Aðalstræti 16, Bolungarvík
Aðalstræti 16 eftir að unnar voru skemmdir á húsinu í júlí 2014. Ljósm.: Jóhannes Jónsson. Heimild: Umdeilt hús í Bolungarvík fær upplyftingu (2021, 19. janúar). https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-01-19-umdeilt-hus-i-bolungarvik-faer-upplyftingu
Aðalstræti 16 í júlí 2023. Ljósm.: Ja.is.
Saga:
Í fasteignaskrá er húsið sem nú stendur við Aðalstræti 16 í Bolungarvík sagt byggt árið 1909. Húsið var byggt í Látrum í Aðalvík. Þá var Sigurður Gíslason (1841-1915) þar bóndi. Eiginkona hans var Sigríður Sigurðardóttir (1845-1932). Sigurður bjó á Látrum frá árið 1887 til æviloka árið 1915. „Hann mun hafa verið fyrsti hreppsnefndaroddviti Sléttuhrepps, en var síðan lengi hreppstjóri, og tók því mikinn þátt í sveitarstjórnarmálum. Hann var lengi formaður og fékkst við útgerð og verzlun. Vel gefinn og athugull.“1Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971). Sléttuhreppur. Fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur, bls. 168-169. Átthagafélag Sléttuhrepps.
Árið 1915 gengu Sigríður Þórunn (1885-1974), dóttir þeirra Sigurðar og Sigríðar, og Jóhann Einarsson (1885-1973) í hjónaband og gerðist Jóhann kennari á Látrum. Tóku þá ungu hjónin við heimilishaldi í húsi Sigríðar, ekkju Sigurðar. Vorið 1919 fluttu þau alfarin frá Látrum og Jóhann gerðist kennari við barnaskólann á Ísafirði. Þá varð Gísli (1888-1967) mágur hans einn eigandi íbúðarhússins. „[R]eif hann það um haustið og byggði upp úr því símstöðvar- og íbúðarhús í Bolungarvík.“ Eiginkona hans var Karolína Ólöf Guðbrandsdóttir (1898-1986). Gísli var póst- og símstöðvarstjóri í Bolungarvík til ársins 1944, en eftir það starfaði hann í endurskoðunardeild Póstmálaskrifstofu Íslands þar til hann lét af störfum árið 1966.2Bjarni Eyjólfsson (1967, 1. október). Gísli H. Sigurðsson. Bjarmi, 61. árg., 10.-11. tbl., bls. 28.
Árið 2010 eignaðist Bolungarvíkurkaupstaður húsið og tveimur árum síðar barst húsafriðunarnefnd beiðni um flutning eða niðurrif hússins. Á fundi sínum 8. ágúst 2012 lagðist húsafriðunarnefnd gegn erindinu.3Bréf forstöðumanns Húsafriðunarnefndar til byggingarfulltrúa Bolungarvíkur, dags. 13. ágúst 2012. Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands. Í júlí 2014 voru unnar miklar skemmdir á húsinu með vinnuvél í skjóli nætur.
Eftir skoðun á húsinu 15. júlí 2014 lýsti minjavörður Minjastofnunar Íslands húsinu þannig:
Um er að ræða einlyft timburhús með lágreistu risi og stendur það á hlöðnum kjallara sem steypt hefur verið utaná. Kjallarahleðslan er þykk og gerðarleg og myndar svolitla brún eða kant þar sem gólfbitar timburhússins hvíla. Húsið hefur á einhverjum tímapunkti verið forskalað. Settur hefur verið tjörupappi yfir timburklæðninguna, vírnet og húsið múrað. Sigurður [Gíslason frá Hóli, sem fæddist í húsinu árið 1922] mundi ekki hvenær húsið var forskalað en mundi að áður hefðu veggir verið klæddir þykkum norskum pappa með renningum yfir samskeytum. Pappinn hafi svo verið hvítkalkaður. Af gömlum ljósmyndum að dæma hefur þannig háttað til um fleiri hús í bænum. Á þaki hússins er bárujárn með trefjaplastshúð. Skorsteinn stendur í miðju húsinu og að sögn Soffíu Vagnsdóttur, sem þekkir vel til hússins, stóð eldavél í kjallara þess og tengdist þar skorsteininum. Gengið er inn um skúrbyggingu á vesturhlið en fyrir dyrum er nýleg hvítmáluð spjaldahurð. Búið er að setja nýja glugga með tvöföldu gleri á alla aðalhæðina nema í stofu, á fjórum stöðum á suður og austurhlið. Inni eru veggir og loft klætt með viðarplötum en á stöku stað hefur hefur ekki verið klætt yfir gamlan kúlupanel. Varðandi herbergjaskipan, þá er hún óbreytt frá því að tæknideld Bolungarvíkurkaupstaðar gerði meðfylgjandi uppdrátt árið 1988.
Upprunaleg gerð og varðveisla viða
Nokkur umræða hefur verið um það hvort skúrbygging vestan við húsið sé upprunaleg eða síðari tíma viðbót. Af lýsingum að dæma í bókinni Með hug og orði. Af blöðum Vilmundar landlæknis, þá má ljóst vera að byggingin er í flestum atriðum sömu gerðar, þar með talin skúrbyggingin, og það hafði upphaflega á Látrum, en þar segir á bls. 267 í fyrra bindi:
Herbergjaskipan í húsi þeirra Jóhanns og Sigríðar Þórunnar var sem hér segir: Á miðri norðurhlið [sem nú er austurhlið, innsk. ÞH] var gengið inn í húsið og og inn í litla forstofukytru. Til hægri lágu dyr úr forstofu inn í dagstofu í vesturgafli, er vissi að brekkubrún og sjó, sem fyrr segir. Inn af stofunni, einnig við vesturgafl, var lítið herbergi, og var .að svefnherbergi gömlu konunnar, þegar hún var á heimilinu. Til vinstri handar úr forstofunni var gengið inn í örlítið svefnherbergi þeirra hjóna. Bakvið svefnherbergið í norðvestur [austur?] horni hússins var eldhús og út úr því bíslag við austurgafl og útidyr á bíslaginu til austurs. Við endilanga suðurhlið [sem nú er vesturhlið, innsk. ÞH] hússins var byggður skúr og í honum íbúðarherbergi Gísla í austurenda við eldhússins, en smíðahús hans fram af því og útidyr á vesturenda. Innangengt var úr herbergi Gísla í eldhúsið og úr eldhúsinu í herbergið inn af stofunni.
Svo er helst að sjá að útbygging við götuhlið (austuhlið) gæti verið síðari tíma viðbót. Þar var áður aðalinngangurinn í húsið, við norðurhlið. Sigurður minntist þess að á þessari forstofu hafi verið stór gluggi (til austurs eins og er nú) með lituðu smárúðugleri.
Við skemmdirnar sem unnar voru á húsinu mátti sjá betur gerð og ástand á viðum. Múr hafði fallið af húsinu á norðurhlið og var ákveðið að taka svolítið meira af múrnum til að skoða betur viðarklæðninguna. Um er að ræða standandi klæðningu með þykkum plægðum við og var hann felldur saman í nót. Upphaflega hefur húsið verið klætt listasúð, rauðmálað og mátti sjá far eftir lista á samskeytum. Ekkert sást af hinum þykka tjörupappa sem nefndur var hér að ofan, en nýr tjörupappi hefur verið settur á viðarklæðninguna þegar húsið var múrað. Viðarklæðningin virðist að mestu í góðu standi þar sem hún var skoðuð, en helst hefur hún fúnað neðst við fótstykki. Sigurður hafði á orði að viðurinn líktist mjög borðum úr Einarshúsi, en það stendur í Bolungarvík og var byggt árið 1904. Í sárinu mátti einnig sjá í grind hússins og virstust þeir viðir vera ófúnir.
Kjallari hússins var skoðaður, en gengið er niður í hann gegnum lítið dyraop á götuhlið. Áberandi eru þykkir og gerðarlegir útveggir, en lofthæð er um tveir metar. Kjallarinn er þurr og þrifalegur en að sögn vistaddra hefur kynding hans verið viðvarandi þótt enginn byggi í húsinu. Burðarbitar í gólfi virðast því vera í góðu standi og er að sjá að gólfið hafi ekki hnikast við skemmdarverkið sem unnið var á húsinu. Góðar undirstöður munu auðvelda allar frekari viðgerðir á því.
Því næst var húsið skoðað innandyra á efri hæð. Norðvesturhorn hússins hafði allt verið rifið niður með gröfunni. Sjá mátti hvernig gömul panelklæðning hafði við þessa framkvæmd fallið úr lofti. Í sárinu við útveggina mátti einnig sjá að gamla panelklæðningin hafði aldrei verið fjarlægð af veggjunum, heldur hefur hann verið klæddur af með striga og síðan klæddur plötum. Einnig var kannað hvort panellinn hefði varðveist inni í stofu, og reyndist svo vera. Það er því ekki ólíklegt að gamli kúlupanellinn sé enn varðveittur víðast hvar á veggjum og í lofti. Í eldhúsi er lúga upp á lágreist háaloft og mátti þar skoða ástand viða í þaki. Ofaná loftinu (gólfi háaloftsins) var búið að þétta með steinull. Alla loftun vantar þarna uppi á háalofti og er þar því töluverður raki. Sjá mátti að mygla og nokkur fúi var kominn í þakviði, en viðirnir eru gerðarlegir og ekki vel ljóst á þessu stígi hversu illa þeir eru farnir.
Aðalinngangurinn er nú í gegnum skúrbygginguna á vesturhlið. Uppi á háalofti var búið að þekja loftið með steinull. Þar var nokkur raki og fúi í viðum.
Skemmdir
Ljóst er að verulegar skemmdir hafa verið unnar á húsinu aðfararnótt 7. júlí. Grafan hefur farið inn í norðvestur horn hússins og brotið í raun allt það horn niður, þak, grind og veggi. Auk þess hefur grafan náð að fara inn í miðju hússins og brjóta þar niður skorsteininn. Milliveggur í eldhúsi hefur hins vegar bjargað því að skorsteinninn færi alveg niður. Milliveggurinn er hins vegar illa skemmdur og brotinn. Segja má að skorsteinninn sé einn aðal burðarveggur hússins og hefði hann fallið alveg niður er hugsanlegt að hann hefði dregið meira af þakinu með sér. Rætt var um að hinn brotni skorsteinn hvíli mjög þungt á þakinu og er mikilvægt að létta honum af því fyrir veturinn. Þegar húsinu var lokað eftir skemmdarverkið var öllu lauslegu staflað upp í hrúgu í norðvesturhorni hússins. Við endurgerðina er hugsanlegt að nýta megi eitthvað af gömlum viðum sem þar eru.4Aðalstræti 16, Bolungarvík. Minnispunktar frá vettvangsferð minjavarðar 15. júlí 2014. Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.
Minjastofnun lagði fram kæru á hendur Valdimar Lúðvík Gíslasyni, sem hafði gengist við að bera ábyrgð á verknaðinum. Niðurstaða dóms var sú að ákærði dæmist sekur um brotið og hlaut hann þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm.5Ákæra og dómur Héraðsdóms Vestfjarða 24. febrúar 2017. Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.
Árið 2021 hafði Bolungarvíkurkaupstaður uppi áform um að gera við húsið og koma því í því sem næst upprunalegt horf.6Gögn í gagnasafni Minjastofnunar Íslands. Ekki hefur orðið úr þeim framkvæmdum enn (2023) svo vitað sé.
Leitarorð: Hornstrandir – Aðalvík
Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024
Heimildaskrá
- 1Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason (1971). Sléttuhreppur. Fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur, bls. 168-169. Átthagafélag Sléttuhrepps.
- 2Bjarni Eyjólfsson (1967, 1. október). Gísli H. Sigurðsson. Bjarmi, 61. árg., 10.-11. tbl., bls. 28.
- 3Bréf forstöðumanns Húsafriðunarnefndar til byggingarfulltrúa Bolungarvíkur, dags. 13. ágúst 2012. Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.
- 4Aðalstræti 16, Bolungarvík. Minnispunktar frá vettvangsferð minjavarðar 15. júlí 2014. Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.
- 5Ákæra og dómur Héraðsdóms Vestfjarða 24. febrúar 2017. Í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.
- 6Gögn í gagnasafni Minjastofnunar Íslands.
Deila færslu
Síðast uppfært 23. febrúar, 2024