Ásgarður, Reykjanesi, Ísafjarðardjúpi
Saga:
Árið 1883 setti félagið Mons Larsen & Co. á fót fyrstu hvalveiðistöð Norðmanna á Íslandi á Langeyri við Álftafjörð, snertispöl innan við Súðavík. Einn eigandinn, Svend Foyn, var stöðvarstjóri, en meðeigendur voru þrír tengdasynir hans. Foyn dró sig fljótlega út úr rekstrinum því hann gat ekki sætt sig við þá reglu stjórnvalda að útlendingar yrðu að taka upp fasta búsetu hér á landi og gerast íslenskir (þ.e. danskir) ríkisborgarar til að geta veitt innan landhelgi. Við keflinu tók Thomas Amlie kaupmaður frá Kristjaníu (Osló), einn tengdasona Foyns, sem eignaðist síðan allt fyrirtækið. Amlie fórst í hafi á leið til Íslands árið 1897 og tók þá fyrirtækið A/S Hvalen í Kristianíu við rekstri Langeyrarstöðvarinnar og rak hana til ársins 1904 þegar Chr. Salvesen í Leith í Skotlandi tók við. Skotinn hafði þó ekki í hyggju að reka stöðina, heldur flutti búnaðinn til annarra stöðva hér á landi, í Færeyjum og á Hjaltlandseyjum.1Trausti Einarsson (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir Sagnfræðistofununar Háskóla Íslands 8. bindi, bls. 111. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs; Jón Þ. Þór (1988). Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. III. Bindi. Atvinnu- og hagsaga Ísafjarðarkaupstaðar 1867-1920. Eyrarhreppur 1867-1920, bls. 97-98. Ísafirði: Sögufélag Ísfirðinga; Hreinn Ragnarsson og Steinar J. Lúðvíksson (ritstjórar) (2007). Veiðar Norðmanna við Ísland 1868-1903, bls. 49. Í Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga. 1. bindi, bls. 27-60. Reykjavík: Nesútgáfan.
Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur kom í Álftafjörð í einum að rannsóknarleiðöngrum sínum um landið árið 1887. Hann lýsir bæði húsakynnum stöðvarinnar, vélabúnaði og hvernig hvalurinn var verkaður. Honum segist meðal annars þannig frá:
Verður maður fljótt var við þá [Norðmenn], er komið er í fjörðinn, því öll fjaran er þakin af hvalþvesti og innyflum. Er það allt maðkað og úldið, og leggur ódauninn langar leiðir á móti manni. Á Langeyri er stórt vinnuhús með gufuvélum, íbúðarhús, smiðja o.s.frv. Ekki er þar þrifalegt, allt smitar í grút og brækju, enda er ekki á öðru von, þar sem slík atvinna er rekin með jafnmiklum krafti. Vinnuhúsið er bæði hátt og stórt og margloftað. Þar lá hvalur á stokkunum, og voru Norðmenn önnum kafnir við hvalskurðinn.2Þorvaldur Thoroddsen (1958-1960). Ferðabók. Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898. II. bindi, bls. 135. 2. útgáfa. Fyrst gefin út 1913-1915. Reykjavík: Snæbjörn Jónsson.
Íbúðarhús stöðvarstjórans var mikið bjálkahús, kallað Rauða húsið. Það var flutt á Reykjanes í Ísafjarðardjúpi árið 1940 og notað sem heimavist við skólann þar til ársins 1963.3Trausti Einarsson (1987), bls. 51-52 og 89-90; Svanbjörg Helga Haraldsdóttir (2005, maí). Byggingarár húsa í Súðavík. Greinargerð 05005, bls. 9 og 31. Reykjavík: Veðurstofa Íslands. Ekki er vitað hvernig húsið var nýtt eftir 1904, en ekki er ólíklegt að húsið hafi verið notað af þeim sem ráku fiskverkun og síldarsöltun á Langeyri á árunum 1915 til 1923, Græði hf., Kristjáni Jónssyni og Sigurði Þorvarðarsyni.4Hreinn Ragnarsson (2007). Söltunarstaðir á 20. öld, bls. 288. Í Hreinn Ragnarsson og Steinar J. Lúðvíksson (ritstjórar), Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga. 2. bindi, bls. 281-360. Reykjavík: Nesútgáfan.
Árið 1941 brann veglegt heimavistarhús við Héraðsskólann í Reykjanesi sem byggt hafði verið um 1930. Þá var gripið til þess ráðs að sækja viði hússins á Langeyri og reisa úr þeim nýtt heimavistarhús í Reykjanesi, sem nefnt var Ásgarður. Húsinu var mikið breytt og sótti það útlit sitt í steinsteypt skólahús sem byggt hafði verið árið 1934, teiknað af Þóri Baldvinssyni. Stærð hússins var 37 x 10 til 11 m. Borðsalur, eldhús, búr og kennaraherbergi voru í miðhluta byggingarinnar, Miðgarði,, en alls 17 íbúðarherbergi sitt hvoru megin, 3 til 4 herbergi fyrir starfsfólk en herbergi nemenda voru fjögurra manna með rúmum og skápum. Stúlknavistin var sunnanmegin, Suðurgarður, og drengirnir voru í Norðurgarði. Herbergin fengu síðan ýmis nöfn úr goðafræðinni, t.d. Nóatún og Glæsivellir. Ekkert miðstöðvarkerfi var í húsinu, heldur var jarðhiti úr hver framan við húsið leiddur í stokkum undir gólfplötuna, sem var steinsteypt. Gólfin voru því funheit og ekki voru sett á þau gólfdúkar eða önnur gólfefni, heldur var steypan gljápússuð. Líklega hefur Þórir arkitekt lagt til að húsið yrði forskalað, en timbrið skemmdist út af jarðhitinum. Húsið var orðið afar illa farið um 1962 þegar Páll Aðalsteinsson (1930-2012) þáverandi skólastjóri í Reykjanesi sá ekki annað ráð en rífa húsið.5Páll Aðalsteinsson, fyrrverandi skólastjóri Reykjanesskóla (2010, 29. ágúst). Munnleg heimild; Reykjanesskólinn 1934-1944 (1944). Bls. 22-25. Ísafirði: Prentstofan Ísrún. Höfundur óþekktur, en líklega Aðalsteinn J. Eiríksson; Barnaskólinn Reykjanesi, verknr. 1121 í gagnasafni Húsafriðunarnefndar; Hafsteinn Hafliðason (2024, 21. júní). Sótt 22. júní 2024 af https://www.facebook.com/groups/28917205629/posts/10161194970165630/?comment_id=10161197725275630¬if_id=1718995864304305¬if_t=group_comment. Ólafur J. Engilbertsson, ritsjóri og höfundur (2021). Héraðsskólinn Reykjanesi, bls. 39. Í Þórir Baldvinsson arkitekt, bls. 38-42. Reykjavík: Sögumiðlun og Vesturbær.
Leitarorð: Álftafjörður
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 22. júní, 2024
Heimildaskrá
- 1Trausti Einarsson (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir Sagnfræðistofununar Háskóla Íslands 8. bindi, bls. 111. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs; Jón Þ. Þór (1988). Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. III. Bindi. Atvinnu- og hagsaga Ísafjarðarkaupstaðar 1867-1920. Eyrarhreppur 1867-1920, bls. 97-98. Ísafirði: Sögufélag Ísfirðinga; Hreinn Ragnarsson og Steinar J. Lúðvíksson (ritstjórar) (2007). Veiðar Norðmanna við Ísland 1868-1903, bls. 49. Í Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga. 1. bindi, bls. 27-60. Reykjavík: Nesútgáfan.
- 2Þorvaldur Thoroddsen (1958-1960). Ferðabók. Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898. II. bindi, bls. 135. 2. útgáfa. Fyrst gefin út 1913-1915. Reykjavík: Snæbjörn Jónsson.
- 3Trausti Einarsson (1987), bls. 51-52 og 89-90; Svanbjörg Helga Haraldsdóttir (2005, maí). Byggingarár húsa í Súðavík. Greinargerð 05005, bls. 9 og 31. Reykjavík: Veðurstofa Íslands.
- 4Hreinn Ragnarsson (2007). Söltunarstaðir á 20. öld, bls. 288. Í Hreinn Ragnarsson og Steinar J. Lúðvíksson (ritstjórar), Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga. 2. bindi, bls. 281-360. Reykjavík: Nesútgáfan.
- 5Páll Aðalsteinsson, fyrrverandi skólastjóri Reykjanesskóla (2010, 29. ágúst). Munnleg heimild; Reykjanesskólinn 1934-1944 (1944). Bls. 22-25. Ísafirði: Prentstofan Ísrún. Höfundur óþekktur, en líklega Aðalsteinn J. Eiríksson; Barnaskólinn Reykjanesi, verknr. 1121 í gagnasafni Húsafriðunarnefndar; Hafsteinn Hafliðason (2024, 21. júní). Sótt 22. júní 2024 af https://www.facebook.com/groups/28917205629/posts/10161194970165630/?comment_id=10161197725275630¬if_id=1718995864304305¬if_t=group_comment. Ólafur J. Engilbertsson, ritsjóri og höfundur (2021). Héraðsskólinn Reykjanesi, bls. 39. Í Þórir Baldvinsson arkitekt, bls. 38-42. Reykjavík: Sögumiðlun og Vesturbær.
Deila færslu
Síðast uppfært 22. júní, 2024