Asía, Austurvegur 49, Hrísey
Asía, Austurvegi 49, Hrísey, um 1994. Eigandi ljósmyndar: Sigurlína Jónsdóttir.
Asía í Hrísey um 2023. Eigandi ljósmyndar: Sigurlína Jónsdóttir.
Saga:
Við Austurveg 49 í Hrísey stendur hús sem kallað er Asía. Tilurð nafnsins er ekki þekkt, en áður stóð á svipuðum slóðum annað hús með sama nafni. Það hús er nú horfið. Í fasteignaskrá er húsið Asía sagt byggt árið 1930. Ekki er ljóst hvernig það ártal er til komið því það virðist ekki stemma við það sem vitað er um húsið, en uppruna þess má rekja til Siglufjarðar.
Ekki eru miklar heimildir til um húsið á Siglufirði. Í texta með ljósmynd af húsinu kemur fram að Friðrik Stefánsson (1897-1976) í Bakka hafi byggt húsið áður en hann byggði húsið sem nú er númer 65 við Hvanneyrarbraut 65 á Siglufirði, en „okkar hús“ stóð spölkorn sunnar, en húsið númer 65 og var líklega númer 63. Í skýrslu um byggingarár húsa á Siglufirði kemur fram að húsið númer 65 var byggt árið 1925 og því var „okkar hús“ byggt fyrir 1925. Friðrik bjó í húsinu þar til hann flutti í nýja húsið árið 1925. Um tíma bjuggu Oddur Hjálmarsson (1913-1979) og Gunnfríður Friðriksdóttir (1920-1996) í gamla húsinu og Katrín Júlíusdóttir (1919-2005) og Matthías Helgason bjuggu svo í húsinu. Eftir að Katrín flutti til Reykjavíkur var húsið flutt til Hríseyjar.1Ljósmyndasafn Steingríms. Mynd nr. 07-65-011-34. Sótt 29. september 2024 af https://sk2134.is/images2/horfinhus03/07-65-0161-34.jpg; Harpa Grímsdóttir (1998, desember). Byggingarár húsa á Siglufirði. Veðurstofa Íslands. Greinargerð, bls. 20; Facebook. Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir. Sótt 29. september 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=10234118473650068&set=g.634944839888453; Minning: Katrín Júlíusdóttir (2005, 12. október). Morgunblaðið, 93. árg., 276. tbl., bls. 35.
Það mun hafa verið laust eftir 1960 sem húsið var flutt til Hríseyjar. Það var flutt í heilu lagi með strandferðaskipinu Esju og híft upp á vörubíl í Hrísey. Viðbyggingin ofan við húsið á Siglufirði fylgdi ekki húsinu til Hríseyjar. Þegar húsið kom til eyjarinnar beið þess grunnur sem Björgvin Pálsson húsasmíðameistari hafði tekið að sér að gera. Það voru hjónin Anna Soffía Vigfúsdóttir (1918-2008) og Ingvi Árnason (1918-2010) frá Akureyri, sem keyptu húsið og létu flytja til Hríseyjar til að nota þar sem sumarhús. Þau byggðu inngönguskúr við húsið.
Árið 1993 keyptu svo hjónin Sigurlína Jónsdóttir og Michael Jón Clarke húsið Asíu. Þau hafa byggt við húsið, en þegar grannt er skoðað sést form upprunalega hússins vel, jafnvel betur innan dyra en utan.2Þóra Björgvinsdóttir (2024, 28. september). Tölvupóstur; Sigurlína Jónsdóttir (2024, 28. sepember). Munnleg heimild.
Leitarorð: Siglufjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 29. september, 2024
Heimildaskrá
- 1Ljósmyndasafn Steingríms. Mynd nr. 07-65-011-34. Sótt 29. september 2024 af https://sk2134.is/images2/horfinhus03/07-65-0161-34.jpg; Harpa Grímsdóttir (1998, desember). Byggingarár húsa á Siglufirði. Veðurstofa Íslands. Greinargerð, bls. 20; Facebook. Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir. Sótt 29. september 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=10234118473650068&set=g.634944839888453; Minning: Katrín Júlíusdóttir (2005, 12. október). Morgunblaðið, 93. árg., 276. tbl., bls. 35.
- 2Þóra Björgvinsdóttir (2024, 28. september). Tölvupóstur; Sigurlína Jónsdóttir (2024, 28. sepember). Munnleg heimild.
Deila færslu
Síðast uppfært 29. september, 2024