Áshúsið, Glaumbæ, Skagafirði
Hér stendur húsið á sínum upprunalega stað að Ási í Hegranesi árið 1991. Byggðasafn Skagfirðinga - Skagafjörður Heritage Museum (2023, 28. júní). Sótt 12. september 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=1031230961424923&set=pcb.1031231188091567.
„Rafveitumenn passa víra. Farið var austur úr Hegranesi, um Blönduhlíð, yfir Hólminn til Varmahlíðar og norður Langholt. Brúin á Vesturósnum var ófær fyrir þennan flutning, sú nýja var í smíðum.“ Byggðasafn Skagfirðinga - Skagafjörður Heritage Museum (2023, 28. júní). Sótt 12. september 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=1031230984758254&set=pcb.1031231188091567.
Húsinu komið fyrir á grunninum sem hafði verið hlaðinn í Glaumbæ. Byggðasafn Skagfirðinga - Skagafjörður Heritage Museum (2023, 28. júní). Sótt 12. september 2024 af https://www.facebook.com/photo/?fbid=1031230968091589&set=pcb.1031231188091567.
Áshús á safnasvæði Byggðasafn Skagfirðinga í Glaumbæ. Feykir.is. Áshús og fyrirhugaðar breytingar í Áskaffi - Pistinn Byggðasafn Skagfirðinga (2021, 16. júní). Sótt 12. september 2024 af https://www.feykir.is/is/frettir/ashus-og-fyrirhugadar-breytingar-i-askaffi-pistill-byggdasafns-skagfirdinga.
Saga:
Árið 1854 tók Ólafur Sigurðsson (1822-1908) við búi í Ási í Hegranesi af foreldrum sínum. Þar bjó hann ásamt eiginkonu sinni Sigurlaugu Gunnarsdóttur (1828-1905) til ársins 1897. Árið 1883 hófu þau byggingu veglegs timburhúss, þar sem ætlunin var að hýsa kvennaskóla. Af því varð þó ekki, en þau stóðu oft fyrir námskeiðum bæði fyrir stúlkur og drengi.1Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010). Byggðasaga Skagafjarðar. V. bindi, Rípurhreppur – Viðvíkurhreppur, bls. 52-60. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga; Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið. Sótt 12. september 2024 af https://www.glaumbaer.is/is/feed/ashusid.
Húsið var 20×12 álnir að grunnfleti og steinhlaðinn kjallari var undir öllu húsinu. „Veggirnir múraðir innan. Múrsteinar voru milli þilja. Grind hússins var öll töppuð saman. Þiljur felldar saman í nót, heilar fjalir frá gólfi til loft voru ónegldar.“2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010), bls. 54.
Á tímabilinu 1870-1900 mátti rekja margs konar búbætur, sem menn höfðu ekki séð áður, til heimilisins í Ási. Sumt var innflutt og annað endurbætt eða fundið upp á staðnum. Fyrsta fótstigna saumavélin er talin hafa komið í Ás 1870, fyrsta prjónavélin 1874, fyrsta eldavélin stuttu seinna og fyrsta spunavélin 1882. Þar var hraðskyttuvefstóll og ýmsar nýjar vélar notaðar við vefnað og ullarvinnu. Sigurður Ólafsson fann upp handtöng til að klippa tennur í ullarkamba. Sú töng ein sparaði mörg dagsverk. Í Ási var vindmylla til að mala korn og fótstiginn hverfisteinn til að brýna á ljái og önnur eggjárn.
Margir komu í Ás til að læra á nýju tækin og fá gagnlegar leiðbeiningar, svo sem um að nota aktygi í stað reiðtygja til dráttar, trékjálka í staða dráttartauga á ísasleða og að nota rakstrarkonu, vírgrind sem fest var á ljái þannig að rakaðist úr ljáfarinu jafnóðum og slegið var. Margt fleira mætti telja.3Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið.
Sigurlaug Gunnarsdóttir (1828–1905) var stofnandi fyrsta kvenfélags á Íslandi. Saumakona og ljósmóðir. Hún beitti sér ásamt öðrum fyrir því að kvennaskóli hóf störf í Skagafirði árið 1877 og var hann fyrstu árin til húsa á heimili hennar að Ási.
Sigurlaug var jafnframt fyrst íslensk kvenna til að sauma skautbúning eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar málara.4Konur og stjórnmál. Sigurlaug Gunnarsdóttir. Sótt 12. september 2024 af https://konurogstjornmal.is/sigurlaug-gunnarsdottir/.
Þegar hætt var að búa í húsinu árið 1977 höfðu fjórar kynslóðir sömu fjölskyldu búið þar.5Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið.
Árið 1989 gaf Magnús Jónsson (1943-2013), þáverandi bóndi í Ási í Hegranesi, Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ húsið til varðveislu í minningu Ólafs Sigurðssonar og Sigurlaugar Gunnarsdóttur í Ási.6Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið; Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010), bls. 54.
Sunnudaginn 3. mars 1991 var húsinu lyft með krönum af grunni sínum í Ási upp á flutningavagn og það flutt að Glaumbæ, þar sem búið var að steinhlaða kjallara undir húsið. Viðgerðir á húsinu hófust sama ár.7Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010), bls. 54.
Viðgerðunum lauk þann 29. júní 1994 og átti að opna húsið sunnudaginn 3. júlí. Úr því varð þó ekki þar sem það kviknaði í húsinu þann 30. júní og skemmdist húsið töluvert, sérstaklega herbergi og forstofa á miðhæðinni auk þess sem það urði miklar reyk- og vatnsskemdir. Rannsóknarlögreglan taldi að um sjálfsíkveikju út frá fernisolíublautri tusku hefði verið að ræða.
Hófust þá viðgerðir á nýjan leik en þvo og pússa þurfti hverja spýtu. Fenginn var viður úr nokkrum bæjum í Skagafirði til að gera við og því er óhætt að segja að Skagfirðingar allir eigi eitthvað í húsinu. Áshúsið opnaði loks fyrir almenningi þann 1. júní árið 1995 en þá mátti enn finna reykjarlykt í loftinu á efri hæðinni.8Byggðasafn Skagfirðinga – Skagafjörður Heritage Museum (2023, 18. júní). Sótt 12. september 2024 af https://www.facebook.com/byggdasafnskagfirdinga.
Í Glaumbæ er nú vinaleg kaffistofa þar sem borð svigna undan veitingum að hætti myndarlegra húsmæðra á 20. öld og þar eru líka sýningar á vegum byggðasafnsins.9Byggðasafn Skagfirðinga. Áshús. Sótt 12. september 2024 af https://www.glaumbaer.is/is/en/ashus.
Leitarorð: Skagafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 12. september, 2024
Heimildaskrá
- 1Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010). Byggðasaga Skagafjarðar. V. bindi, Rípurhreppur – Viðvíkurhreppur, bls. 52-60. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sauðárkróki: Sögufélag Skagfirðinga; Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið. Sótt 12. september 2024 af https://www.glaumbaer.is/is/feed/ashusid.
- 2Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010), bls. 54.
- 3Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið.
- 4Konur og stjórnmál. Sigurlaug Gunnarsdóttir. Sótt 12. september 2024 af https://konurogstjornmal.is/sigurlaug-gunnarsdottir/.
- 5Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið.
- 6Byggðasafn Skagfirðinga. Áshúsið; Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010), bls. 54.
- 7Hjalti Pálsson, Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson (2010), bls. 54.
- 8Byggðasafn Skagfirðinga – Skagafjörður Heritage Museum (2023, 18. júní). Sótt 12. september 2024 af https://www.facebook.com/byggdasafnskagfirdinga.
- 9Byggðasafn Skagfirðinga. Áshús. Sótt 12. september 2024 af https://www.glaumbaer.is/is/en/ashus.
Deila færslu
Síðast uppfært 12. september, 2024