Austurvegur 15, Seyðisfirði
Austurvegur 15 með viðbyggingu frá 1925. Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 75. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður.
Austurvegur 15 með viðbyggingu frá 1925 og breytingum sem gerðar voru á gamla húsinu árið 1967. Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 75. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður.
Saga:
Þetta hús byggði Jón Jónsson í landi Kross í Mjóafirði árið 1890 og nefndi það Miðhús. Kross var utarlega við sunnanverðan Mjóafjörð. Miðhús stóð yst í túnjaðri Krossstekks sem varð sjálfstætt býli og var Miðhús afbýli þess. Krossstekkur var spölkorn innar í firðinum en Kross. Krossstekkur fór í eyði um 1950, en ekki er getið um ábúendur í Miðhúsum eftir 1900. Þrátt fyrir nafngift Jóns kölluðu sveitungar hans það Rauða húsið, því það var rauðmálað.1Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 75-77. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður; Hjörleifur Guttormsson (2005). Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar, bls. 151-156. Árbók Ferðafélag Íslands 2005. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
Friðrik Friðriksson segir frá því í endurminningum sínum að hann hafi stundað sjóróðra með Jóni og dvalist þá í Miðhúsum. Hann lýsir húsakynnum þannig:
Híbýlahátturinn var svo varið, að húsið hafði tvö herbergi í öðrum enda, en hinn helmingurinn var ósundurhólfaður og einn geimur. Hjónin og móðir konunnar og systir hennar, ung stúlka 10 eða 11 ára gömul, voru í því herbergi, en sjómennirnir í hinum. Við sváfum þrír í rúmi. Var þar heitt og nokkur svækja á nóttum, og þröngt þótti mjer í rúminu.2Friðrik Friðriksson (1928). Undirbúningsárin. Minningar frá æskuárum, bls. 178. [Reykjavík:] Þorsteinn Gíslason.
Húsbyggjandinn Jón bjó ekki lengi í húsinu, aðeins árin 1890 til 1891 og aftur 1892 til 1893 en flutti þá til Norðfjarðar með konu sinni Önnu Árnadóttur. Í millitíðinni höfðu þeir Jónas Þorsteinsson og Benedikt Þorsteinsson búið þar. Lárus Waldorf var á Miðhúsum frá 1893 til 1895 en við tók Karl Guðmundsson og var til ársins 1898. Hann var því sá sem lengst bjó í húsinu ásamt konu sinni Júlíu Jónsdóttur. Þau urðu frá að hverfa vegna alvarlegra veikinda Júlíu. Með þeim bjuggu ýmist Guðmundur Ásbjörnsson 1895-96 eða Benedikt Þorsteinsson 1897-98. Þá hefur eflaust verið þröngt setinn bekkurinn, því ekki var Rauða húsið stórt. Síðastur bjó Jón Árnason í Miðhúsum 1899 til 1900 með eina kú og 24 hesta töðufeng og þegar hann flutti burt lauk 10 ára sögu hússins í Mjóafirði.3Vilhjálmur Hjálmarsson (1988). Mjófirðingasögur. Annar hluti, bls. 113-117. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Það einkennir sögu Miðhúsa að enginn staldrar þar við nema stutt og flestir að byrja búskap. Eftirtektarverð er bjartsýni þess sem byggir þarna á móabarði ofan við Sandfjöruna. Væntanlega hefur það verið Jón Jónsson. Og þrátt fyrir stutta og stopula búsetu, aðaláherslu á sjósókn og augljós landþrengsli ná menn að rækta túnblett sem gefur kýrfóður.4Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 117.
Aldamótaárið keyptu hjónin Eyjólfur Jónsson Waage og Pálína Guðmundsdóttir Ísfeld húsið og fluttu á Seyðisfjörð. Húsið var sett á lóð nr. 15 við Austurveg. Pálína seldi veitingar í húsinu. Árið 1925 var byggt tvílyft steinhús sambyggt eldra húsinu sem eftir það var notað undir verslunarrekstur.5Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 75-77; Hjörleifur Guttormsson (2005), bls. 151-156.
Ári eftir að húsið var flutt var því lýst þannig:
… 10×9 al, 7 ¾ al hátt. Það er byggt upp úr gömlu húsi að miklu leyti og er úr bindingsverki klætt utan með borðum. Þakið er úr nýju járni í langböndin. Það er víðast múrfyllt í bindinga. Í því eru niðri 3 herbergi og eldhús. Loptið allt er óþiljað og húsið allt er ófullgjört. Við útidyrnar er forskyggni úr timbri. Undir húsinu er kjallari. Í húsinu er eldavjel með víðum leirpípum upp úr þaki.6Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 77.
Lýsing þessi bendir til að húsinu hafi verið breytt töluvert þegar það var reist að nýju eftir flutninginn. Og nú hefur því verið breytt svo mikið að engin merki sjást utandyra um hið upprunaleg hús, það klætt að utan og mansardþakinu sem á því var breytt í lágt ris. Enn má þó sjá leifar hins gamla tíma innandyra.7 Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 77.
Eins og áður segir rak Pálína Waage veitingasölu í húsinu og hún var þar einnig með verslun. Árið 1962 tók dótturdóttir hennar og nafna við keflinu og var verslunin í daglegu tali nefnd Pöllubúð, þó upprunalega heitið hafi verið Verslun E. J. Waage.8Minjasafn Austurlands (2018. 10. desember). Jólagluggi verslunar Pálínu Waage. Sótt 13. nóvember 2023 af https://www.minjasafn.is/frettir/246-jolasyning.
Nú (2023) er rekin í húsinu starfsemi sem kallast Heima Collective og er „þverfagleg kommúna fyrir upprennandi og starfandi listamenn“.9Sótt 23. nóvember 2023 af https://visitseydisfjordur.com/is/culture/heima/ Frumkvöðlarnir sem að starfseminni standa hafa gert húsinu verulega til góða þannig að það sómir sér vel.
Efnisorð: Seyðisfjörður – Mjóifjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 14. desember, 2023
Heimildaskrá
- 1Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 75-77. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður; Hjörleifur Guttormsson (2005). Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar, bls. 151-156. Árbók Ferðafélag Íslands 2005. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
- 2Friðrik Friðriksson (1928). Undirbúningsárin. Minningar frá æskuárum, bls. 178. [Reykjavík:] Þorsteinn Gíslason.
- 3Vilhjálmur Hjálmarsson (1988). Mjófirðingasögur. Annar hluti, bls. 113-117. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
- 4Vilhjálmur Hjálmarsson (1988), bls. 117.
- 5Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 75-77; Hjörleifur Guttormsson (2005), bls. 151-156.
- 6Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 77.
- 7Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 77.
- 8Minjasafn Austurlands (2018. 10. desember). Jólagluggi verslunar Pálínu Waage. Sótt 13. nóvember 2023 af https://www.minjasafn.is/frettir/246-jolasyning.
- 9Sótt 23. nóvember 2023 af https://visitseydisfjordur.com/is/culture/heima/
Deila færslu
Síðast uppfært 14. desember, 2023