Austurvegur 21, Selfossi
Saga:
Árið 1899 reisti Íslands Handels- og Fiskerikompagni hús í Búðardal sem kom tilhöggvið frá Noregi. Síðar eignaðist Bogi Sigurðsson húsið, en hann byrjaði sem faktor hjá dönsku versluninni áður en hann hóf verslunarrekstur sjálfur. Hann hætti rekstrinum 1917 og seldi þá Kaupfélagi Hvammsfjarðar vörugeymsluhús sitt, birgðir, bát og bryggju, en Landsbankinn keypti verslunar- og íbúðarhús hans skömmu síðar.
Um þetta leyti var húsnæði það sem Landsbankaútibúið á Selfossi hafði til umráða í Tryggvaskála orðið of lítið. Því var ráðist í það að flytja húsið frá Búðardal á Selfoss sumarið 1919. Húsið var reist á lóð nr. 21 við Austurveg.1Guðmundur Kristinsson (1991). Saga Selfoss I. Frá landnámi til 1930, bls. 267-268. Selfossi: Selfosskaupstaður.
Til verksins var fenginn kunnur byggingameistari og brúarsmiður, Einar Einarsson, sem reisti mörg stórhýsi í Reykjavík m.a. Hótel Borg.
Hann sendi smið um vorið austur að Selfossi til þess að steypa undir það kjallara, Einar Runólfsson. Sjálfur fór hann vestur til þess að rífa húsið. Gekk hann á öll herbergin og strikaði þau með mislitri krít. Reif hann síðan húsið og flutti timbrið með mótorbát til Eyrarbakka og þaðan upp að Selfossi. Var Einar fljótur að setja húsið upp aftur, eins og það hafði verið fyrir vestan og setti á það nýjan inngang af götunni. Um miðjan september var húsið tilbúið og fluttist þá útibúið þangað úr Tryggvaskála. Var haldið reisugildi í afgreiðslusalnum, keypt kaffi og bakkelsi úr Tryggvaskála og vindlar frá Agli.2Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 268.
Um svipað leyti flutti elsta blað landsins, Þjóðólfur, starfsemi sína í kjallara hússins og þar voru prentuð 12 síðustu eintök blaðsins, áður en blaðið hætti starfsemi í janúar 1920.
Húsið var rúmir 132 fermetrar að flatarmáli, tvílyft. Útibúið var til húsa í vesturhluta þess.3Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 268
Þar var allstór afgreiðslusalur og skrifstofa útibússtjóra. Inn af afgreiðslusalnum var steypt, eldtraust hvelfing fyrir sjóð og bækur útibúsins. Austurhluti hússins var fljótlega leigður skrifstofu sýslumanns, en íbúð útibússtjóra var á efri hæð að vestanverðu.4Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 268.
Þegar Kristján Danakonungur 10. kom til Íslands í júní 1921 gisti hann í Landsbankahúsinu. Þá var lokið framkvæmdum við húsið og búið að setja upp fallegt grindverk með fram götunni.5Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 267-268.
Árið 1953 flutti útibúið í nýtt og glæsilegt hús handan götunnar.6Vilhelm G. Kristinsson og Einar B. Ingvarsson (1986). Landsbanki Íslands 100 ára. Svipmyndir úr aldarsögu, bls. 44. Reykjavík: Landsbanki Íslands. Nú (2023) er rekin blómaverslun og fleiri fyrirtæki í húsinu. Auk þess er Fischersetur þar til húsa, tileinkað bandaríska skákmanninum og heimsmeistarnum Róbert James Fischer (Bobby Fischer) og einvígis hans við Rússann Boris Spassky í Reykjavík 1972. Bobby Fischer, sem lést árið 2008, hvílir í Laugardælakirkjugarði, rétt austan við Selfoss.
Leitarorð: Búðardalur
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 28. janúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Guðmundur Kristinsson (1991). Saga Selfoss I. Frá landnámi til 1930, bls. 267-268. Selfossi: Selfosskaupstaður.
- 2Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 268.
- 3Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 268
- 4Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 268.
- 5Guðmundur Kristinsson (1991), bls. 267-268.
- 6Vilhelm G. Kristinsson og Einar B. Ingvarsson (1986). Landsbanki Íslands 100 ára. Svipmyndir úr aldarsögu, bls. 44. Reykjavík: Landsbanki Íslands.
Deila færslu
Síðast uppfært 28. janúar, 2024