Aðalstræti 52, Akureyri, 1899-1905. Ljósm.: Hallgrímur Einarsson. Sarpur: Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. H1-286. Sótt 30. október 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1590861.
Aðalstræti 52, Akureyri, 1899-1905. Ljósm.: Hallgrímur Einarsson. Sarpur: Menningarsögulegt gagnasafn. Mynd nr. H1-286. Sótt 30. október 2024 af https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1590861.

Aðalstræti 52, Akureyri

Byggingarár: < 1852 ?
Upphafleg notkun: ?
Fyrsti eigandi: ?
Aðrir eigendur:
1952: Vilhelmína Lever
1859: Sveinn Skúlason
1862: Jón Chr. Stephánsson
? : Baldvin Jónsson
? : Jóhannes Ólafsson
1939: Rósa Jóhannesdóttir og Halldór Jakobsson
Upphafleg staðsetning: Skjaldarvík við Eyjafjörð ?
Flutt: 1852 að Aðalstræti 52, Akureyri
Aðalstræti 52 3

Aðalstræti 52 á Akureyri í september 1979, bakhlið. Á þessum tíma var steinblikk á húsinu. Heimild: Ingólfur Davíðsson (1980, 31. ágúst). Byggt og búið í gamla daga 304. Tíminn, 64. árg., 193. tbl., bls. 22.

Aðalstræti 52 2

Aðalstræti 52 á Akureyri í ágúst 2023. Ljósm.: ja.is.

Saga:

Talið er að suðurendi hússins sem nú stendur við Aðalstræti 52 á Akureyri hafi verið fluttur þangað frá Skjaldarvík, skammt norðan Akureyrar.

Eftirfarandi rita þau Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir um húsið í endurskoðaðri húsakönnun sem gerð var fyrir Fjöruna og Innbæinn á Akureyri árið 2012:

Uppruni þessa húss hefur verið nokkuð óljós og sögusagnir eru um að elsti hluti þess, suðurhlutinn hefði verið fluttur til Akureyrar frá Skjaldarvík. Það fylgir ekki sögunni hver flutti húsið, hvenær eða hver bjó fyrstur í því á Akureyri. Raunar benda heimildir til þess að ekkert hús hafi verið á þessari lóð fram yfir 1850. Vitað er að Vilhelmina Lever [1802-1879] flutti til Akureyrar frá Syðra – Krossanesi árið 1852 en hún hafði áður búið á Akureyri og m.a. rekið þar verslun. Leiða má líkum til að hún hafi byggt húsið eða komið með það með sér til kaupstaðarins árið 1852. Hún fékk leyfi til veitingareksturs og árið 1853 seldi hún veitingar til gesta og gangandi. Hún seldi húsið árið 1859 til Sveins Skúlasonar [1824-1888]. Sveinn Skúlason fluttist til Akureyrar frá Kaupmannahöfn sumarið 1856 og tók við ritstjórn Norðra af Birni Jónssyni. Björn bjó í næsta húsi fyrir norðan Aðalstræti 52 og þar var prentsmiðjan einnig til húsa. Stuttu eftir að Sveinn keypti húsið réðst hann í að stækka húsið til norðurs og flutti prentsmiðjuna úr Aðalstræti 50 í hús sitt þar sem hún var til 1861. Hann fékk Jón Chr. Stephánsson [1829-1910] timburmeistara í verkið fyrir sig og endaði í stórskuld við hann. Útgáfa Norðra gekk illa og í maí 1862 seldi Sveinn Jóni Chr Stephánssyni húsið sitt og allt kaupverðið gekk upp í skuldir.
Jón Chr. Stephánsson var kvæntur Þorgerði Björnsdóttur [1828-1879]. Hann var bæði snikkari og stórskipasmiður, þótti mikilhæfur maður og kenndi fjölda sveina. Jón hafði smíðastofu í norðurenda húss síns þar sem prentsmiðjan hafði verið um tíma og við norðurgaflinn gerði hann lítinn skúr, þar sem hann hafði ljósmyndavinnustofu. Jón smíðaði nokkur af merkustu húsum bæjarins. Hann var mikill áhugamaður um trjárækt og hóf ræktun framan við hús sitt um 1890, fyrsta trjágarð á Akureyri, að því að sagt hefur verið.
Í húsi Jóns bjó oft fjölmenni, þótt húsið hafi verið lítið. Sveinar hans bjuggu á loftinu og um tíma bjó þar einnig Tómas Davíðsson, barnaskólakennari, með fjölskyldu sinni.
Á eftir Jóni eignaðist Baldvin Jónsson húsið og á eftir honum Jóhannes Ólafsson, en dóttir hans, Rósa, og maður hennar Halldór Jakobsson eignuðust það 1939 og áttu það til alla tíð. Til marks um hve þröngt var búið, má nefna, að á árunum 1915-1923, bjuggu þrjár barnmargar fjölskyldur samtímis í húsinu. Núverandi eigandi Hallgrímur Indriðason hefur endurbyggt húsið á vandaðan hátt og byggt viðbyggðingu eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts.1Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir (2012, maí). Húsakönnun – Fjaran og Innbærinn 2012 endurskoðun könnunar frá 1982 og deiliskipulags frá 1986, ekkert bls.tal.

Vilhelmína Lever setti svip á bæjarlífið á Akureyri á sínum tíma. Þegar hún rak veitingasölu sína í Aðalstræti 52, þar sem hún seldi m.a. smurt braut og kaffi, gerðist hún brautryðjandi í tómstundamálum bæjarbúa, því hún setti upp „strýtuflöt“ við veitingahúsið, en þar var spilaður leikur sem svipar sennilega til keilu. Hún „… [g]iftist Þórði Daníelssyni, bróður Þorsteins á Skipalóni en sú sambúð entist ekki og var hún fyrst íslenskra kvenna til að sækja um og fá lögskilnað árið 1824. Hún eignaðist einn son Hans Vilhelm Lever yngri með Mads Christensen 1833 og ól hún soninn ein upp. Hún er m.a. þekkt fyrir að hafa greitt atkvæði í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri árið 1863, en konur öðluðust ekki kosningarétt fyrr en um 20 árum síðar.“2Kvennasöguganga Jafnréttisstofu, Minjasafnsins á Akureyri og Zontakvenna (ódags.). Sótt 30. október 2024 af https://www.visitakureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Kvennasoguganga_Minjasafnsins_a_Akureyri_og_Jafnrettisstofu.pdf.

Aðalstræti 52 er friðlýst hús. Húsinu er lýst þannig á vef Minjastofnunar Íslands:

Aðalstræti 52 er einlyft timburhús með krossreistu þaki, 12,71 m að lengd og 6,14 m á breidd. Við bakhlið hússins er tengibygging við einlyfta nýbyggingu með risþaki og norðvestan við húsið er bílskúr. Gamla húsið stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli og kjallari er undir miðhluta þess. Veggir eru klæddir listaþili og þak er bárujárnsklætt. Skorsteinn er á mæni upp af útidyrum, þakgluggi er hvorum megin á þaki og lítill kvistur með fjögurra rúðu glugga er á þakinu vestan megin. Á húsinu eru 15 sex rúðu gluggar með miðpósti; sex á framhlið, þrír á suðurgafli, fjórir á bakhlið og tveir á norðurgafli. Tveggja rúðu gluggi er á hvorri gaflhyrnu og þvergluggi á kjallara með fjórum rúðum. Útidyr eru sunnarlega á framhlið og fyrir þeim vængjahurðir á okum og spjaldsett hurð með fjórum smáðum rúðum efst. Að dyrum eru trétröppur.
Inn af dyrum er forstofa, stigi, hlaðinn reykháfur og stofa eru í miðhluta hússins og er hún opin inn í tengibyggingu við bakhlið. Tvær stofur eru í suðurenda og tvö herbergi í norðurenda. Upp af stiga er framloft og baðherbergi og eitt herbergi við hvorn gafl. Veggir á jarðhæð eru klæddir standþiljum en stofa í suðausturhluta er klædd brjótsþili með sneiddum spjöldum að neðan og standþiljum að ofan. Í forstofu, miðstofu og norðvesturherbergi er loft á bitum en í suðurstofum og norðausturherbergi er plötuklætt milli bita. Bitar eru klæddir nema í forstofu. Þeir eru styrktir með lektum ofanfrá og á þeim eru ný gólfborð rishæðar. Gaflherbergi sunnan megin á loftinu er klætt standþili og standsúð en önnur herbergi uppi eru klædd sneiddum panelborðum, veggir, súð og hanabjálkar. Húsið er málað að innan nema forstofa og gaflherbergi sunnan megin.

Á tímabili var húsið klætt steinblikki, en áður var það klætt listasúð.3Hjörleifur Stefánsson (1986). Akureyri. Fjaran og Innbærinn. Byggingarsaga. bls. 96. Torfusamtökin. Nú hefur aftur verið sett listasúð utan á húsið.

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 30. október, 2024

Heimildaskrá

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 30. október, 2024