Bakkabraut 7, Vík, dags. 7. febrúar 1923. Gagnasafn Minjastofnunar Íslands.

Húsið var síðan rifið árið 2023.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 29. júlí, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 29. júlí, 2024