Sýslumannssetrið – Vertshúsið í upprunalegri mynd. Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999). Saga Húsavíkur. III. bindi, bls. 66. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður.
Sýslumannssetrið – Vertshúsið í upprunalegri mynd. Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999). Saga Húsavíkur. III. bindi, bls. 66. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður.

Gamli Baukur, Húsavík

Heiti: Sýslumannshús – Vertshús – Baukur – Gamli Baukur
Byggingarár: 1843
Brann: 1960
Upphafleg notkun: Íbúðarhús
Fyrsti eigandi: Ríkissjóður, Þingeyjarsýsla – Sigfús Skúlason (Schulesen)
Aðrir eigendur:
1880: Sveinn Magnússon Víkingur og Kristjana Guðný Sigurðardóttir
1894: Kristjana Guðný Sigurðardóttir
1926: Bjarni Benediktsson
Upphafleg staðsetning: Garðarsbraut 22,Húsavík
Flutt: 1926 niður fyrir bakka, Hafnarstétt
Hvernig flutt: Í pörtum
Gamli Baukur 2

Gamli Baukur um 1950 eftir flutning á Hafnarstétt. Arnhildur Pálmadóttir (2015). Húsakönnun. Búðarvöllur (áður Öskjureitur) í miðbæ Húsavíkur, bls. 11. Sótt 8. maí 2023 af https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_179.pdf.

Gamli Baukur 3

Saga:

Árið 1843 var reist sýslumannssetur á Húsavík fyrir Sigfús Schulesen (1801-1862) sýslumann Þingeyinga, en hann hafði verið sýslumaður Suður-Þingeyjarsýslu frá 1841 og fékk svo veitingu fyrir sameinuðum Þingeyjarsýslum tíu árum síðar. Hann fékk lausn frá embætti í febrúar 1861. Við tók Þorsteinn Jónsson (1814-1893) sem var sýslumaður til 1867. Síðan var Lauritz Eðvarð Sveinbjörnsson (1834-1910) sýslumaður til 1874.1Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999). Saga Húsavíkur. III. bindi, bls. 66. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður; Magnús Stephensen (1882). Lögfræðingatal, bls. 218, 249 og 266. Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árg. Sótt af timarit.is 8. maí 2023.

Þegar Benedikt Sveinsson (1826-1899) var settur sýslumaður 1874 kaus hann fremur að búa á Héðinshöfða á Tjörnesi en á Húsavík og lauk þá húsið hlutverki sínu sem sýslumannssetur. Árið 1876 fengu þau Sveinn Magnússon Víkingur (1846-1894) og Kristjana Guðný Sigurðardóttir ljósmóðir (1845-1904) húsið til leigu og fluttu þangað greiðasölu, sem þau höfðu rekið skamman tíma í Stangarbakkabænum. Þau eignuðust húsið árið 1880 og fékk það nafnið Vertshús, en var almennt kallað Baukur og síðar Gamli-Baukur.2Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 66. „Nafnið var komið af því að Sveinn seldi brennivín í staupum og voru staupin kölluð baukar.“3Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 66. Baukur var vinsæll bæði meðal Húsvíkinga og annarra héraðsbúa í aldarfjórðung, frammámanna sýslunnar jafnt sem fátækra bænda í kaupstaðarferðum. Sveinn lést í febrúar 1894, en Kristjana hélt rekstrinum áfram út á vínveitinga­leyfi hans, en fékk vinnumenn sér til aðstoðar. Við fráfall hennar í júní 1904 féll vínveitingaleyfið úr gildi, enda komin fram mikil andstaða gegn vínveitingum og er líklegt að hún hafi þá þegar hætt sölu áfengis frá áramótum 1904 að áeggjan bindindismanna á Húsavík.

Kristjana nam ljósmóðurfræði í Kaupmannahöfn árið 1870. Þegar heim kom var hún fyrst ljósmjóðir á Akureyri þar til hún giftist Sveini og þau fluttu til Húsavíkur. Þar var hún ljósmóðir til dauðadags ásamt því að sinna veitinga- og gistihúsinu sem þau hjón ráku og auðvitað heimilisstörfum. Hún eignaðist sjö börn á tólf árum, en einungis þrír drengir lifðu til fullorðinsára.4Benedikt Jóhannesson (2018, 16. apríl). Sköruleg kona svo af bar – um langömmu – Kristjönu Sigurðardóttur, ljósmóður og veitingakonu. Heimasíða Benedikts Jóhannessonar. Sótt 10. maí 2023 af https://bjz.is/2018/04/16/skoruleg-kona-svo-af-bar-um-langommu/

Baukur varð nú aftur að íbúðarhúsi og stundum var þar fjölmennt. Til dæmis voru 19 mann skráðir þar með búsetu árið 1919.

Þegar til stóð að byggja samkomuhús á Húsavík við Garðarsbraut 22 árið 1926 var gert samkomu­lag við þáverandi eiganda Bauks um að flytja húsið niður fyrir sjávarbakkann. Þá var Bjarni Benediktsson (1877-1964) kaupmaður og útgerðarmaður eigandi hússins.5Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 67-68. „… húsið [var] þiljað í sundur og notað sem geymslur undir aktygi og fleira sem þurfti að geyma en einnig skipt í fjóra til fimm beituskúra sem Bjarni leigði þeim sem lögðu upp hjá honum.“6Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 68.

Húsið eyðilagðist í bruna árið 1960, en þess má geta að við Hafnarstétt 9, á svipuðum slóðum og gamla húsið stóð, var reist árið 1998 hús í mynd hins upprunalega Gamla Bauks, hannað af Reyni Adamssyni arkitekt. Þar hefur verið rekið veitingahús sem heitir Gamli Baukur.7Arnhildur Pálmadóttir (2012). Húsakönnun – Miðhafnarsvæðið á Húsavík. Hafnarstétt og Garðarsbraut, bls. 39. Sótt 10. maí 2023 af https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_183.pdf

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 30. janúar, 2024

Heimildaskrá

  • 1
    Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999). Saga Húsavíkur. III. bindi, bls. 66. Húsavík: Húsavíkurkaupstaður; Magnús Stephensen (1882). Lögfræðingatal, bls. 218, 249 og 266. Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árg. Sótt af timarit.is 8. maí 2023.
  • 2
    Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 66.
  • 3
    Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 66.
  • 4
    Benedikt Jóhannesson (2018, 16. apríl). Sköruleg kona svo af bar – um langömmu – Kristjönu Sigurðardóttur, ljósmóður og veitingakonu. Heimasíða Benedikts Jóhannessonar. Sótt 10. maí 2023 af https://bjz.is/2018/04/16/skoruleg-kona-svo-af-bar-um-langommu/
  • 5
    Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 67-68.
  • 6
    Björn Helgi Jónsson og Sæmundur Rögnvaldsson (1999), bls. 68.
  • 7
    Arnhildur Pálmadóttir (2012). Húsakönnun – Miðhafnarsvæðið á Húsavík. Hafnarstétt og Garðarsbraut, bls. 39. Sótt 10. maí 2023 af https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_183.pdf

Deila færslu

Höfundur: Guðlaug Vilbogadóttir.
Síðast uppfært 30. janúar, 2024