Austurvegur 13B, Seyðisfirði
Hægra megin á myndinni má sjá Myndahúsið taka land í fjöruborðinu við Austurveg árið 1912. Ljósm.: Eyjólfur Jónsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Myndavefur. Mynd nr. EYJ 004.jpg. Sótt 17. nóvember 2023 af https://ljosmyndasafn.reykjavik.is/.
Austurvegur 13 B, norðurhlið, um 2020. Ljósm.: Magnús Reynir. Þóra Guðmundsdóttir (2021). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 79. 2. útg. Seyðisfirði: Seyðisfjarðarkaupstaður.
Saga:
Ekki er vitað fyrir víst hvenær þetta hús var byggt en fyrsta virðing þess fór fram árið 1897 og hefur þá að öllum líkindum ekki verið langt síðan það var reist. Húsið var byggt á Vestdalseyri, sem er við norðanverðan Seyðisfjörð, skammt utan við kaupstaðinn. Þarna myndaðist töluverð byggð í kringum Gránufélagsverslunina á árunum 1874 til 1913. Þar var kirkja, barnaskóli, verslun og útgerð. Auk þess var þar rekin prentsmiðja um tíma og veitingahús og þar bjuggu handverksmenn af ýmsu tagi, trésmiðir, gullsmiðir, járnsmiðir, skósmiðir, úrsmiðir ásamt myndasmiðnum Hallgrími Einarssyni, sem byggði húsið sem hér er til umræðu. Vegna þeirrar starfsemi sem fram fór í húsinu var það nefnt Myndahúsið.1Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 16-17 og 73-74. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður.
Mannfjölgunin á Vestdalseyri virðist hafa verið mest á árunum 1880-1900. Þá er íbúatalan á milli 2-3 hundruð manns, þó að sveiflur verði oft milli ára. Á fyrstu áratugum [20. aldar] fer íbúunum eitthvað fækkandi. Um 1920 eru þó þar enn um 20-30 hús sem búið er í.
Á hernámsárunum 1940-1945 hreiðraði setuliðið um sig á Vestdalseyri, og fór þá að verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum. Mun það hafa flýtt fyrir hnignun byggðarinnar sem var þó þegar orðin talsverð. Örlög þessa blómlega þorps virtust vera ráðin. Einstaka fjölskyldur þrauka þó áfram um sinn, en á 7. áratugnum hurfu þeir síðustu á braut. Síðan hefur Vestdalseyri verið eyðibyggð.2Kristján Róbertsson (1995). Byggðarsaga Seyðisfjarðar. Fyrra bindi, bls. 116. Seyðisfirði: Seyðisfjarðarbær.
Í fyrrnefndri virðingu er húsinu lýst þannig:
Það er 12 ál langt, 8 ál breitt og 5 ál hátt. Það er byggt úr bindingsverki, klætt utan með borðum. Það er alþiljað innan og aðskilið í 4 herbergi hvar af 1 er ljósmyndaverkstofa, og yfir höfuð er húsið innréttað fyrir myndasmíðaiðn.3Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
Árið 1989 hóf Hallgrímur að reka ljósmyndastofu sína og rak hana í húsinu til 1903 þegar hann flutti til Akureyrar. Jón Sigurðsson barnakennari keypti þá húsið af Hallgrími. Hann leigði Brynjólfi Sigurðssyni, sem nýkominn var heim frá Kaupmannahöfn, ljósmyndastofuna.
Í Austra vorið 1905 mátti sjá þessa auglýsingu frá Brynjólfi4Auglýsing frá Brynjólfi Sigurðssyni (1905, 13. maí). ). Austri, 17. tbl., bls. 64. Sótt 17. nóvember 2023 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2216703&issId=161252&lang=is.:
Árið 1908 voru gerðar miklar endurbætur á húsinu. Þá var það m.a. hækkað í 9 álnir.5Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74. Eftir lagfæringar var húsinu lýst þannig:
Það er byggt úr bindingsverki, klætt utan með hefluðum og plægðum borðum, þakið er úr borðum, með pappa og járni yfir. Niðri í húsinu er milliklæðning í veggjunum úr plægðum borðum, það er allt þiljað sundur niðri og skilrúmað sundur í 3 herbergi, eldhús og forstofu, sem allt er málað og betrekt Á loftinu eru 2 herbergi, 3 skákompur og gangur. Þakið er fóðrað innan með asfaltpappa og þar yfir með paneli og panelpappír yfir, herbergi eru máluð og betrekt. Í húsinu er múrpípa, að henni ganga 2 ofnar 1 eldavél með múrtöflum á bak við.6Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
Auðséð er að þarna hefur verið vandað til verks, en þrátt fyrir þessar endurbætur, eða hugsanlega vegna þeirra, sá Jón ástæðu til að ráðast í það stórvirki að flytja húsið inn í Seyðisfjarðarkaupstað árið 1912, að Austurvegi 13 B, þar sem það stendur nú.7Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
Árný Stígsdóttir minnist þessarar framkvæmdar á þá leið, að margir menn hafi dregið húsið niður að sjó á plankagrind. Þetta var gert á fjöru og húsið látið flæða upp og það dregið á mótorbáti inn á Leiru. Þar stóð það einhvern tíma áður en því var komið fyrir á steinsteyptum kjallara, þar sem það stendur í dag. Húsið var nokkuð endurbætt samhliða flutningunum, meðal annars byggt við það forskyggni við bakdyr …8Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
Árið 1989 var byggður kvistur á húsið og upp úr síðustu aldamótum var forskyggni baka til við húsið endurbyggt og komið þar fyrir rúmgóðu eldhúsi með gluggum út að Lóninu og baðherbergi. Komnar eru svalir ofan á útbygginguna á norðurhlið.9Þóra Guðmundsdóttir (2021). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 81. 2. útg. Seyðisfirði: Seyðisfjarðarkaupstaður.
Leitarorð: Seyðisfjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 11. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Þóra B. Guðmundsdóttir (1995). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 16-17 og 73-74. [Seyðisfirði:] Safnastofnun Austurlands og Seyðisfjarðarkaupstaður.
- 2Kristján Róbertsson (1995). Byggðarsaga Seyðisfjarðar. Fyrra bindi, bls. 116. Seyðisfirði: Seyðisfjarðarbær.
- 3Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
- 4Auglýsing frá Brynjólfi Sigurðssyni (1905, 13. maí). ). Austri, 17. tbl., bls. 64. Sótt 17. nóvember 2023 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2216703&issId=161252&lang=is.
- 5Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
- 6Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
- 7Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
- 8Þóra B. Guðmundsdóttir (1995), bls. 74.
- 9Þóra Guðmundsdóttir (2021). Húsasaga Seyðisfjarðarkaupstaðar, bls. 81. 2. útg. Seyðisfirði: Seyðisfjarðarkaupstaður.
Deila færslu
Síðast uppfært 11. febrúar, 2024